7.4.2010 | 22:40
Gömul lækningatæki skoðuð
Þriðjudagur 23. mars 2010
Seinni partinn í dag var mér boðið með í skoðunarferð að skoða gömul lækningatæki og ýmsa aðra gamla muni í eigu Landspítala. Þetta var mjög merkileg ferð og margt forvitnilegt að sjá úr heilbrigðissögu Íslendinga s.l. 100 ár eða svo. Sérstök minjanefnd Landspítala er starfandi og reynir hún að passa upp á gamla hluti úr sögu spítalans. Því miður vantar kannski góða aðstöðu til að sýna eitthvað af þessum gripum þó sumir hafi ratað í Lækningaminjasafn og lyfjafræðisafn sem bæði eru út á Seltjarnarnesi. Minjunum er í mörgum tilfellum raðað í belg og biðu vegna plássleysis en það gerir það líka forvitnilegt að grúska aðeins í þessu. Mynd dagsins var tekin í skoðunarferðinni í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 22:40
Buslað í blíðunni
Mánudagur 22. mars 2010
Það var mikið fjör á pallinum hjá okkur seinni partinn í dag. Það var rosalega fínt veður og krakkarnir komnir í gírinn fyrir sumarið. Við gáfum því leyfi fyrir smá vatnssulli útifyrir en slíkt brölt er mjög vinsælt hér á heimilinu á sumrin. Það leið heldur ekki á löngu áður en allir voru búnir að skvetta og sprauta hver á annan. Þó sólin hafi skynið skært var samt nokkur loftkuldi þannig að buslið stóð ekki yfir í langan tíma - en mjög skemmtilegt samt og ljúfur vorboði
Mynd dagsins er tekin á pallinum hjá okkur í dag og sýnir synina Magnús Árna og Ágúst Loga vera að buslast í blíðunni ásamt Elísabetu vinkonu Magnúsar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 22:39
Jón Árni fermist
Sunnudagur 21. apríl 2010
Í kvöld fórum við fjölskyldan í fermingarveislu hjá Jóni Árna nágranna okkar og vini Ágústar Loga. Jón Árni og foreldrarnir, Ólína og Halli, bauð upp á glæsilega veislu sem hófst seinni partinn á gómsætu hlaðborði og síðan fylgdu kransakaka og fleira góðgæti í kjölfarið. Alveg hreint ljómandi skemmtileg og velheppnuð fermingarveisla hjá Jóni Árna í dag.
Mynd dagsins er tekin í fermingarveislu Jóns Árna nú í kvöld. Þarna eru þeir félagar, Ágúst Logi og Jón Árni, við mótorhjól sem fermingardrengurinn fékk í fermingargjöf frá foreldrunum (Jón Árni er sá sem er í vestinu). Með þeim á myndinni er tveir tilvonandi fermingarpiltar, þeir Daníel og Vignir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 22:39
Göngutúr í góða veðrinu
Laugardagurinn 20. mars 2010
Í verðurblíðunni í dag ákvað ég að skella mér í góðan göngutúr. Inga var að vinna og strákarnir frekar latir í morgunsárið. Ég dreif mig því af stað og rölti héðan úr Mosfellsbænum yfir í Grafarvog og hélt ferð minni áfram gegnum Grafarvoginn og Bryggjuhverfið yfir í Vogahverfið. Göngutúrinn var vel á þriðja tíma og yfir 20 km en var bara mjög hressilegur og skemmtilegur. Á eftir skelltum við Ágúst Logi okkur í sund og í kvöld áttum við fjölskyldan svo fínt kvöld saman.
Mynd dagsins er tekin í verðurblíðunni í göngutúrnum mínum í dag. Þessi mynd er tekin inn í Grafarvoginum, við Víkurvegin. Frábær gönguferð í góða veðrinu í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 22:38
Nýtt hjúkrunarheimili opnar
Föstudagur 19. mars 2010
Í dag var í nógu að snúast í vinnu minni á Hrafnistu því eftir hádegið vorum við að vígja nýtt hjúkurnarheimili sem rekið verður undir nafni Hrafnistu - Hrafnista Kópavogi. Nýja hjúkrunarheimilið er samstarfsverkefni okkar á Hrafnistu, Kópavogsbæjar og Félags- og tryggingamálaráðuneytis. Við vigsluna var glæsileg dagskrá sem um 200 boðsgestir sóttu. Á eftir var svo opið hús fyrir starfsfólk Hrafnistu og opnuninni var fagnað langt fram á kvöld. Það voru mörg handtökin sem þurfti að klára í dag þannig að þessi hátíðisdagur myndi takast sem best. Það gerðist líka, þannig að dagurin í dag var sérstaklega vel heppnaður og ánægjulegur.
Mynd dagsins er tekin við vígslu á nýja hjúkrunarheimilinu í dag. Þarna er ég með Guðmundi Hallvarðssyni stjórnaformanni Sjómannadagsráðs (eiganda Hrafnistu), Árna Páli Árnasyni félags- og tryggingamálaráðherra og Gunnsteini Sigurðssyni bæjarstjóra Kópavogs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)