7.6.2014 | 09:03
Þar sem Skagamenn koma saman...
Föstudagur 6. júní 2014
Sumarið kom í dag. Veðrið var hreinlega frábært og má því með sanni segja að sumarið sé formlega búið að stimpla sig inn. Þar sem ég var í fríi var ekki annað hægt en að vera úti og sinna ýmsum störfum í garðinum. Seinni partinn fór svo hluti fjölskyldunnar á Akranes, þar sem mamma og pabbi búa. Þar var einnig rjómablíða og margt afrekað í garðinum þar eins og heima hjá okkur fyrr um daginn. Og ekki spillir svo fyrir kvöldverður að hætti mömmu.
Mér finnst alltaf gaman að koma á Skagann og hitta kunningja og vini. Besta leiðin til að gera það er að fara á völlinn (lesist knattspyrnuvöllinn) þegar það er heimaleikur. Ég reyni því að gera það af og til enda hægt að sameina þar tvö skemmtileg áhugamál: fótbolta og að hitta skemmtilegt fólk. Knattspyrnuliðið má reyndar muna fífil sinn fegurri þar sem liðið hefur verið meira og minna í 1. deild (næst efstu deild) síðstu ár, en engu að síður heldur fjöldi Skagamanna tryggð við liðið og mætir á þessi skemmtilegu mannamót Skagamanna.
Mynd dagsins er tekin á íþróttavellinum á Akranesi í kvöld. Sólin skein í heiði þegar heimamenn léku við HK úr Kópavogi. Til að smella af myndinni steig eitt skref afturábak og náði þannig að mynda "stæðið" sem ég stóð í og útsýnið mitt, milli félaga minna Ástþórs og Gurra sem má sjá glitta í bakhlutan á. Skemmtilegur seinni partur og kvöldstund á Skaganum í kvöld og ekki spillir fyrir að ÍA vann leikinn 2-0
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.