HM veislan hafin!

Fimmtudagur 12. júní 2014

 

Þá er HM veislan hafin. Það er þá ekki verið að tala um að verið sé að opna H&M verslun á Íslandi heldur erum við að tala um heimsmeistaramótið í fótbolta sem fram fer í Brasilíu. Þetta er alltaf mjög skemmtilegur tími og spennandi fyrir okkur fótboltaáhugamenn en veislan stendur yfir næsta mánuðinn.

Í kvöld fór semsagt fram opnunarleikur mótsins þar sem heimamenn í Brasilíu sigruðu Króatíu 3-1. Það er auðvitað pínulítið beiskt fyrir okkur Íslendinga að horfa á Króatíu í opnunarleiknum en Króatía sló einmitt Ísland út í umspilsleikjum um laust sæti í keppninni í Brasilíu. Ef Ísland hefði unnið einvígið hefðu okkar menn verið að spila opnunarleikinn í kvöld. Við Ágúst Logi (frumburðurinn á heimilinu) skelltum okkur í smá veislu í kvöld til að horfa á leikinn en ný verslun Samsungs-setursins bauð til opnunarveislu í kvöld þar sem hægt var að horfa á leikinn í um 50 mismunandi sjónvarpstækjum, allt upp í 70 tommur í ótrúlegum súpergæðum og gæða sér á ljúffengum veitingum á meðan. Ótrúlegt hvað sjónvarpstæknin flýgur áfram.

HM veislan 

Mynd dagins er af eldri syninum, Ágústi Loga, þar sem hann er að drekka í sig upphafsdropana af HM-veislunni sem hófst í kvöld. Við horfðum á leikinn í endurbættri verslun Samsung-setursins og þar má segja að hægt hafi verið að fá opnunarleikinn beint í æð, bæði hvað varðar ótrúleg myndgæði og myndastærð. Í bakgrunni má svo sjá aðalstjörnu kvöldsins, hinn brasilíska Neymar, sem skoraði tvö mörk í kvöld í skemmtilegum opnunarleik HM 2014. 


Kvennahlaupi þjófstartað

Miðvikudagurinn 11. júní 2014

 

Það eru mörg og vandasöm verk sem ég þarf að taka að mér í vinnunni. Í dag fór fram Kvennahlaupið á Hrafnistu í Reykjavík þar sem hátt í 100 konur (og nokkrir karlar) fóru út í sólina til að taka þátt. Ég fékk það skemmtilega en vandasama verkefni að hengja verðlaunapeninga um hálsinn á þátttakendum þegar komið var í mark og tókst það að mestu leiti bara ágætlega þó ég segi sjálfur frá Smile

Kvennahlaupið er annars skemmtilegt framtak sem fagnar 25 ára afmælið í ár. Ein af upphafskonum hlaupsins, Lovísa Einarsdóttir, var einmitt samstarfskona mín á Hrafnistu í nokkur ár, áður en hún lést fyrir aldur fram. Á síðustu árum hefur skapast sá skemmtilegi siður á Hrafnistuheimilunum að hvert heimili heldur sitt eigið kvennahlaup rétt eins og ýmsir kaupstaðir og þorp úti á landi. Þar sem Hrafnistufólk er mjög dugmikið, þurfum við alltaf að vera á undan aðal-hlaupdeginum (sem er á laugardaginn). Hlaupið fór því fram á Hrafnistu í Reykjavík í dag, verður á Hrafnistu í Kópavogi á morgun og Hrafnistu Hafnarfirði á föstudag.

kvennahlaup 

Mynd dagsins er tekin fyrir utan Hrafnistu í Reykjavík í dag þar sem árlegt kvennahlaup fór fram í blíðskaparveðri. Við þjófstörtuðum hlaupinu aðeins þar sem formlegur dagur hlaupsins er næsta laugardag. Þarna er ég að byrja að hengja verðlaunapeninga á þátttakendur en til hliðar má sjá alla verðlaunapeningana og samstarfsfólk mitt (Böðvar með harmonikkuna og Sigrúnu forstöðumann) ásamt heimilisfólki. Tekið var á móti þreyttum hlaupurum með harmonikkuleik, ávöxtum og svaladrykkjum. Þetta var því mjög ánægjuleg stund og gaman að fá að hjálpa til. 


Bloggfærslur 12. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband