Ísland sigrar Spán!

Þriðjudagurinn 19. ágúst 2014

Undanfarna daga höfum við verið með tvo skemmtilega gesti á heimilinu. Það eru annars vegar Guðrún, systir Ingu sem býr í Þýskalandi, og hins vegar spænskur vinur hennar sem heitir Severo. Severo hefur dvalið á Íslandi í rúma viku og er hér á landi í fyrsta skipti.

Severo kvaddi okkur í dag og hélt til síns heima í aðeins meiri hita en við gátum boðið honum upp á í Íslandsferðinni (hann er frá Alicante) Cool Hann er þrátt fyrir það hinn ánægðasti með land og þjóð og segist aldrei verða "samur" eftir að hafa verið út í íslensku náttúrunni.

Severo er mikill borðtenniskappi og var auðvitað settur í að spila borðtennis við ýmsa fjölskyldumeðlimi meðan á dvöl hans stóð. Hann kenndi Magnús Árna ýmsa snúninga og trix sem ekki hafa sést hér í húsinu áður. Líklega fyrir kurteisis sakir leyfði hann borðtennismeistara heimilisins, Ingu, að vinna sig í óopinberum landsleik í borðtennis milli Íslands og Spánar. 

DSC01816

Mynd dagins er tekin í óopinberum borðtennislandsleik Íslands og Spánar sem fram fór í dag. Þarna eru Inga (Ísland) og Severo (Spánn) á fullu að keppa en Guðrún systir Ingu og Magnús Árni fylgjast kampakát með - og auðvitað vann Ísland (minnir okkur) Smile


Heimsókn í HR á fyrsta skóladegi!

Mánudagurinn 18. ágúst 2014

Fyrsti skóladagurinn í Háskóla Reykjavíkur (HR) er í dag. Ég fékk að kíkja í stutta heimsókn með góðum hópi fólks og drekka aðeins í mig andrúmsloftið á þessum skemmtilega degi, þó ég sé nú alls ekki að fara í neitt nám.

Ég hef aldrei komið inn í HR eftir að þeir fluttu í núvernadi húsnæði við rætur Öskjuhlíðar. Sjálfur stundaði ég nám í HR árin 2002-2004, sem var MBA-nám með áherlsu á mannauðsstjórnun. Var það nám með vinnu en á þessum árum var HR staðsettur við Ofanleiti (rétt við Kringluna). HR sprengdi það húsnæði utan af sér og flutti í nýtt húsnæði sem byggt var fyrir skólann við rætur Öskjuhlíðar, rétt við Nauthólsvík. Þó húsið sé ekki fullbyggt er það hið glæsilegasta og mjög gaman var að skoða skólann.

Hr 

Mynd dagsins er tekin í dag í Háskóla Reykjavíkur. Þarna erum við sest inn í eina kennslustofuna og Ari Kristinn Jónsson rektor er að segja okkur frá skólanum og því mikla og fjölbreytta starfi sem þar er i gangi. Virkilega gaman að kíkja í heimsókn í HR í dag, kynnast starfseminni, skoða húsnæðið og upplifa andrúmsloftið á fyrsta skóladegi þessa skólaárs Smile 


Þjóðleg þjóðbúningamessa

Sunnudagurinn 17. ágúst 2014.

Aðeins einu sinni á hverju ári er blásið til messu í Tungufellskirkju í Hrunamannahreppi og sú stund var einmitt í dag. Tungufellskrikja er með minnstu og elstu kirkjum landsins. Í fyrra var byrjað á þeim skemmtilega sið að hvetja kirkjugesti til að mæta í þjóðbúningum og fjölmargir taka þeirri áskorun þó ekki nærri allir mæti í þjóðbúningi.

Þar sem ég á ættir að rekja í Tungufell (Helga móðuramma mín var alin þar upp) reyni ég stundum að kíkja þegar messurnar eru og hitta á hóp af ættingjum í leiðinni. Það er jafnan glatt á hjalla og gaman að spjalla við frændfólkið og aðra gesti enda er kirkjukaffi á eftir, helst úti ef veður leyfir.

Tungufellskirkja er nú í eigu Þjóðminjasafnsins. Þessi kirkja er frekar lítil og tekur svona 35 gesti ef vel er troðið inn. Hún var reist 1856 og er um 22 fermetrar. Annars er talið að kirkja hafi verið í Tungufelli frá því um árið 1200 og kirkjuklukkurnar tvær í kirkjunni er álitnar næstum svo gamlar. Í dag var skein sólin skært og kirkjan var vel full út úr dyrum og einhverjir stóðu fyrir utan. Fjöldi fólks mætti í þjóðbúningi og setti það mjög skemmtilegan svip á messuna.

tungufell

Mynd dagsins er tekin í Hrunamannahreppi í dag þar sem ég mætti í þjóðbúningamessu í einni minnstu kirkju landsins, Tungufellskrikju. Þarna var mikið af ættingjum mínum en fjöldi gesta mætti í þjóðbúningum. Þeir sem það gerðu stilltu sér upp í myndatöku ásamt prestinum og þá smellti ég að þessari mjög svo þjóðlegu mynd. Áhugasamir geta skoðað fleiri myndir úr messunni á facebook-síðu minni. Sannarlega skemmtilegur dagur í Tungufelli í dag Smile


Bloggfærslur 19. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband