15.7.2014 | 23:27
Keilukvöld í kvöld!
Mánudagurinn 14. júlí 2014.
Seinni partinn í dag fórum við fjölskyldan í keilu, reyndar þó án frumburðarins sem var að vinna. Við reynum að gera þetta einstaka sinnum enda mjög skemmtilegt fjölskyldusport þar sem allir geta tekið þátt. Við fórum í Egilshöllina og áttum þar frábæra stund. Úrslita verður kannski ekki getið hér en Svandís Erla stóð sig samt örugglega best miðað við aldur. Hún fékk reyndar að hafa grindur upp svo kúlan fór aldrei út af brautinni og svo er til þessar flottu græjur til að hjálpa yngsta fólkinu við að koma kúlunni af stað (veit ekki hvað þær græjur heita), sjá mynd.
Mynd dagsins er tekin í keiluferð fjölskyldunnar í dag. Alltaf gaman þegar fjölskyldan gerir eitthvað saman og keila er skemmtileg fyrir fjölskylduna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 23:20
Grillað í lok HM
Sunnudagur 13. júlí 2014
Í dag endaði fimm daga ferð mín um Laugaveginn en ég gær komum við í Þórsmörk þar sem gist var að lokinni í göngunni. Þó ekki væri sól í Þórsmörk var flott veður; hlýtt og logn. Við fengum okkur því góðan göngutúr úr Langadal í Húsadal og komið var við í Sönghelli þar sem hópurinn tók nokkur lög við undirleik Ingimars tengdapabba á harmonikkuna.
Við vorum svo komin heim í Mosfellsbæinn seinni partinn. Þá var gott að komast í gott bað og heitan pott áður en við grilluðum stæður af steikum fyrir úrslitaleikinn á HM - leik Þýskalands og Argentínu. Það var því gott að vera nýbaðaður og úttroðinn að grillkjöti þegar leikurinn hófst. Ég var svo steinsofnaður fljótlega eftir að leiknum lauk.
Mynd dagsins sýnir okkur fjölskylduna (nema Ingu sem tók myndina) vera búna að koma okkur vel fyrir til að horfa á úrslitaleik HM nú í kvöld. Eftir mikið grillkjötsát var ís í eftirrétt (ekki samt fyrir mig vegna nammibindindis sem ég er í) og rann hann vel ofan í krakkana yfir leiknum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2014 | 01:31
Laugavegshlaupið
Laugardagur 12. júlí 2014
Í dag gekk ég síðasta áfangan í fjögurra daga Laugavegsgöngu minni. Leiðin lá úr skálanum í Emstrum yfir í Langadal í Þórsmörk. Skemmtilegt krydd í fallega göngu dagsins var Laugavegshlaupið, þar sem um 350 ofur-hlauparar hlupu hinn 55 km langa Laugaveg, á nokkrum klukkutímum.
Veðrið í dag var mjög fínt. Upp úr hádeginu kom fyrsti hlauparinn brunandi fram úr okkur en þá átti hann tæpa 10 km eftir. Það liðu svo alveg 40 min þar til næsti hlaupari kom, en eftir það komu þeir hver á fætur öðrum þar sem eftir var ferðarinnar. Það kom svo í ljós að þessi fyrsti, Norðfirðingurinn Þorbergur Jónsson, bætti heimsmetið í Laugavegshlaupi og kom í mark á tímanum 4 klst og 7 min. Það er hreint ótrúlegur tími fyrir þá sem þekkja þessa leið - en flott hjá honum enda þekkjum við vel til fjölskyldu hans svo þar á bæ geta allir verið stoltir af pilti!
Okkar hópur kom svo í Langadal í Þórsmörk seinni partinn. Eftir góða sturtu skelltum við upp grillveislu þar sem við grilluðum lambalæri með öllu tilheyrandi ofan í hópinn okkar og síðan tók við hátíðarkvöldvaka áður en allir sofnuðu þreyttir og sælir eftir flottan dag.
Mynd dagins er tekin í Laugavegsgöngu dagsins. Þarna er ég staddur nálgæt Bjórgili og smellti mynd af einum ofur-hlauparanum sem kom brunandi fram úr okkur. Laugavegshlaupið var mjög skemmtilegt krydd í gönguáfanga dagsins hjá okkur sem lauk svo í Þórsmörk. Frábær dagur og frábært kvöld í skemmtilegum hópi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 01:17
Óveður í Álftavatni!
Föstudagurinn 11. júlí 2014
Þessa dagana er ég að ganga hina vinsælu gönguleið Laugaveginn. Dagurinn í dag hófst á mjög eftirminnilegan hátt því seinni partinn í gær fór að rigna og hvessa all hressilega. Upp úr kl 22 í gærkvöldi skall á óveður og það átti aldeilis eftir að raksa ró okkar.
Við áttum pantaða gistingu í stóra skálanum í Álftavatni og héldum okkar fínu kvöldvöku í friði og ró í gærkvöldi, amk framan af. Kvöldvakan varð þó heldur endansleppt því eftir því sem á leið á kvöldið byrjuðu hraktir tjaldbúar úr nágrenninu að streyma inn í Skálann. Um kl 23 vorum við hressustu í hópnum komnir út í björgunarstörf enda voru þá tjöld byrjuð að rifna út um allar trissur og búnaður og dót úr tjöldunum farið að fjúka í allar áttir. Sjálfsagt voru hátt í 100 manns sem ætluðu að gista í tjöldum þarna þessa nótt en um kl 23 var tekin ákvörðun að allir tjaldbúar skyldu fluttir inn í skála. Þar komu þeir í misjöfnu ástandi, hraktir og blautir og með rifin tjöld og brotnar tjaldsúlur.
Allt gekk þó vel og engum varð meint af. Um miðnættið var hins vegar orðið ljóst að inn í skálanum voru allt of margir og ástandið farið að minna á sardínudós. Öll rúm voru upppöntuð og aðrir stóðu á miðju gólfi. Það var því gripið til þess ráð að fá rútu sem var á staðnum til að flytja 50-60 mest hrökktustu ferðalanganna í burtu af svæðinu og fengu þeir inni í félagsheimili í fljótshlíðinni. Þrátt fyrir þetta sváfu um 20-30 manns í flatsæng um allan skála (fyrir utan þá sem í rúmum voru) og sváfu margir þeirra sjálfsagt ekki vel. Flestir tjaldbúanna voru útlendingar sem voru hálf-skelkaðir yfir þessu íslenska sumarveðri.
Fljótlega eftir að við vöknuðum varð veðrið orðið ágætt og ferð dagsins yfir í skálan í Emstrum gekk vel, þrátt fyrir smá rok sem við fengum aðallaga í bakið. Eftir kvöldmatinn þar fór hópurinn í skemmtilega kvöldgöngu í Markarfljótsglúfur áður en slegið var upp kvöldvöku og söng að hætti hússins. Hér sváfu held ég allir mun betur en nóttina áður í Álftavatni.
Mynd dagsins er tekin í nótt í skálanum í Álftavatni. Þarna eru hraktir tjaldbúar af svæðinu komnir inn eftir að óverður hafði rifið mörg tjöld, brotið tjaldsúlur og gert ýmsan óskunda. Held þó að engum hafi orðið meint af þó sumir hafi lítð sofið um nóttina og þröngt hafi verið á þingi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 01:02
Litadýrð Laugavegarins
Fimmtudagur 10. júlí 2014
Í dag er annar dagurinn í fjögurra daga Laugavegsgöngu. Ég er fararstjóri í 16 manna hópi á vegum Ferðafélags Íslands. Eftir góðan nætursvefn í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri var mál fyrir næsta áfanga. Frá því deginum áður hafði legið þykk þoka yfir svæðinu en upp úr kl 11 fór sólin að skína í gegn og um hádegi skein hún skært.
Þetta góða veður gerði það að verkum að við ákváðum að skipta hópnum í tvennt á göngu okkar yfir í næsta skála sem er við Álftavatn. Helmingur hópsins lagði á sig auka gönguferð í tæpa tvo klukkutíma til að ganga á hæsta tindinn á stóru svæði þarna í kring sem ber nafnið Háskerðingur (1.278 m) og liggur inn í Kaldaklofsjökli. Gangan er ekki löng frá hefðbundinni leið Laugavegsins en nokkuð brött. Þar sem sólin skein í heiði fengum við frábært útsýni af toppnum í allar áttir - alveg stórmagnað. Við vorum svo rétt kominn inn í næsta gististað okkar, skálann við Álftavatn, þegar byrjaði að rigna og hvessa hressilega. Allir voru þó ánægðir með daginn og flestir náðu sér í smá lit.
Mynd dagsins er tekin í Laugavegsgöngunni í dag þar sem við vorum að fara milli Hrafntinuskers og Álftavatns og fengum þetta glæsilega veður. Myndin sýnir vonandi hluta að litadýrðinni sem göngumenn upplifa á leiðinni ef verður er sæmilegt - hrikalega flottur dagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 00:48
Landmannalaugar - upphaf Laugavegarins!
Miðvikudagurinn 9. júlí 2014
Í dag er skemmtilegur dagur því í hádeginu í dag var ég kominn upp í Landmannalaugar ásamt vöskum hópi fólks. Næstu fjóra daga er ætlunin að ganga "Laugaveginn" margfræga, sennilega vinsælustu gönguleið landsins sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Það verður að viðurkennast að ég er ekki að fara þessa leið í fyrsta skipti. Sjöunda árið í röð hef ég tekið að mér að fara sem fararstjóri með einn hóp þessa skemmtilegu leið fyrir Ferðafélag Íslands. Vegna forfalla á síðstustu stundu urðum við aðeins 16 í ferðinni en venjulega er hefur ferðin alltaf verið full - 20 manns ásamt fararstjórunum mér og Ingimar, tengdapabba.
Leiðin sem við förum er hefðbundin Laugavegsleið. Við erum fjóra daga á göngu og tökum svo fimmtadginn fyrir göngu inn í Þórsmörk þar sem ferðin endar og heimferð. Hópurinn fór með rútu að morgni úr Reykjavík og eftir stutt stopp í Landmannahelli vorum við komin í hádeginu í Landmannalaugar. Þar lentum við reyndar í smá ævintýri þar sem rútan okkar bilaði aðeins 4 km frá endastöðinni, en góðhjartaður rútubílstjóri sem var stattur í Landmannalaugum kom og sótti okkur þannig að engin röksun varð á ferðinni. Eftir gott stopp í Landmannalaugum þar sem sumir skelltu sér í sund var gengið yfir í Hrafntinnusker þar sem við vorum komin um kvöldmatarleitið eftir viðkomu á Brennisteinsöldu og fleiri skemmtilegum stöðum. Seinni hluta leiðarinnar gengum við hins vegar í blindaþoku þannig að þegar lokið var við snæða kvöldverð var slegið upp heljarinnar kvöldvöku í skálanum áður en gengið var til náða. Þar sem farangurinn okkar er fluttur milli skálanna (trússaður) þurfum við ekki að burðast með allt á bakinu og getum leyft okkur góðan viðgjörning í mat og drykk.
Mynd dagsins er tekin í Landmannalaugum í dag þar sem ég er að leggja af stað í göngu um Laugaveginn sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands, sjöunda árið í röð. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt (bara ein ferð á ári) enda leiðin mjög fjölbreytt og falleg og gaman að kynnast nýju fólki. Ég valdi þessa mynd þar sem mér finnst alltaf jafn gaman að tjaldstæðinu í Landmannalaugum þar sem tjöldin eru á hrjóstrugum berangri og bera þarf grjót á tjöldin svo þau fjúki ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)