22.2.2010 | 23:05
Síðasta þorrablótið þennan Þorra...
Föstudagur 12. febrúar 2010
Í kvöld fórum við fjölskyldan yfir til vinafólks okkar hér í Mosó, þeirra Jóhönnu og Elvars. Síðustu ár höfum við þrjár vinafjölskur haldið saman fjölskylduþorrablót þannig að erfingjarnir fái að kynnast og alast upp við þennan þjóðlega sið. Í kvöld var semsé komið að þessu árlega þorrablóti. Jóhanna og Elvar eiga þrjá stráka en þriðja fjölskyldan eru Pétur og Hanna, vinafólk okkar hér í Mosó en þau eiga líka þrjá stráka þó aðeins tveir þeirra væru með í kvöld. Í boði var auðvitað allt sem hugurinn girnist (þ.e. þegar þorrablót er annars vegar auðvitað ), þó mismikið af hverjum rétti eftir líklegum vinsældum. Við leggjum mkila áherslu á að drengirnir smakki á sem flestu, sem þeir gera þó misvel. Aðalmálið er þó að eiga saman góðar og glaðar stundir og á því varð engin undanteking í kvöld. Þetta var í fimmta skipti sem ég snæði þorramat á þessum Þorra þannig að þó maturinn sé ágætur er líka bara ágæt að Góan sé að nálgast!
Mynd dagsins er tekin á fjölskylduþorrablótinu í kvöld hjá vinafólki okkar Jóhönnu og Elvari. Þarna eru Inga og Magnús ásamt Hönnu vinkonu okkar og Guðjóni Inga syni hennar. Þau eru stödd við Þorrahlaðborðið að raða kræsingunum á diskinn. Mjög skemmtilegt kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 23:04
Úrið komið úr viðgerð!
Fimmtudagur 11. febrúar 2010.
Um miðjan desember s.l. slitnaði ólin á úrinu mínu. Ég hef verið með úr á vinsti hendinni á hverjum degi í örugglega 15-20 ár. Einhverra hluta vegna ákvað ég þarna í desember að prófa aðeins að vera án úrsins í nokkra daga. Ég hélt að þetta myndi aldrei ganga en langaði samt að prófa þar sem mikið álag var á mér á þessum tíma. Tilgangur var auðvitað að sjá hvort úr-leysi myndi róa mig eitthvað. Og viti menn eftir aðeins nokkra daga var þetta bara farið að venjast og ég steingleymdi að fara með úrið í viðgerð fyrir jólin. Oft var þetta nú bara afslöppuð tilfinnig. Reyndar hef ég einstaka sinnum lent í því að ruglast á tíma eða mæta of seint vegna þessa. Eftir óheppilega uppákomu um daginn smellti ég mér með úrið í viðgerð og í dag var það semsagt klárt. Ansi þægilegt og skynsamlegt að fá það aftur en úr-leysi er líka góð tilfinning þar sem það eru klukkur mjög víða. Þarf að nýta úrleysið betur í fríum... Ég rakst á þessa skemmtilegu klukkumynd á netinu um daginn og hef hana sem mynd dagsins í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 23:04
Fermingarundirbúningur kominn á fullt!
Þriðjudagur 9. febrúar 2010
Við fjölskyldan höfum í mörg horn að líta þessa dagana. Það sem er nú samt efst á baugi núna er undirbúningur fyrir fermingu Ágústar Loga, eldri sonar okkar. Hann mun fermast í Lágafellskirkju hér í Mosfellsbænum á Pálmasunnudag, 28. mars. Í dag fórum við í heimsókn í Félagsheimilð Hlégarð en þar verður fermingarveislan haldin. Við hittum vertinn þar, hann Vigni og fórum yfir ýmis praktísk mál varðandi veisluna, skoðuðum salinn okkar, ræddum skreytingar og ýmislegt fleira. Það er nú ekki laust við að það sé kominn nokkur fermingarspenningur í okkur foreldrana eftir daginn því nú þarf að fara að ákveða hitt og þetta. En það er mjög skemmtilegt að undirbúa svona fermingarveislu í fjölskyldunni!!
Mynd dagsins sýnir félagsheimilið Hlégarð hér í Mosfellsbæ þar sem Ágúst Logi sonur minn mun halda fermingarveislu sína þann 28. mars n.k. - spennandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 23:04
Blíða í höfuðstað Norðurlands!
Mánudagur 8. febrúar 2010
Í dag brá ég mér í stutta ferð norður til Akureyrar. Þar þurfti ég að sinna erindum tengdum vinnunni. Akureyri skartaði sínu fegursta í dag. Þrátt fyrir nokkurn kulda var glampandi sól og algert logn. Það var nokkuð þétt skipuð dagskrá í ferðinni en þó gafst færi á að fara í stuttan göngutúr og koma við á hinu skemmtilega kaffihúsi Græna hattinum. Þar var troðfullt út úr dyrum en þó pláss fyrir mig og félagana til að sporðrenna ljúffengri og orkumilli tertu (fínt í kuldanum!). Jafnframt gat ég kíkt við á Hárgreiðslustofunni Passion þar sem tveir göngufélagar mínir vinna, þau Gulli og Sigga. Það var gaman að hitta aðeins á þau áður en haldið var aftur til höfuðborgarinnar. Ég var svo kominn heim tímanlega í kvöldmatinn eftir ánægjulegan dag.
Mynd dagsins er tekin á Akureyri í dag í blíðskaparveðrinu sem þar. Myndin sýnir útsýnið yfir miðbæinn, séð af Oddeyrinni. Mjög skemmtilegur dagur á Akureyri í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)