23.6.2014 | 19:28
Ýmir og Ýma sigruð!
Sunnudagur 22. júní 2014
Rétt eins og í gær, eru við Inga í gönguferð í Tindfjöllum í dag. Við erum átta saman og verkefni dagsins er að ganga á hæstu tinda svæðisins - Ými og Ýmu. Í gær var blinda þoka mest allan tíman en um hádegi í dag var þokunni létt og sólin tók að skína skært.
Við vorum því í æðislegu veðri að ganga á Ými og Ýmu sem eru í Tindfjallajöklinum. Vel fært var upp á báða tindana og fínasta útsýni til allra átta - yfir hluta Fjallbaksleiðar og "Laugavegarins", Þórsmörk, Eyjafjallajökul og víðar. Þetta var reyndar langur dagur, því eftir að hafa sigrað Ými og Ýmu fórum við líka á tvo aðra tinda á svæðinu, þá Saxa og Haka. Um kvöldið kvöddum við Inga hópinn, sem ætlar að taka 2-3 tinda í viðbót á morgun, og brokkuðum niður í Fljótshlíð (Fljótsdal) þar sem bíllinn beið okkar. Við vorum því rúma 12 tíma á göngu í dag og komum seint heim en dagurinn var alveg æðislegur.
Mynd dagsins er af okkur Ingu á tindi Ýmis, hæsta tindsins í Tindfjöllum (1462 m). Í baksýn er hinn tindurinn, Ýma (1448 m), sem einnig var sigruð. Frábær ferð í frábærum félagsskap enda lék veðrið við okkur í dag. Til gamans fylgir hér aukamynd sem ég tók af ferðafélögunum kampakátum sem þarna eru að koma niður af Ýmu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.