21.1.2010 | 20:58
Þetta er hann KISS
Sunnudagur 10. janúar 2010
Eftir rólegan dag fórum við fjölskyldan saman í sund núna seinni partinn. Það var Lágafellslaugin hér í nágrenninu sem varð fyrir valinu eins og oft áður. Eftir ljómandi góðan þvott á allri fjölskyldunni fengu piltarnir að velja kvöldmatinn og fyrir valinu varð að fara á veitingastaðinn American Style við Bíldshöfða. Þar eru ljómandi góðir borgarar í boði fyrir okkur strákana og húsfreyjan fékk hollustu-sallad. Á veggjum vetingastaðarins eru myndir af ýmsum helstu stórmennum tónlistarsögunnar. Við tókum eftir að á einum veggnum var þessi líka fína mynd af hljómsveitnni KISS í öllu sínu veldi. Þessi hljómsveit var eftirlætishljómsveitin mín í mörg ár þegar ég var yngri. Fyrir utan að spila kröftugt og fjörugt rokk gerir hljómsveitin (sem ennþá er starfandi) mikið út á sviðsframkomu og eru til dæmis allir meðlimirnir málaðir sérstaklega í framan - alltaf á sama hátt og hafði hver meðlimur sveitarinnar eigin útfærslu sem gerir alla meðlimina auðþekkjanlega. Hefur þetta haldið sér ennþá fram á daginn í dag. Kiss var ein vinsælasta hljómsveitin þegar ég var í skóla og andlitsmálningin gerði það að verkum að tiltölulega auðvelt var að teikna meðlimi hljómsveitarinnar. Hljómsveitarmeðlimir urðu því oft fyrir valinu þegar maður var í teikningu og myndlist í skólanum. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar ég var í 10 eða 11 ára bekk í teikningu þegar margir okkar strákana völdu að teikna okkar uppáhaldsmeðlim í hljómsveitinni. Einn var þó ekki alveg með á nótunum en vildi þó falla í hópinn og teiknaði einn meðlim sveitarinnar. Það varð þó mikill hlátur í bekknum þegar myndlistarmaðurinn hafði ritað undir myndina: "Þetta er hann KISS".
Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum American style við Bíldshöfða þar sem við fjölskyldan fengum okkur í svanginn nú í kvöld eftir sundferð dagsins. Á veitingastaðnum eru myndir af ýmsum frægum tónlistarfólki rokk- og poppsögunnar og þarna hef ég stillt mér upp við myndina af hljómsveitinni KISS.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.