23.3.2010 | 23:06
Heimsókn frá Þórshöfn
Mánudagur 8. mars 2010
Í kvöld fengum við fjölskyldan góða gesti í heimsókn. Þá kíktu til okkar Guðni frændi, Hrafnhildur kona hans og dóttirin Eva Guðný. Þau eru frekar sjaldséðir gestir því þau búa hvorki meira né minna en á Þórshöfn á Langanesi. Það er því heljarinnarmál þegar þau skreppa til höfuðborgarinnar. Samt er það miklu minna mál fyrir þau að koma hingað en fyrir ættingjana að heimsækja þau því það er mjög sjaldgæft að þau fái ættingjana í heimsókn til sín. Þau fjölskyldan voru boðin í kvöldmat hjá okkur og svo áttum við góða stund saman langt fram á kvöld enda um margt að spjalla þegar fólk hittist sjaldan.
Mynd dagsins er tekin í heimsókn fjölskyldunnar frá Þórshöfn til okkar í kvöld; Hrafnhildur, Eva Guðný og Guðni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2010 | 21:44
Æskulýðsmessa í Lágafellskirkju
Sunnudagur 7. mars 2010
Seinni partinn í dag fórum við fjölskyldan í messu í Lágafellskirkju hér í Mosfellbænum. Sem liður í fermingarundirbúning eldri sonarins, Ágústar Loga, þarf pilturinn að mæta í amk 7 messur yfir vetrartímann. Æskilegt er að foreldrar/fjölskyldan taki eitthvað þátt í því. Í dag bauð Lágafellssókn upp á sérstaka æskulýðsmessu í samvinnu við íþróttafélag bæjarins, Aftureldingu. Við ákváðum því að öll fjölskyldan skildi skella sér í messuna. Það var hópur efnilegra krakka og unglinga sem sá um tónlistarflutning sem var mjög hress og skemmtilegur. Þetta var bara hin besta stund og synirnir skemmtu sér bara mjög vel í þessari æskulýðsmessu.
Mynd dagsins er tekin í æskulýðsmessunni í Lágafellskirkju í dag. Aldeilis óhefðbundin messa sem gaman var að taka þátt í.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)