Árshátíð

Laugardagur 6.  mars 2010

Í kvöld fór fram árshátíð Hrafnistuheimilanna, vinnustaðar míns. Það var mikið um dýrðir en árshátíðin var haldin í Gullhömrum í Grafarholtinu og mættir um 600 manns. Fyrir utan glimmrandi góðan mat fór veislustjórinn, útvarpsmaðurinn Freyr Eyjólfsson alveg á kostum og hélt veislugestum í mjög góðum gír allt kvöldið. Hann reitti af sér brandarana og greip í gítarinn þess á milli. Nokkur mjög góð skemmtiatriði voru á dagskránni og svo endaði dagskráin með hörkuballi með Regínu Ósk og hljómsveit. Við Inga skemmtum okkur mjög vel á þessu glæsilega kvöldi þrátt fyrir að ég hafi fengið minn skerf af bröndurum og skotum Smile. Alveg frábært kvöld í kvöld!

árshátíð

Mynd dagsins er tekin á árshátíð Hrafnistu nú í kvöld. Á myndinni sit ég við hlið Hörpu samstarfskonu minnar. Þarna erum við að gæða okkur á páskaeggi sem ég fékk í verðlaun fyrir að hafa aðstoðað frábæran töframann í miklu áhættuatriði stuttu áður.


Heitasta tíska á heilsudögum

Föstudagur 5. mars 2010

Þessa viku hafa staðið yfir svokallaðir heilsudagar í vinnustað mínum, Hrafnistuheimilunum. Starfsamannafélög heimilanna standa þá fyrir þéttri dagskrá í heila viku. Hollustan er í fyrirrúmi hjá meistreiðslumeisturunum og boðið hefur verið upp á fjölbreytta dagskrá á hverjum degi. Þar á meðal eru göngutúrar og leikfimi auk ýmissa fyrirlestra og mælinga. Til dæmis hef ég verið mældur út og suður og fengið staðfest að blóðþrýtistingur og blóðsykur eru í góðu lagi. Í dag var svo slegið á létta strengi og haldinn búningadagur. Þá kom starfsfólk í einhverjum búningum í vinnuna. Við á skrifstofuni, sem klæðust hefðbundnum fötum dags daglega, sáum okkur leik á borði og klæddumst fötum sem aðhlynningarfólk Hrafnistu klæddist fyrir einhverjum áratugum síðan. Þetta framtak vakti mikla kátínu og m.a. rötuðu sumir starfsmenn á síður Morgunblaðsins fyrir vikið.

IMG_7120

Mynd dagsins er tekin á heilsudögum á Hrafnistu eftir hádegi í. Við skrifstofugengið vorum, eins og áður segir, í gömlum fötum aðhlynningarfólks sem eru eins og sjá má alveg heitasta tíska sem í boði er. Þarna stillti ég mér upp í myndatökum ásamt mínum nánustu samstarfskonum þeim Hörpu, Ölmu og Soffíu Smile


Hugað að heilsuklasa

Fimmtudagur 4. mars 2010

Í kvöld fór ég á mjög forvitnilegan fund hér í Mosfellsbænum þar sem kynntar voru hugmyndir um heilsuklasa í Mosfellsbæ. Á fundinum voru um 60 manns og var umfjöllunaratriði fundarins að kanna hvort áhugi væri í bænum að koma á samstarfsvettfangi á sviði heilsutengdrar þjónustu. Nokkur áhugaverð erindi um málið voru haldin. Þar kom meðal annars fram að markmið Mosfellsbæjar með uppbyggingu á sviði heislutengdrar þjónustu er að tvöfalda fjölda starfa í heilsugeiranum á hverjum fimm ára tímabili og að Mosfellsbær verði leiðandi á sviði heilsueflingar og endurhæfingar á landinu. Frekari upplýsingar um umfjöllunarefni fundarins er að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar (m.a. glærur allra framsögumanna). Eitt bitastæðast verkefnið hér í bænum er án efa opnun heilsþjónustufyrirtækisins PrimaCare sem stefnir á að byggja í vænum stórt einkareikið liðskiptasjúkrahús og hótel því tengdu. Þar hefur stefnan verið sett á að fyrsta aðgerðin fari fram 12.12 árið 2012. Sannarlega gaman að vera á þessum spennandi fundi nú í kvöld Smile

heilsuklasi

Mynd dagsins er fengin að láni frá Mosfellsbæ og sýnir flesta þátttakendur á fundinum í kvöld um heilsuklasa þar sem mjög áhugaverð umræða fór fram. Ég sit þarna fyrir miðri mynd ef vel er leitað.


Hvor er sú rétta?

Miðvikudagur 3. mars 2010

Árið 1971 áttu afi minn og amma 40 ára brúðkaupsafmæli. Þau eru bæði ættuð frá Vestfjörðum og tengjast bæði rækilega m.a. inn í Arnarfjörð. Þar er að finna bæinn Hrafnabjörg í Lokinhamradal sem forfaðir þeirra beggja byggði snemma á síðustu öld. Amma var m.a. vinnukona þarna um tíma. Í tilefni brúðkaupsafmælisins ákváðu pabbi og systur hans að gefa ömmu og afa fallegt málverk af svæðinu í afmælisgjöf sem þau fengu listmálarann Eggert til að mála. Málverkið var málað eftir ljósmynd sem pabbi hafði tekið nokkru áður þegar hann var á ferðalagi um svæðið. Auðvitað var mikil ánægja með þetta glæsilega málfverk. Amma (og einhverjir fleiri) voru að mér skilst, samt aldrei alveg sátt við málverkið - eitthvað var við myndina sem kom ekki heim og saman. Ekki veit ég hver það var sem leysti gátuna en upp komst að málverkið var spegilmynd af ljósmyndinni sem tekin var. Ljósmyndin var nefnilega slide-mynd og hafði listamaðurinn snúið myndinni öfugt þegar hann málaði myndinaSmile Það voru því góð ráð dýr og málarinn snaraði fram nýju málverki þar sem allt var á sínum stað. Pabbi fékk að eiga spegilverkið og hangir það á vegg á æskuheimili mínu heima hjá mömmu og pabba. Í dag ákváðum við, til gamans, að láta málverkin hittast og taka mynd af þeim hlið við hlið Cool

IMG_7151[1]

Mynd dagsins er ljósmynd sem ég tók þegar við mátuðum saman bæði málverk Eggerts af Hrafnabjörgum. Málverkin eru spegilmynd hvort af öðru og hafa líklega aldrei "hist" áður. Pabbi, Ágúst Logi og Magnús Árni stilltu sér upp við málverkin. Nú er bara spurning hvort er það rétta??? Smile  Fyrir mjög forvitna skal það upplýst að myndin til hægri er sú rétta Smile


Jákvætt hópefli

Þriðjudagur 2. mars 2010

Í vinnunni í dag hlustaði ég á mjög skemmtilegan fyrirlestur frá Gunnari E. Steingrímssyni djákna í Gravarvogskirkjku. Umfjöllunarefnið var hópefli, sem hann skilgreinir sem jákvæða upplifun sem hópur fólks á saman og skilur eftir sig góðar minningar sem fólk getur nærst á í einhvern tíma á eftir. Hópefli má nota til að þjappa fólki saman, t.d. á vinnustöðum og búa til góða liðsheild, auka samheldni, efla traust og styrkja samskiptin. Jákvæðni gegnir lykil hlutverki í góðu hópefli enda undirstaða þess að hópeflið gangi vel, verði gaman og þjóni tilgangi sínum. Þetta var mjög gott spjall hjá Gunnari til að minna okkur á að bestu hlutirnir í lífnu þurfa ekki að vera flóknir eða dýrir.

IMG_7133[1]

Mynd dagins er af Gunnar E. Steingrímssyni að spjalla um jákvætt hópefli í mjög skemmtilegu erindi sem ég hlustaði á í dag. Auk þess lét Gunnar okkur gera nokkrar skemmtilega hópeflisæfingar.

 

 

 


Bleika hásinin

Mánudagur 1. mars 2010

Í lok janúar náði ég að slasa mig á hásin við fótboltaiðkun. Ekki er nú um að ræða að hásin hafi slitnað en eitthvað hefur teygst á henni og ég er mjög aumur og bólgin. Nú síðasta mánuðinn hef ég verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara 2-3svar í viku. Það er Eiríkur, sjúkraþjálfari í Orkuhúsinu sem hefur verið að hamast við að koma mér í lag aftur. Meðferðin gengur vel - hægt en ágætlega. Eiríkur hefur sett mig í styrktaræfinar á hásininni en ég hef lítið sem ekkert mátt hlaupa. Ég er því ekkert á leið í fótbolta aftur fyrr en eftir páska í fyrsta lagi.

IMG_7152

Mynd dagsins er af hásininni á mér sem er nú í víðtækri endurhæfingarmeðferð hjá Eiríki sjúkraþjálfara eftir fótboltaslys í janúar. Eitt af því sem Eiríkur hefur verið að prófa er að setja á mig sérstakt styrktarlímband (teip) til að aðstoða hásinina við að mæta álagi. Það vill svo skemmtilega til að teipið er bleikt á lit þannig að út úr þessu verður hið mesta listaverk - nú er bara að vona að meðferðin gangi vel og bleika hásinin komist í lag sem fyrst! 


Bloggfærslur 21. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband