11.4.2010 | 13:52
Lokaundirbúningur fyrir ferminguna
Laugardagur 27. mars 2010
Í dag er lokaundirbúningur fyrir fermingarveislu Ágústar Loga, sem er á morgun. Allt er á fullu og í mörg horn að líta. Í gærkvöldi komu Jóna systir Ingu frá Akureyri og synir hennar Rúnar og Arnar ásamt Hildi kærustu Arnars. Þær systur voru svo í dag að leggja lokahönd á kransakökur og fleiri skreytingar sem notaðar verða. Annars sleppum við nú frekar vel þar sem veislan verður haldin í félagsheimilinu Hlégarði hér í Mosfellsbænum og starfsfólkið þar sér um mat og grunnskreytingar . Sjálfur var ég í mestallan dag að undirbúa myndasýningu sem notuð verðuð í veislunni á morgun. Ég skannaði inn myndir af Ágústi Loga frá fyrstu árunum en það var í kringum 2002 sem við fjölskyldan fengum okkur stafræna myndavél. Árin eftir það eru öll til í tölvu (þ.e. myndir frá öllum helstu viðburðum fjölskyldunnar). Hins vegar tók drjúgan tíma að fara í gengum þetta allt en eftir daginn standa rúmlega 100 skemmtilegar myndir úr lífshlaupi fermingadrengsins sem sýndar verða á vegg í fermingarveislunni á morgun. Nokkrar þeirra valdi ég svo í sérstakt Slide-show sem ég ætla að tala sérstaklega um og segja frá í veislunni. Annars er bara allt orðið klárt og skemmtilegur dagur er framundan. Við pöntuðum svo heilu stæðurnar af pizzum ofan í mannskapinn sem kvöldmat nú í kvöld og það var mikið fjör.
Mynd dagsins er tekin í eldhúsinu hjá okkur í dag og sýnir systurnar Ingu og Jónu sem eru þarna á fullu að undirbúa kransakökur og fleiri kræsingar fyrir fermingu morgundagsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.