Hvítasunnuhangikjötið

Sunnudagur 8. júní 2014

 

Á sumum heimilum er engin stórhátíð nema borðað sé hangikjöt. Það gildir að minnsta kosti hjá tengdapabba og því bauð hann til veislu í dag. Ingimar tengdapabbi býr í Reykholti í Biskupstungum og því voru hæg heimatökin að heimækja hann þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í Úthlíð yfir nóttina. Þar sem Inga gat ekki borðað með okkur voru foreldrar mínir drifinir með í átið "svo einhver með viti gæti útbúið jafninginn" eins og það var orðað. En jafningurinn er auðvitað alveg ómissandi með hátíðarhangikjötinu. Veislan heppnaðist vel og tóku veislugestir vel til matar síns að sögn staðkunnugra eða bara eins og góðri hangikjötsveislu sæmir. 

hvítasunnuhangikjöt  

Mynd dagsins er tekin í hádeginu í dag hjá Ingimar tengdapabba þar sem við snæddum með honum Hvítasunnuhangikjötið með öllu tilheyrandi. Tók reyndar ekki eftir að það er ansi lítið af hangikjöti á myndinni, en það er einfaldlega vegna þess að veislugestir tóku vel á því. Fyrir þá sem lítið til þekkja en vilja vita, eru á myndinni frá vinstri: undirritaður, Ingimar, Mamma, Magnús Árni, pabbi, Ágúst Logi og Svandís Erla. Þetta er jafnframt fyrsta myndin hér í ljósmyndadagbókinni þar sem öll afkvæmi okkar Ingu sjást á sömu myndinni Smile


Í bústað hjá ömmu og afa

Laugardagurinn 7. júní 2014

 

Það var verið að benda mér á að það væri ekki ennþá komin mynd af prinsessunni á heimilinu í ljósmyndadagbókina þannig að það verður að gera bragarbót á því. Hún heitir semsagt Svandís Erla og er fædd í mars 2011. Hún var því ekki komin til sögunnar þegar ljósmyndadagbókin var í gangi á árunum 2009-2010.

Seinni partinn í dag fórum við í heimsókn til mömmu og pabba í sumarbústaðinn þeirra í Úthlíð. Þar er alltaf gaman að koma og líf og fjör var að vanda. Grillið var dregið fram og lambakjöt snætt með öllu tilheyrandi. Þegar allir voru sofnaðir enduðum við pabbi á að skella okkur í pottinn eftir góðan dag og ræddum þar lífið og tilveruna.

með ömmu og afa 

Mynd dagsins er tekin í sumarbústað mömmu og pabba þar sem við áttum góða kvöldstund. Þarna er Svandís Erla með ömmu og afa. 


Bloggfærslur 8. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband