Varðskipið Óðinn í hálfa öld

Miðvikudagurinn 27. janúar 2010

Í dag var mér boðið á Sjóminjasafnið Víkina hér í Reykjavík. Þetta er glæsilegt safn úti á Grandagarði og ekki mjög mörg ár síðan það opnaði. Tilefnið var að verið var að halda upp á 50 ára afmæli varðskipsins Óðins sem þjónaði Landhelgisgæslunni á árum áður. Fyrir tveimur árum var skipið fært á safnið og þar stendur það nú við bryggju sem hluti af safninu. Eftir ræður heldra fólks og tilheyrandi góðgæti, gátu gestir skoðað safnið og auðvitað skipið. Ég man ekki eftir að hafa komið í íslenskt varðskip áður og beið því ekki boðanna að skoða skipið þegar tækifæri gafst. Það var mjög gaman og fróðlegt og ekki spillti fyrir að ég naut góðrar leiðsagnar nokkra fyrrverandi skipverja sem sýndu skipið hátt og lágt og sögðu skemmtilegar sögur af lífinu um borð. Mynd dagsins er tekin í varðskiptinu Óðni nú í kvöld. Þarna er ég inn í skýli á dekki skipsins þar sem ein byssan er geymd (veit nú ekki hvort þetta kallast fallbyssa). Mjög gaman að skoða þetta merka skip!

þor

Hamstur kominn á heimilið!

Þriðjudagur 26. janúar 2010

Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur á heimilið - hamsturinn Skúri. Skúri kom til okkar í gær í afmælisveislu Magnúsar Árna. Magnús hafði frétt af því að í gamla daga hefði ég kunnað að sýna töfrabrögð og því til stuðnings var hann búinn að finna forláta galdratösku mína upp á háalofti. Ég lofaði að reyna að gera eitthvað. Eftir að hafa sýnt piltunum nokkur töfrabrögð voru þeir nú samt á því að það væri ekki hægt að galdra í alvörunni. Eftir nokkrar rökræður við drengina varð úr að ég þyrfti að galdra dýr til að geta sagst vera alvöru galdramaður. Ákveðið var að ég skildi galdra fram annað hvort hamstur eða ljón. Mönnum þótti nú öruggara að það væri hamstur þar sem ég sagðist ekki vera viss um að geta galdrað fram dýr og ég gæti þá örugglega ekki galdrað það til baka aftur. Ekki vildu þeir að við sætum uppi með ljón svo hamstur varð fyrir valinu. Það varð heldur en ekki betur undrun í hópnum þegar ég galdraði fram hamstur. Að sjálfsögðu tókst mér samt ekki að galdra hamsturinn til baka þannig að honum var komið fyrir í fötu og ég sendur út í búð að kaupa mat o.fl. Magnús Árni vildi endilega fá að eiga hamsturinn og eftir að hafa auglýst eftir búri á facebook máttum við nálgast eitt slíkt hjá nágrönnum okkar. Magnús skýrði hamsturinn Skúra og við erum nú búin að fá leiðbeiningar í dýrabúð hvernig á að hugsa um hann því við höfum aldrei átt hamstur áður.

IMG_3766[1]

Mynd dagsins er af nýjasta fjölskyldumeðliminum, hamstrinum Skúra. Hér er hann í ægilega fínu búri sem við fengum hjá nágrönnum okkar og verður framtíðarheimili Skúra!


7 ára afmælisveisla

Mánudagur 25. janúar 2010

Í dag er Magnús Árni, yngri sonur minn, 7 ára. Samkvæmt fjölskylduhefð var hann vakinn í morgunsárið með logandi afmælisköku, söng og pökkum. Hann var hinn ánægðasti með byrjun afmælisdagins og eftir að í skólann var komið var sunginn fyrir hann afmælissöngurinn. Kl 17 hófst svo afmælisveislan þar sem bekkjarbræður Magnúsar úr skólanum mættu. Þar var mikið fjör; borðaðar pizzur, farið í leiki og playstation og auðvitað borðuð afmæliskaka sem var græn fótboltakaka. Afmælið tókst rosalega vel og var bara nokkuð fjörugt eins og við var að búast. Mestu máli skiptir þó að Magnús sofnaði sæll og glaður eftir skemmtilegan afmælisdag.

 

IMG_3729[1]

Mynd dagsins er tekin í afmælisveislu Magnúsar Árna seinni partinn í dag og eins og sjá má var mikið fjör!


Bloggfærslur 3. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband