18.6.2014 | 23:27
Ævintýraheimar Hrafnsaugans...
Miðvikudagur 19. júní 2014
Við Magnús Árni lesum yfirleitt saman spennandi bækur á kvöldin (í um 10-15 min á kvöldi). Þessa dagana erum við að ljúka við að lesa mjög spennandi íslenska bók sem heitir Hrafnsauga - þriggja heima saga.
Bókin Hrafnsauga er eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, sem ég veit svo sem ekki deili á. Bókin kom út árið 2012 og fékk sama ár bæði Íslensku barnabókverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sem besta íslenska táningabókin. Á bókarkápu kemur fram að bókin sé sú fyrsta í þríleik. Umfjöllunarefnið eru þrír unglingar sem þurfa að spjara sig í vel úthugsuðum og flóknum ævintýraheimum þar sem alls konar forynjur, galdrar og leyndardómar eru í aðalhlutverki. Ég veit ekki hvort að sagan minni mig sterklega á eitthvað sérstakt en hún er sannarlega eitthvað sambland af Hringadróttinssögu, Hobbitanum, Harry potter og fleiri slíkum ævintýrum. Höfundarnir hafa greinlega lagt mikla vinnu í að skapa þennan ævintýraheim enda er allt úthugsað og textinn er vel læsilegur og aðgengilegur. Fyrir þá sem gaman hafa af fyrrnefndum sögum er þessi bók alveg skyldulesning.
Mynd dagsins er fengin af láni í netheimum og sýnir forsíðu bókarinnar Hrafnsauga sem við Magnús Árni erum að klára að lesa saman þessa dagana. Mjög skemmileg bók sem má alveg mæla með
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.