30.6.2014 | 00:17
Loksins komið trampólín!
Sunnudagur 29. júní 2014
Rétt eins og í gær, var blíðviðrisdagurinn í dag notaður í ýmis útiverk (ásamt því að horfa á HM). Það er nóg að verkefnum í boði fyrir alla. Eitt af því sem setið hefur á hakanum í allt vor og sumar er að setja upp trampólín fjölskyldunnar sem er mjög vinsælt leiktæki hjá öllum í fjölskyldunni. Bæði Svandís og Magnús hafa verið að ýta á eftir að fá þetta í lag en einhverra hluta vegna ekki gefist tími í það.
Systkinin fór því sjálf á stúfanna í dag og settu upp trampólínið (nokkurn veginn í sameiningu) þannig að undir kvöld voru allir orðnir hoppandi af gleði.
Mynd dagins er frá útiverkum dagsins þar sem Ágúst tóks sig til, með aðstoð systkina sinna og dreif í að setja upp trampólín fjölskyldunnar, öllum til mikillar gleði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2014 | 00:10
Grillandi gaman
Laugardagurinn 28. júní 2014
Þar sem veðurspá fyrir helgina er óvenjugóð (miðað við rigningadagana undanfarið) var ákveðið að fjölskyldan yrði heima um helgina við að mála, dytta að og fleira, en hér á heimilinu bíða ansi mörg verkefni úrlausnar.
Við áttum flottan dag þar sem ýmis mál komust áfram. Þar sem við vorum því öll orðin glorhungruð um kvöldið var ákveðið að skella í smá grillveislu. Í heimsókn komu feðgarnir Halli, Margreir og Jón Árni og var hraustlega tekið á því í áti (og aðeins í drykk) þannig að úr var ljómandi skemmtileg kvöldstund í fallegu sumarkvöldinu.
Mynd dagsins er tekin í grillveislu kvöldsins þar sem feðgarnir Halli, Margeir og Jón Árni kíktu í heimsókn og áttu með okkur ljómandi fína kvöldstund
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2014 | 00:02
Hinn íslenski Krókódíla-Dundee
Föstudagurinn 27. júní 2014
Það er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk og sérstaklega finnst mér gaman að hitta fólk sem er óhrætt við að fara ótroðnar slóðir í lífinu. Í dag hitti ég hóp af fólki sem ég hef ekki mikið hitt af áður. Af mörgum áhugaverðum í þeim hópi langar mig nú samt að geta hjónanna Árna og Völu.
Þau hjónin hafa sannarlega farið ótroðnar slóðir í lífinu. Flestir sem stunda veiðar hér á landi hafa heyrt talað um Árna Baldursson, sem af sumum er kallaður hinn íslenski Krókódíla-Dundee. Þau hjónin hafa um árabil gefið sig á hönd veiðiástríðu sinni og sameinað áhugamál og vinnu. Þau hafa um árabil rekið veiðifyrirtæki sem bíður upp á veiðar á ýmsum dýratengundum víðsvegar um heiminn. Laxveiðar hér á Íslandi eru kjarninn í starfseminni en síðan eru nánanst óendanlegir möguleikar í veiðiskap í boði í ýmsum heimsálfum. Sjálf fara þau einnig í ævintýralega veiðiferðir þar sem hlébarðar, gíraffar, fílar, antílópur, sauðnaut og fjöldi dýratengunda sem hafa ekki íslensk nöfn, hafa orðið á vegi þeirra.
Það var hreint ævintýri að fá að koma inn á heimili þeirra þar sem er að finna marga tugi uppstoppaðra dýra, hauskúpur og fleira tengt veiðiferðum þeirra hjóna. Þetta er sjálfsagt með stærstu náttúrugripasöfnum landsins. Ástríðan fyrir þessum ævintýrum er líka mikil því veiðisögurnar koma á færibandi frá þeim, hver annari skemmtilegri.
Eins og áður segir finnst mér allt mjög gaman að hitta fólk sem hefur hugrekki til að fara ótroðnar slóðir, láta ástríðuna teyma sig áfram í lífinu og láta slag standa til að fylgja draumum sínum. Það þarf oft mikið hugrekki til að gera svona, ábyggilega þykkan skráp líka því gagnrýni og úrtöluraddir eru sjálfsagt margar. Hins vegar er ég fylgjandi því að maður á að lifa sínu eins og mann langar helst til (auðvitað innan skynsamlegra marka) en ekki eins og maður heldur að aðri vilji að maður sé. Og það er alveg ótrúlega oft hægt að láta drauma sína rætast ef maður trúir því bara nógu mikið og vill það nógu mikið.
Mynd dagsins er fengin að láni af vef mbl.is og sýnir Árna, hinn íslenska Krókudíla-Dundee, við veiðar. Hreint magnað að hitta hann og Völu konu hans og kynnast þeim heimi sem ástríða þeirra fyrir veiðiskap af ýmsu tagi hefur náð að skapa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)