25.6.2014 | 23:24
Í hringiðu sex daga stríðsins
Miðvikudagur 25. júní 2014
Í dag hitt ég merkilegan hóp en þar voru að koma saman nokkrir Íslendingar sem lentu í hringiðu sex daga stríðsins í júní árið 1967, þar á meðal foreldrar mínir.
Sex daga stríðið var stríð milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið stóð yfir dagana 5.-10. júní árið 1967 eða fyrir 47 árum. Um þetta leiti fór um 20 manna hópur frá Íslandi saman í mikla ævintýraferð til Grikklands, Líbanon, Eygptalands og Jórdaníu. Hópurinn var einmitt staddur í Jórdaníu, í lokaáfanga ferðarinnar, þegar stríðið hófst. Þau voru þá að skoða Jerúsalem, en Austur-Jerúsalem tilheyrði þá Jórdaníu. Eftir að stríðið braust út var talið ráðlegt að koma hópnum úr landi sem allra fyrst. Hópurinn var fluttur í rútu ásamt hópi annara borgara vestrænna þjóða til flugvallarins í Amman, höfuðborgar Jórdaníu, þar sem þau áttu að fljúga burt. Rétt fyrir komuna á flugvöllinn (líklega 10-15 min aksturfjarlægð) birtust allt í einu ísraelskar herþotur yfir höfðum þeirra og vörpuðu sprengjum á flugvöllinn þannig að allar flugbrautir eyðilögðust. Okkar fólk fór í skjól á meðan undir nálægu klettabelti. Það var því lítið flogið þann daginn en rútan keyrði í loftköstum til Amman þar sem þau voru lokuð inn á hóteli og máttu ekkert hreyfa sig. Hópurinn þurfti að vera stöðugt viðbúinn að yfirgefa hótelið í skyndi. Eftir bið í 6 daga komu nokkrar amerískar Herkúlesflutningavélar á vegum Sameinuðu þjóðanna og amreríska Rauða krossins, sérstaka ferð til Amman til að sækja vestræna ríkisborgara og flugu með hópinn til Teheran í Íran sem var þá öruggasti staðurinn í Araþarlöndum (ólíkt því sem það er í dag). Þar tók Bandaríska sendiráðið á móti hópnum og bauð í hamborgaraveislu áður en fólk komst síðan áfram til síns heima, en okkar fólk komst frá Teheran eftir bið í tvo daga og flaug þá til London.
Endalok þessa stutta stríðs voru þau að Ísraelsmenn náðu yfirráðum yfir Sínaí-skaga, Gasasvæðinu, Vesturbakka Jórdanár, Austur-Jerúsalem og Gólanhæðum en þarna hefur síðan verið mikill órói allar götur síðan eins og flestir þekkja. Talið er að yfir tuttugu þúsund manns hafi látið lífið í stríðinu og mun fleiri særst, flestir úr liðum Arabalandanna.
Hópurinn sem hittist í dag minntist þessarar ævintýraferðar og skoðaði myndir. Eðlilega eru nokkrir ferðalanganna fallnir frá og einhverjir komust ekki, en mjög gaman og fróðlegt var að hitta þetta fólk og heyra sögu þeirra.
Mynd dagsins er ekki tekin í dag heldur fengin að láni úr myndasýningu dagsins. Þarna er nokkrir úr íslenska hópnum á flugvellinum í Teheran að koma út úr amerískri Herkúles-herflutningavél sem flutti hópinn (ásamt fleirum) frá flugvellinum í Amman, höfuðborg Jórdaníu. Pabbi tók þessa mynd og er mamma auðvitað í forgrunni. Það var ánægjulegt að hitta suma ferðalangana í dag þegar hópurinn kom saman og rifjaði upp þessa miklu ævintýraferð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.