6.3.2010 | 16:34
Nægur snjór
Föstudagur 19. mars 2010
Í dag erum við fjölskyldan stödd á Akureyri. Þessa helgina eru skólafrí í Lágafellsskóla þar sem synir okkar stunda nám. Það var því ákveðið að skella sér í skíða- og menningarferð til Akureyrar. Þar býr Jóna mágkona ásamt fjölskyldu sinni og alltaf hægt að fá gistingu á besta stað í bænum. Þegar við vorum risin úr rekkju um kl. 10 viðraði ekkert sérstaklega vel til skíðaiðkunar þó nægur væri snjórinn. Við Ágúst Logi ákváðum þó að skella okkur í Hlíðarfjallið. Þar var þokkalegt verður og ekki margt þannig að þetta var bara fínt. Ég keypti þó aðeins þriggja tíma kort í lyfturnar og eftir þann tíma fór ég til baka og skildi Ágúst eftir þar sem hann var ásamt nokkrum félögum héðan úr Mosó. Á meðan fórum við Magnús Árni út í garð, ásamt Rúnari Inga frænda og bjuggum til risastórt snjóhús enda nægur snjór á Akureyri. Um kvöldið fórum við fjölskyldan svo í matarboð til Siggu og Svans vinafólks okkar þar sem frú Sigríður bauð upp á gómsæta rétti og við ættum frábæra stund með þeim áður en haldið var í rúmið upp úr miðnætti.
Mynd dagsins er tekin í matarboðinu hjá Siggu og Svan nú í kvöld. Þarna er fótboltaspil á fullu hjá strákunum en á myndinni eru Bergvin og Svanur synir þeirra hjóna ásamt okkar pjökkum, þeim Ágústi Loga og Magnúsi Árna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2010 | 16:32
Aksjón fyrir Akureyrarferð
Fimmtudagur 18. febrúar 2010
Það var í mörg horn að líta í vinnunni í dag, sérstaklega þar sem ég er að fara í langt helgarfrí. Í kvöld ætlum við fjölskyldan til Akureyrar í skíða- og mennignarferð. Stefnan er að dvelja þar fram á sunnudagskvöld. Ég ætla svo að vera í fríi á mánudaginn líka - það verður alveg ljómandi. Ég þurfti því að klára ýmislegt áður hægt var að halda af stað. Vinnudagurinn endaði reyndar mjög skemmtilega en kl. 18 var ég mættur á Hrafnistu í Reykjavík, einn af vinnustöðum mínum. Þar fór fram skemmtikvöld fyrir heimilsfólkið með glæsilegum kvöldverði og skemmtiatriðum, þar sem m.a. Diddú tók lagið. Við fjölskyldan náðum að leggja af stað til Akureyrar rétt fyrir kl. 21. Færðin var fín og mjög fallegt veður var á leiðinni. Umferð var nánast enginn og við renndum því í hlað hjá Jónu mágkonu á Akureyri rétt fyrir kl. eitt.
Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu í Reykjavík, einum vinnustaða minna en þar fór fram skemmtileg kvöldskemmtun fyrir íbúana nú í kvöld. Ég fékk þann heiður að setja hátíðinna og eftir borðhald og nokkur skemmtiatriði fékk ég að laumast í burtu þar sem við fjölskyldan vorum á leið norður til Akureyrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2010 | 16:31
Öskudagurinn..!
Miðvikudagurinn 17. febrúar 2010
Í dag er hinn forni og skemmtileg Öskudagur. Synirnir fóru auðvitað í búningum í skólann í tilefni dagsins. Eftir mikla umhugsun síðustu daga ákvað Magnús Árni (7 ára) að vera galdrakarl og safnaði saman ýmsu dóti úr búningasafni heimilisins til að gera sig fínan. Ágúst Logi (13 ára) ákvað að láta aldurinn ekkert stoppa sig og skellti sér í gömul jakkaföt af mér til að leika "karl í jakkafötum". Hann dró svo fram gamla Hawaii-skyrtu af mér og 20 ára gömul sólgleraugu. Þeir áttu svo góða stund í dag í skólanum sínum. Ágúst fór svo eitthvað á stúfana með félögum sínum í bæinn til að syngja fyrir nammi en Magnús bíður með það eitt ár í viðbót.
Mynd dagsins er af sonunum á heimilinu í öskudagsbúningunum. Magnús Árni var galdrakarl og Ágúst Logi var karl í jakkafötum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)