Dagur ljósmyndaranna

Laugardagur 2. janúar 2010

Dagurinn í dag hlýtur að vera dagur ljósmyndara. Þvílík veðurblíða og fegurð í náttúrunni! Við fjölskyldan höfðum fyrir löngu ákveðið að dagurinn í dag yrði "kósí"-dagur hjá fjölskyldunni þar sem ekkert hafði verið sett á dagskrá. Eftir rólegan morgun skelltum við okkur í gönguferð eftir hádegið. Við fórum um nágrennið en mestum tíma vörðum við þó í Leirvoginum sem er hér rétt fyrir neðan húsið okkar. Við eigum mjög flotta myndavél sem við notum allt of sjáldan. Hún var með í för og á leiðinni spreytti Inga sig á alls konar stillingum og uppstillingum enda ekki annað hægt en að draga fram vélarnar, fyrir þá sem áhuga hafa á ljósmyndun. Í sumar fjallaði ég hér um Leirvoginn en það sem er mjög gaman við voginn er að mjög mikill munur er á flóði og fjöru. Sögur segja að í gamla daga hafi skip jafnan siglt langt inn í voginn á flóði en á fjöru var og er ennþá nánast hægt að ganga yfir voginn þveran og endilegan. Í dag var fjara og þó við værum bara á gönguskóm gátum við farið víða um voginn.

Picture 173

Mynd dagsins er tekin í gönguferð fjölskyldunnar í dag í alveg ekta póstkorta og dagatalsveðri, en vil ég nú kalla daginn dag ljósmyndaranna. Inga tók þessa mynd af okkur Magnúsi Árna (erum fyrir miðri mynd) í Leirvoginum í dag á háfjöru með Esjuna í baksýn - Inga er nú bara nokkuð efnilegur ljósmyndari Smile


Og þá er það árið 2010!

Föstudagur 1. janúar 2010

Fjölskyldan náði nú að sofa alveg framundir hádegi á þessum fyrsta degi ársins eftir að hafa farið tiltölulega seint að sofa. Dagurinn var gríðarlega fallegur, aldeilis glæsilegt veður. Um kaffileitið var ég þó búinn að fara í nýársbaðið og klæða mig í mitt fínasta púss. Undanfarin ár hefur mér verið boðið í móttöku hjá sjálfum forsetanum á Bessastöðum á þessum degi og til heiðurs þessa æðsta embætti landsins finnst mér nú ekki annað hægt en að mæta - það er nú líka bara mjög gaman. Ýmsum forkólfum úr þjóðfélaginu er boðið þarna í stutta mótttöku, líklega í nokkrum hópum sem mæta á mismunandi tíma. Bessastaðir skörtuðu sínu fegursta í veðurblíðunni og ekki var hægt að sjá annað en Ólafur Ragnar gerði slíkt hið sama þrátt fyrir að hafa fengið ýmis skot á sig í Skaupinu kvöldið áður. Því miður var boðið ekkert í líkingu við það sem Skaupið kvöldið áður, hafði gefið til kynna um partýin á Bessastöðum - en mjög skemmtileg þó. Eftir að boðinu lauk fórum við fjölskyldan í heimsókn til mömmu og pabba á Akranes þar sem við snæddum gómsæta nýársmáltíð!

bessastadir
 

Mynd dagsins er af Bessastöðum sem skörtuðu sínu fegursta í dag. Þar kíkti ég við seinni partinn í dag í árlegt nýárshóf forsetaembættisins. Ekki var nein myndavél með í för en þessi fallega mynd er fengin að láni á "google"


Síðustu metrarnir af 2009...

Fimmtudagur 31. desember 2009

Jæja, þá er komið að síðasta degi ársins. Í morgun þurfti ég að kíkja í vinnuna en var kominn heim á hádegi. Stundvísilega kl. 13:14 var ég svo kominn yfir götuna, nánar tiltekið í Hrafnshöfða 2, hér í Mosfellsbænum. Þar var að hefjast árlegt gamlársdagspartý okkar karlanna í götunni. Þar er jafnan boðið upp á graflax, nýbakað rúgbrauð, ákavíti og fleira góðgæti. Alltaf er ætlunin að boðið sé búið um kl. 15:30 en það hefur nú ekki alltaf tekist að reka endahnútinn þáCool Ég var þó kominn heim upp úr klukkan fjögur eftir skemmtilegar stundir með nágrönnunum og var mikið hlegið eins og vera ber. Það var tæplega 6 kílóa kalkúnn í gamlársdagsmatinn en hjá okkur fjölskyldunni var Guðrún mágkona í mat. Fyrir skaupið höfðu mamma og pabbi bæst í hópinn og rétt fyrir miðnættið kom svo Bryndís frænka í heimsókn. Það var algert blíðskaparveður rétt fyrir miðnættið þegar við fjölskyldan hófum okkar hluta af stærstu flugeldasýningu í heimi. Nágrannarnir voru einnig nokkuð öflugir og um miðnættið höfðu systurnar Guðrún og Inga hellt kampavín í glös og fært okkur "skotmönnum" fjölskyldunnar. Við skáluðum því fyrir nýju ári úti á götu með fjölskyldunni og nágrönnunm sem var skemmtileg upplifun. Hið mjög svo fína og flotta ár 2009 var liðið en hið spennandi ár 2010 tekið við!

IMG_6763[1]

Mynd dagins er tekin nú rétt fyrir miðnættið. Þar sem veðrið var svo gott fögnuðum við fjölskyldan nýju ári útifyrir. Systurnar Inga og Guðrún mættu með kampavínið út á götu en hér eru þær ásamt Bryndís frænku á leiðinni út úr húsinu með áramótadrykkinn góða! Flott ár liðið og ennþá betra ár framundan!


Flugeldakaup!

Miðvikudagur 30. desember 2009

Þó ég hafi þurft að vinna langt fram á kvöld nú í dag þá gafst samt tími til að sinna mikilvægu erindi nú fyrir áramótin - að kaupa flugelda. Við feðgar fórum á stúfana og heimsóttum Björunarsveitina Kyndil hér í Mosfellsbænum þar sem úrvalið að slíkum gersemum virðist vera óendanlegt. Ég tel mig bara hafa sloppið nokkuð vel út aftur, amk var alveg hægt að bera afrakstur ferðarinnar í einni ferð út í bíl. Þó húsfreyjunni Ingu, finnist flugeldarnir nánast vera óþarfi á áramótum get ég nú sjálfur ekki hugsað mér áramótin nema sprengja gamla árið hressilega upp. Um kvöldið fóru svo synirnir ásamt frændsystkinum sínum á söngleikinn "Óliver" sem var jólgjöfin frá Guðrúnu frænku.

flugeldar

Mynd dagins er tekin í dag við flugeldakaup okkar feðganna. Þarna er Magnús Árni í söluskúr björgunarsveitarinnar Kyndils sem vonandi fær gott rekstrarfé út úr flugeldasölu þessa árs.


Bloggfærslur 3. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband