12.4.2010 | 22:30
Fagurt útsýni úr Fljótshlíðinni
Föstudagur 2. apríl 2010
Vegna fermingar Ágústar Loga um síðustu helgi ákáðum við fjölskyldan að vera einstaklega róleg í tíðinni yfir páskahátíðarnar. Oft höfum við farið norður til Akureyrar þessa daga, en núna var dvalið sunnan heiða. Seinni partinn í dag fórum við þó í bíltúr inn í Fljótshlíð til að skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Í Fljótshlíðinni voru mjög margir á ferðinni, örugglega 500-1000 bílar. Þrátt fyrir gott veður sáum við nú ekki mikið af gosinu í dagsbirtunni, en um leið og fór að rökkva sást appelsínuguli liturinn í gosinu betur. Við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni og fórum alveg inn að fjallinu sérstaka og skemmtilega - Einhyrningi. Best var útsýnið á gosið til móts við Þórsmörk og Húsadal. Þetta var mjög tilkomumikið og við náðum nokkrum góðum myndum. Á leiðinni til baka lentum við í miklum umferðartöfum við að komast út úr Fljótshlíðinni, enda mikill fjöldi bíla á svæðinu og vegirnir ekki gerðir fyrir mikla umferð í báðar áttir. Allt tókst þetta nú að lokum. Við héldum nú reyndar ekki heim á leið eftir eldgosaskoðunina heldur var farið í bústað foreldra minna í Úthlíð þar sem gistum um nóttina.
Mynd dagsins er tekin innst í Fljótshlíðinni nú í kvöld og sýnir eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Inga smellti af þessari skemmtilegu mynd rökkri en góðu veðri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.