10.1.2010 | 21:42
Spila- og átveisla á Akranesi
Sunnudagur 3. janúar 2010
Við fjölskyldan áttum mjög skemmtilegan dag í dag. Upp úr hádegi fórum við upp á Akranes og heimsóttum þar vinafólk okkar Sævar og Hafdísi ásamt börnum þeirra Arnari, Katrínu og Helenu. Einnig voru með okkur góðir vinir, Ástþór og Sigrún ásamt Ástrósu dóttur sinni. Við vorum nokkurn veginn að borða allan daginn og meðan krakkarnir léku sér við að mála, spila og fara í heita pottinn voru við fullorðnu að spila (ásamt átinu) hið skemmtilega spil ALIANS sem var mjög vinsælt í jólapökkunum nú um jólin. Spilið Alians gengur út á að lýsa tilteknum orðum fyrir spilafélögunum sem þeir eiga að reyna að finna út án þess að notað sé í lýsingunni það orð sem finna á; nokkurs konar andstæða við það að leika látbragðsleik (ferkar flókin útskýring ). Þetta er mjög skemmtilegt spil sem ég mæli með!
Mynd dagsins er tekin í spila- og átveislunni á Skaganum í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ástþór tvær "hnallþórur" sem við gæddum okkur á en áður en við fengum það kveikti kappin á blysum í tilefni af nýja árinu. Mjög ánægjulegur dagur hjá okkur fjölskyldunni á Skaganum í dag!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.