3.2.2010 | 23:33
Hamstur kominn á heimilið!
Þriðjudagur 26. janúar 2010
Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið - hamsturinn Skúri. Skúri kom til okkar í gær í afmælisveislu Magnúsar Árna. Magnús hafði frétt af því að í gamla daga hefði ég kunnað að sýna töfrabrögð og því til stuðnings var hann búinn að finna forláta galdratösku mína upp á háalofti. Ég lofaði að reyna að gera eitthvað. Eftir að hafa sýnt piltunum nokkur töfrabrögð voru þeir nú samt á því að það væri ekki hægt að galdra í alvörunni. Eftir nokkrar rökræður við drengina varð úr að ég þyrfti að galdra dýr til að geta sagst vera alvöru galdramaður. Ákveðið var að ég skildi galdra fram annað hvort hamstur eða ljón. Mönnum þótti nú öruggara að það væri hamstur þar sem ég sagðist ekki vera viss um að geta galdrað fram dýr og ég gæti þá örugglega ekki galdrað það til baka aftur. Ekki vildu þeir að við sætum uppi með ljón svo hamstur varð fyrir valinu. Það varð heldur en ekki betur undrun í hópnum þegar ég galdraði fram hamstur. Að sjálfsögðu tókst mér samt ekki að galdra hamsturinn til baka þannig að honum var komið fyrir í fötu og ég sendur út í búð að kaupa mat o.fl. Magnús Árni vildi endilega fá að eiga hamsturinn og eftir að hafa auglýst eftir búri á facebook máttum við nálgast eitt slíkt hjá nágrönnum okkar. Magnús skýrði hamsturinn Skúra og við erum nú búin að fá leiðbeiningar í dýrabúð hvernig á að hugsa um hann því við höfum aldrei átt hamstur áður.
Mynd dagsins er af nýjasta fjölskyldumeðliminum, hamstrinum Skúra. Hér er hann í ægilega fínu búri sem við fengum hjá nágrönnum okkar og verður framtíðarheimili Skúra!
Athugasemdir
Vá til hamingju með hamsturinn..... verð að segja að þetta kom mér mikið á óvart :)
Kristín Erla (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.