Fjölskyldan fagnar afmæli Magnúsar Árna

Sunnudagur 24. janúar 2010

Eins og fram kemur í færslu 21. janúar á yngri sonurinn á heimilinu, Magnús Árni, 7 ára afmæli á morgun. Þá verður heilmikil afmælisveisla fyrir bekkjarfélagana. Í dag hins vegar, héldum við fjölskyldan upp á afmæli kappans með því að fara öll saman í bíó. Magnús valdi auðvitað myndina og fyrir valinu stórmyndin Alvin og íkornarnir númer tvö. Þetta er skemmtileg fjölskyldumynd um íkornan Alvin og bræður hans tvo. Þessir íkornar eru séstakir að því leiti að þeir kunna að tala - og gott betur en það því þeir eru rokkstjórnur því þeir geta líka sungið og dansað. Hetjurnar lentu í ýmsum ævintýrum í myndinni og var Magnús hinn ánægðasti með bíóferðina. Á eftir fórum við fjölskyldan út að borða. Magnús Árni fékk auðvitað að velja stað og hann valdi að fara á American Style í Skipholtinu. Alveg hinN fínasti "for-afmælisdagur".

IMG_6812[1]

Mynd dagsins er tekin nú í kvöld þegar við fjölskyldan fórum út að borða. Þeir bræður fengu  sér hamborgara, samloku og franskar og voru hinir ánægðustu!


Magnað Þorrablót Aftureldingar!

Laugardagur 23. janúar 2010

Í kvöld vorum við Inga aldeilis í góðum félagsskap þar sem við vorum á risa-Þorrablóti Aftureldingar hér í Mosfellsbænum. Risa-þorrablótið var nú haldið í þriðja sinn í núverandi formi en það er haldið til styrktar barna- og unglingastarfi í knattspyrnu- og handknattleiksdeildum Aftureldingar. Auddi og Sveppi voru veislustjórar og hljómsveitin Ingó og verðurguðirnir spiluðu fyrir dans. Yfir 500 manns voru í mat og um 1.000 þátttakendur. Við Inga sátum á borði með Ólínu og Halla, Jóhönnu og Elvar og fleira góðu fólki. Þarna hittum við líka mjög mikið af Mosfellingum sem við þekkjum. Blótið í ár heppnaðist gríðarlega vel og við Inga tjúttuðum til rúmlega þrjú þegar við fórum heim. Þá var húsið ennþá fullt af fólki og hljómsveitin í góðum gír. Gríðarlega skemmtilegt kvöld SmileSmileSmile

þorrablot

Mynd dagsins er tekin á símann minn á Þorrablóti Aftureldingar nú í kvöld (steingleymdi myndavélinni auðvitað). Þarna situm við Inga að snæðingi og myndin nær nú vonandi að skila hinni mögnuðu stemmingu sem ríkti þarna í kvöld.


Hilton heimsótt á Bóndadaginn!

Föstudagur 22. janúar 2010

Í dag er Bóndadagurinn, upphafsdagur Þorra, sem er mánuður sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Kl. 18 var ég mættur á árlegt þorrablót Hrafnistu í Reykjavík, vinnustaðar míns. Þar var mikið um dýrðir og karlakórinn Fjallabræður var án efa hápunktur kvöldsins. Maturinn var auðvitað frábær líka þó ég hafi að þessu sinni bara rétt bragðað að kræsingunum. Ég stakk svo af rétt fyrir kl. 20 til að hitta hana Ingu mína. Í tilefni 20 ára afmælis okkar (sjá færslu 19. janúar) og bóndadagsins ákváðum við að gera okkur dagamun og gista eina nótt á hótel Nordica Hilton. Það var nú aldeilis gaman. Við fengum okkur að borða á veitingastaðnum VOX á jarðhæðinni og áttum skemmtilegt kvöld Cool

 

IMG_6810[1]

Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum Vox á hótel Nordica Hilton nú í kvöld. Þar héldum við Inga upp á bóndadaginnn og að 20 ár voru í vikunni síðan að við kynntumst!


Andrés valinn á boðskortið

Fimmtudagur 21. janúar 2010

Í dag vorum við Magnús Árni að undirbúa 7 ára afmæli kappans sem verður næsta mánudag. Við bjuggum til boðskort en öllum strákunum í bekknum hans verður þá boðið til stórafmælisveislu. Magnús Árni valdi að hafa nokkrar myndir af Andrési önd á boðskortunum. Eftir að við höfðum prentað þau út skrifaði Magnús nöfn á hverjum og einum gesti á kortin og svo þurfti að fara með þau til piltana sem Magnús hafði mjög gaman af. Nú er bara að telja niður dagana (a.m.k. er Magnús Árni löngu byrjaður að gera það)!

 

IMG_6882[1]

Mynd dagsins er af boðkorti fyrir 7 ára afmælisboð Magnúsar Árna sem verður á mánudaginn en við feðgar vorum að græja það saman í dag.


Bloggfærslur 2. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband