MA stúdentar setja upp hvíta kolla!

Þriðjudagurinn 17. júní 2014

Við fjölskyldan áttum flottan og ánægjulegan Þjóðhátíðardag í dag. Sá dagur fór fram á Akureyri í tilefni þess að Rúnar Ingi, systursonur Ingu (sonur Jónu) var að útskrifast í dag sem stúdent úr Menntaskólanum á Akureyri.

Það var rjómablíða á Akureyri í dag. Sólin skein og örugglega yfir 20 gráðu hiti. Alveg frábær dagur fyrir útskriftarveislu. Við tókum daginn snemma og skelltum okkur með í íþróttahöllina á Akureyri þar sem útskriftarathöfnin fór fram. MA byggir mikið á venjum og hefðum og það var mjög gaman að fá fylgjast aðeins með þeim. Þetta var mjög hátiðleg stund og eftir ræðu Skólameistarans og fulltrúa eldri stúdenta gekk vel að útskrifa alla nýstúdentana sem gengu svo fylltu liði út í "Stefánslund" til hefðbundinnar útskriftarmyndatöku. 

Rúnar Ingi bauð svo upp á glæsilega veislu að útskriftarathöfninni lokinni þar sem vinir og vandamenn röðuðu í sig kökum og ýmsum krásum. Í kvöld er svo mikil hátíð í íþróttahöllinni fyrir nýstúdentana og gesti þeirra sem án efa er frábær skemmtun.

 stúdentar

Mynd dagsins  er í fyrsta skipt tvískipt. Hún er tekin við útskrift frá Menntaskólanum á Akureyri í dag en þarna eru nýstúdentarnir 179 að stilla sér upp fyrir myndatöku að lokinni glæsilegri útskriftarathöfn - og auðvitað allir komnir með hvíta kolla. Ég brá mér upp á nálægar svalir og smellti af nokkrum fínum myndum af hópnum en einnig þessari sem vonandi nær að fanga þá skemmtilegu stemningu sem var kringum myndatökuna þó hún sýni aðeins brot af öllu því fólki sem fylgdist með myndatökunni. Sannarlega gaman að fá að vera með Rúnar Inga og fjölskyldu í dag. Rúnar Ingi verður svo að fá eina flotta mynd af sér og hér er hann með mömmu sinni (Jónu) og Ingu.

Rúnar Ingi stúdent 


Fjör hjá frændsystkinum

Mánudagur 16. júní 2014

Í dag erum við fjölskyldan stödd á Akureyri í stuttu stoppi vegna útskriftar á Þjóðhátíðardaginn (sjá færslu 17. júní). Dagurinn fór að mestu í undirbúning fyrir morgundaginn en einnig brugðum við okkur nú í sund, skoðuðum Kjarnaskóg og fleira.

Undir kvöld fórum við í heimsókn til Guðna frænda og fjölskyldu hans sem býr á Akureyri. Dóttir Guðna og Hrafnhildar, Eva Guðný fermdist um páskana en því miður áttum við ekki heimangegnt í veisluna þá. Því var á stefnuskránni að gera bragarbót á þeim málum og heilsa upp á fermingarbarnið og fjölskylduna við fyrsta tækifæri sem var einmitt núna. Við áttum hjá þeim góða stund bæði inni og úti en veðrið var ljómandi fínt langt fram á kvöld.

frændsystkin

Mynd dagsins er tekin á Akureyri nú undir kvöld. Þarna eru frændsystkinin Svandís Erla og Leifur Ingi (sonur Guðna og Hrafnhildar) að leika sér í sandkassanum hans Leifs og þar var mikið fjör eins og sjá má á myndinni.


Bloggfærslur 17. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband