5.4.2010 | 15:06
Heimsókn í umtöluðustu sundlaug landsins
Fimmtudagur 18. mars 2010
Umtalaðasta sundlaug landsins þessi misserin er án efa sundlaugin á Álftanesi. Í umræðunni um fjárhagsvandræði þessa ágæta sveitafélags hefur oftar en ekki komið upp að nýja sundlaug þeirra Alftnesinga hafi verið mjög þungur baggi. Í dag ákváðum við feðgar að heimsækja þessa margumtöluðu sundlaug. Það var nú ekki margt um manninn en skemmtileg var laugin. Sjálfsagt er þarna ein stærsta rennibraut landsins sem er mjög skemmtileg (ég prófaði nokkrar ferðir). Mesta skrautfjöðurinn er þó öldu-sundlaugin en það er sérstök sundlaug sem hefur að geyma mikinn öldugang sem settur er af stað með reglulegu millibili. Þetta hef ég ekki áður séð á Íslandi en kynnst svona sundlaugum erlendis. Öldusundlaugar eru mjög skemmtilegar og laugin á Álftanesi vel heppnuð að þessu leyti, enda skemmtum við feðgarnir okkur mjög vel. Um pólitísk mál, eins og hvort réttlátt hafi verið að byggja þessa glæsilegu sundlaug í þessu frekar fámenna sveitarfélagi, ætla ég ekki að taka afstöðu - en þetta var fín sundferð hjá okkur!
Mynd dagsins er af Ágústi Loga og Magnúsi Árna fyrir utan sundlaugina á Álftanesi í dag. Rennibrautin stóra er í baksýn en öldusundlaugin verður nú sjálfsagt það eftirminnilegasta úr þessari finu sundferð okkar feðga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 15:06
Tími aðalfunda rennur upp
Miðvikudagur 17. mars 2010
Nú er tími aðalfunda runninn upp. Nánast öll samtök og félög eru með aðalfundi sína í mars eða apríl. Það streyma því að ýmis aðalfundaboð þessa dagana - sem er jú bara gott og blessað. Í kvöld fór ég á einn aðalfund. Það var aðalfundur í knattspyrnudeild Aftureldingar hér í Mosfellsbæ sem haldinn var í Lágafellsskóla. Um 60-80 manns létu sjá sig og flesta er maður farinn að þekkja vel því eins og áður hefur komið fram á þessari síðu hef ég verið töluvert viðloðandi starf deildarinnar síðustu árin. Fundurinn gekk vel og kominn er nýr formaður fyrir deildina sem er ánægjulegt því það stefndi þar í mikil formannsvandræði. Ég steingleymdi að fara með myndavél á aðalfundinn þannig að þessi fína mynd úr ársskýrslunni verður bara að duga sem mynd dagsins í þetta sinn - enda bara mjög flott!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 15:06
Ráðstefna um nýjungar í heilbrigðisþjónustu
Þriðjudagur 16. mars 2010
Í dag sat ég ráðstefnu á vegum samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH), en ég gegni varaformennsku í þessum ágætu samtökum. Ráðstefnan, sem fór fram á Grand hótel, fjallaði um nýjungar í heilbrigðisþjónustu og var vel sótt. Þar var meðal annars rætt um öldrunarþjónustu, þjónustu við fatlaða og nýjungar hjá heilsustofnun náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, án þess að ég fari nánar út í umræðuefnið hér (sjá frekar á heimasíðu SFH, samtok.is). Ráðstefnan heppnaðist mjög vel og við í stjórninni vorum mjög ánægð með daginn.
Mynd dagsins er frá ráðstefnunni um nýjungar í heilbrigðisþjónustu í dag. Þarna er Gísli Páll formaður SFH að setja ráðstefnuna en við háborðið sitja Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra og Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona sem var ráðstefnustjóri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 15:05
Kransakaka og súkkulaðifiðrildi
Mánudagur 15. mars 2010
Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu styttist nú óðfluga í fermingu eldri sonarins á heimilinu, Ágústar Loga. Eins og gerist og gengur er í mörg horn að líta í undirbúningnum. Í kvöld var verið að græja ýmislegt. Til dæmis fór Inga á kransakökunámskeið þar sem hún bakaði kransaköku fyrir veisluna. Eftir að heim var komið var svo farið í ýmislegt föndur. Það skal þó tekið fram að föndur er ekki mín sterkasta hlið en einhver verður að vera til að njóta . Mynd dagsins sýnir súkkulaði-fiðrildi sem Inga galdraði fram og er bara nokkuð glæsilegt hjá henni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 15:05
Snjólaust jöklanámskeið
Sunnudagur 14. mars 2010
Ég vaknaði snemma í morgun og hélt niður í höfuðstöðvar Ferðafélags Íslands þar sem ætlunin var að eyða deginum á jöklanámskeiði. Leiðbeinandi námskeiðsins var Jökull Bergmann jöklaleiðsögumaður. Efni námskeiðsins var ferðalög á jöklum, útbúnaður og grunnatriði í notkun hans. Ætlunin var að hafa bæði sýnikennslu og svo verklegar æfingar í snjó. Því miður var alveg orðið snjólaust í Bláfjöllum þannig að æfingar fóru bara fram utanhússs í rigningunni og innandyra þar sem hægt var að æfa hnúta og uppsetningar við sprungubjörgun.
Mynd dagsins er tekin á jöklanámskeiðinu í morgun. Í forgrunni er leiðbeinandinn Jökull Bergmann en eins og sjá má voru bara gerðar æfingar úti á túni þar sem allur snjór var farin úr Bláfjöllum þar sem æfa átti sprungubjörgun og fleira. Engu að síður mjög skemmtilegt og gagnlegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 12:16
Ljúffengt "lasanja"
Laugardagur 13. mars 2010
Við fjölskyldan áttum rólegan dag í dag. Um kaffileitið fór þó Inga að vinna þar sem hún var á kvöldvakt í kvöld. Við feðgarnir þurftum þó ekki örvænta að deyja úr hugri þar sem okkur hafði verið boðið í mat til Ívars og Elínar, vinafólks okkar sem búa í Hafnarfirði. Þar vorum við líka mættir (ekki alveg stundvíslega) kl. 19. Þar voru í heimsókn hluti Áshólssystra (sjá færslu gærdagsins). Eftir matinn settist ég niður með Ívar og Siggu en við ætluðum nú líka að nota tækifærið og skipuleggja gönguferð á Strandirnar sem farið verður í næsta sumar. Það gekk mjög vel og ferðatilhögun er nánast klár - nú er bara lokaskipulagning eftir. Mjög ánægjulegt kvöld!
Mynd dagins er tekin í Hafnarfirðinum nú í kvöld. Þarna erum við að snæða ljúffengt "lasanja" sem Elín og Ívar töfruðu fram. Sonunum þótti þetta ansi gott og þeir hökkuðu kvöldverðinn í sig eins og þeir hefðu ekki fengið að borða í marga daga. Á myndinni eru frá vinstri: Magnús Árni, Ágúst Logi, Sigga, Jóhann, Elín, Ívar, Margrét, Rakel og Anna Bára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 12:16
Fjör á föstudegi
Föstudagurinn 12. mars 2010
Það var fjölmenni hjá okkur í Hrafnshöfðanum í kvöld en þá komu þrjár systur í mat ásamt fylgifiskum. Þetta voru þrjár af Áshólssystrunum: Sigga, Anna Bára og Berglind. Með þeim í för voru Guðbjörg dóttir Önnu og annari af tvíburadætrum Berglindar. Allar voru þær í kaupstaðarferð í höfuðborginni þó hver með sitt erindi. Það var því mjög gaman að fá þær í heimsókn í kvöld.
Mynd dagsins dagsins er tekin við kvöldverðarborðið í kvöld hér í Hrafnshöfðanum. Frá vinstri: Sigga, Ágúst Logi, Inga, Magnús Árni, Berglind, Guðbjörg og Anna Bára. Mjög skemmtilegt kvöld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 12:15
Harpa og svínaflensa
Fimmtudagurinn 11. mars 2010
Í dag var mér boðið að skoða tónlistarhúsið Hörpu sem er í byggingu við Reykjavíkurhöfn. Harpa verður hvorki meira né minna en 28.000 m2 að stærð. Þó margir segi að húsið eigi að vera verðugt minnismerki um "góðærið" sem hér ríkti á síðustu árum er húsið þó að mörgu leiti mjög athyglisvert. Hönnunin er sögð undir áhrifum frá náttúru Íslands. Meginhugmyndin með byggingunni er að skapa kristallað form með fjölbreyttum litum sem sóttir eru í nærliggjandi náttúru og gefur þeim er þess nýtur síbreytileg tilfinningaleg áhrif. Listamaður Olafur Eliasson hannaði svo glerhjúpinn sem umlykur húsið. Í húsinu eru svo þrír meginsalir sem liggja hlið við hlið; tónleikasalur, æfingasalur og ráðstefnusalur. Ennfremur verður 200 manna tónleikasalur á neðri hæð. Í dag var verið að kynna húsið sem framtíðar ráðstefnuhús. Við hönnun hússins var lögð áhersla á sveigjanleika þannig að húsið geti nýst allt til stærri viðburða eða að hægt verði að skilja ráðstefnurýmin algerlega frá öðrum rýmum þannig að mismunandi starfsemi fari fram á sama tíma í húsinu, án innbyrðis truflunar. Að auki verða fjölmargir minni salir sem munu nýtast til funda-og ráðstefnuhalds. Byggingin er reyndar ennþá mjög "hrá" en spenndi verður að fylgjast með þessu húsi í framtíðinni. Í kvöld fór ég svo á fræðslufund hjá Lyfjafræðingafélaginu sem haldin var á veitingastaðnum Silfur við Austurvöll. Þar voru um 70 lyfjafræðingar mættir til að ræða Svínaflensu - hvernig gengu aðgerðir og hvað gerðist næst. Einhverra hluta vegna var mér treyst fyrir fundarstjórninni en engu að síður varð þetta bara hinn fróðlegasti og skemmtilegasti fundur sem stóð yfir í tvær klukkustundir.
Mynd dagsins er af tónlistarhúsinu Hörpu við Reykjarvíkurhöfn, eins og það kemur til með að líta út. Í dag fékk ég að skoða húsið sem var mjög forvitnilegt og bara gaman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 12:15
Stemming hjá Stefni
Miðvikudagurinn 10. mars 2010
Í kvöld fórum við Inga á afmælistónleika hjá karlakórnum Stefni. Karlakórin Stefnir er úr Mosfellsbæ og fagnar um þessar mundir 70 ára afmæli sínu. Í tilefni þessa stórafmælis er kórinn að halda þrenna tónleika og í kvöld voru þeir fyrstu. Kórinn tók valin lög sem hafa verið á dagskrá tónleika kórsins á ýmsum tímum í þeirra 70 ára sögu. Auk þess voru svo í lokin fruflutt tvö lög sem samin voru af tónskáldinu Hildigunni Rúnarsdóttur, sérstaklega fyrir Stefni í tilefni af afmælinu. Ljóðin voru eftir Jón Helgason. Einsöng með kórnum sungu Kristinn Sigmundsson og Þórunn Lárusdóttir. Tónleikarnir voru haldnir í Guðríðarkirkju í Grafarholtinu. Þangað hef ég ekki komið áður. Þetta er nokkuð sérstök en sjarmerandi kirkja og mjög gott tónleikahús. Sérstaklega er altaristaflan óvenjuleg - þar er sjón sögu ríkari, sérstaklega í dimmu. Fínir tónleikar hjá Stefni í kvöld.
Mynd dagsins er tekin á afmælistónleikum karlakórsins Stefnis í kvöld - mjög gaman!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 12:14
Amma kveður
Þriðjudagur 9. mars 2010
Þó þessi síða eigi að fjalla um einn jákvæðan atburð í lífi mínu á hverjum degi, verður þessi dagur etv. einhvers konar undantekning. Dagurinn í dag snérist að mestu leyti um útför ömmu, Guðnýjar Marenar Oddsdóttur. hún var jörðuð í dag. Amma hefði orðið 101 árs næsta sumar. Hár aldur og til að vera jákvæður þá held ég að hún hafi alveg verið sátt að kveðja. Mynd dagsins er af okkur fjölskyldunni með ömmu. Þessi mynd var tekin s.l. sumar þegar haldið var upp á 100 ára afmæli ömmu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)