Magnaðir Móskarðshnjúkar!

Laugardagurinn 14. júní 2014

 Þó ég hafi vaknað tiltölulega snemma í morgun, farið í ræktina og verið duglegur frameftir degi í garðinum að slá, slípa og mála, var ég samt dreginn í fjallgöngu þegar degi tók að halla. Við Inga smelltum okkur í blíðunni í ljómandi fínan göngutúr á Móskarðshnjúka sem eru ekki svo langt frá okkur hér í Mosfellsbænum. Þegar heim var komið skelltum við lambafile á grillið og opnuðum rauðvín þannig að dagurinn og kvöldið varð alveg hreint ljómandi.

Það er mjög skemmtilegt að ganga á Móskarðshnjúka. Þeir eru staðsettir við Esjuna (til hægri, í átt að Þingvöllum) en áður en komið er að Skálafelli og hafa þeir yfir sér sérstakan blæ með þar sem þeir eru ljósari á litinnn en önnur fjöll í kring. Vegna þessa virðist oft sem að sólin skíni skært á þessa tinda umfram aðra nálæga tinda. Fyrir þá sem fara oft á Esjuna eru Móskarðshnjúkarnir fín tilbreyting og ekki síðri gönguleið. Hæðin er svipuð en gangan heldur lengri þar sem hægt er að ganga á þrjá tinda. Neðri hluti leiðarinnar er ekki ólíkur Esjunni en þegar í efri hlutan er komið breytist landslagið í ljósar líparít-skriður. Fyrir þá sem þekkja til í Landmannalaugum er þessi hluti leiðarinnar ekki ósvipaður og að ganga á Brennisteinsöldu (sem er líklega þekktasta fjallið þar). Hæsti tindurinn, sem er fjærst Esjunni, minnir reyndar bara mjög mikið á Brennisteinsölduna, meira að segja hár og dökkur klettadrangur til hægri við stíginn ofarlega í fjallinu. Útsýnið er svo frábært til allra átta og ótrúlegt að maður sé staðsettur á höfuðborgarsvæðinu.

 Móskarðshnjúkar

Mynd dagsins er tekin á tindi Móskarðshnjúka (þeim hæsta, sem er fjærst Esjunni). Þetta er "selfie" af okkur Ingu og í baksýni má sjá annan tind hnjúkana, Esjuna og efst til vinstri er Höfuðborgarsvæðið. Frábær gönguferð í frábæru veðri seinni partinn í dag! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað þið eruð sæt á þessari mynd :)

Kristín Erla (IP-tala skráð) 15.6.2014 kl. 19:20

2 identicon

Þetta er mjög skemmtileg og falleg ganga. Ég fór þessa leið fyrir þremur árum síðan á svipuðum tíma.

Sigrún Þ (IP-tala skráð) 15.6.2014 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband