Fagurt útsýni úr Fljótshlíðinni

Föstudagur 2. apríl 2010

Vegna fermingar Ágústar Loga um síðustu helgi ákáðum við fjölskyldan að vera einstaklega róleg í tíðinni yfir páskahátíðarnar. Oft höfum við farið norður til Akureyrar þessa daga, en núna var dvalið sunnan heiða. Seinni partinn í dag fórum við þó í bíltúr inn í Fljótshlíð til að skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Í Fljótshlíðinni voru mjög margir á ferðinni, örugglega 500-1000 bílar. Þrátt fyrir gott veður sáum við nú ekki mikið af gosinu í dagsbirtunni, en um leið og fór að rökkva sást appelsínuguli liturinn í gosinu betur. Við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni og fórum alveg inn að fjallinu sérstaka og skemmtilega - Einhyrningi. Best var útsýnið á gosið til móts við Þórsmörk og Húsadal. Þetta var mjög tilkomumikið og við náðum nokkrum góðum myndum. Á leiðinni til baka lentum við í miklum umferðartöfum við að komast út úr Fljótshlíðinni, enda mikill fjöldi bíla á svæðinu og vegirnir ekki gerðir fyrir mikla umferð í báðar áttir. Allt tókst þetta nú að lokum. Við héldum nú reyndar ekki heim á leið eftir eldgosaskoðunina heldur var farið í bústað foreldra minna í Úthlíð þar sem gistum um nóttina.

17

Mynd dagsins er tekin innst í Fljótshlíðinni nú í kvöld og sýnir eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Inga smellti af þessari skemmtilegu mynd rökkri en góðu veðri.


Vorverkin hafin í garðinum

Fimmtudagur 1. apríl 2010

Fljótlega eftir að við fjölskyldan vorum komin á ról í morgun náði Inga að láta mig hlaupa 1. apríl með sama hætti og í fyrra. Það var að fara eldsnemma yfir til nágrananna til að sækja eitthvað sem okkur vantaði. Þau voru öll steinsofandi þegar ég kom og skildu ekkert í framtaksemi minni - ég vona að þetta sýni bara hvað ég er fús til að vera hjálplegur við frúnna Smile. Eftir hádegið brá ég mér í út garð og hóf svo vorverkin í garðinum - á þessum árstíma eru það trjáklippingar. Ég fór semsagt með rafmagnsklippurnar í garðinn í dag enda ekki seinna vænna þar sem gróðurinn er allur að koma til. Reyndar er það mikið af trjágróðri hér í garðinum að ég er eiginlega frekar að stunda skógarhögg en smávægilegar trjáklippingar. En þetta gekk allt vel og kláraðist fyrir kvöldmatinn. Bara gaman að drífa sig í vorverkin.

 

IMG_3990

Mynd dagsins er tekin úti í garði í dag og þarna er ég að klippa trén og snyrta fyrir sumarið.


Bloggfærslur 12. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband