12.1.2010 | 22:46
Kósý laugardagur
Laugardagur 9. janúar 2010
Í dag var ákveðið að hafa bara rólegheit á dagskrá fjölskyldunnar en það er nú stundum alveg dásamlegt að hafa ekkert sérstakt á dagskránni. Seinni partinn, þegar drengirnir voru komnir heim eftir að hafa leikið með vinum, drógum við fjölskyldan fram spil og spiluðum spilið "Sequence" sem er ágætlega skemmtilegt fjölskylduspil. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Magnús Árni (6 ára), gaf okkur hinum eldri ekkert eftir við spilamennskuna en spilið reynir nokkuð á útsjónarsemi. Held ég reyni ekkert að að útskýra spilareglurnar hér. Inga tók sig svo til og eldaði alveg ljómandi ljúffengan kjúklingarétt í kvöldmatinn. Mamma og pabbi kíktu við en þau voru að koma af Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar og snæddu með okkur kvöldmatinn. Bara ljúfur og rólegur dagur þar sem hægt var að hafa það svolítið kósý.
Mynd dagins er tekin við kvöldmatarborðið í kvöld þar sem snæddur var kjúklingaréttur að hætti Ingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2010 | 22:46
Föstudagskvöld í tölvulandi
Föstudagur 8. janúar 2010
Í kvöld var aldrei þessu vant ekkert sérstakt á dagskránni. Við fjölskyldan vorum því bara heima í rólegheitum í kvöld. Fljótlega beindist þó athygli mín af playstation-tölvu sonanna. Þar var eldri pilturinn að spila ægilegan tölvuleik sem heitir Call of Duty 4. Þetta er svona "1. persónu" byssuleikur og bannaður börnum. Einhvers konar "bófaleikur" eins og maður lék í gamla daga nema nú í tölvunni. Einhverra hluta vegna drógst ég inn í þessa veröld þar sem breskir og bandarískir sérsveitarmenn þurfa að brjóast framhjá ýmsum þrjótum sem ógna heiminum víðvegar um lönd - á sjó, inn í borgum og úti í sveit. Leikinn er hægt að spila á netinu, bæði í liði með og gegn öðrum spilurum víðsvegar um heiminn. Það fór nú svo að kvöldið fór meira og minna í spila þennan leik og heyra útskýringar sonarins hvernig hitt og þetta gengur fyrir sig i þessum heimi. Miðað við árangurinn minn í leiknum er ljóst að mér er ætlað annað hlutverk í lífinu en að vera sérsveitarmaður. Maður skemmti nú bara konunglega í þessu og adrenalínið flæddi, þó tilgangur leiksins sé ekki mjög fallegur, og svo fór að komið var fram yfir miðnættið þegar leik var hætt - þá hæst hann stendur.
Mynd dagins er af tölvuleiknum Call of Duty 4 sem við feðgar vorum að spila saman í "Playstation" í kvöld. Alveg ótrúlega magnað fyrirbæri að spila þennan leik þó hann hafi ekki beint fallegt uppeldislegt gildi og ég hafi ekki náð sérstaklega góðum árangri sem sérsveitarmaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2010 | 22:45
Jólin tekin niður
Fimmtudagur 7. janúar 2010
Í kvöld byrjuðum við fjölskyldan að taka niður jólin. Þetta er ansi vænn skammtur af jólaskrauti sem heimilið okkar hefur innihaldið yfir hátíðarnar en það er jú mikilvægur hluti af því að gera jólin hátíðleg og skemmtileg. Það skal alveg viðurkennast að húsfreyjan, Inga, á eiginlega allan heiður af því að velja skrautið, koma því upp og taka niður - ég er bara sérlegur aðstoðarmaður í ferlinu Alls eru 10-12 pappakassar í stærri kantinum sem er notaðir undir skrautið en þeir búa jafnan á háaloftinu hjá okkur. Þá eru ótaldið ýmsar öskjur og dósir undir smákökur og fleira sem ekki er sett í pappakassana. Ekki má heldur gleyma útijólaseríunum sem eru glærar en við ætlum að leyfa þeim að loga út janúar að minnsta kosti. Jólatréð okkar var ansi tómlegt þegar búið var að taka af því allt skrautið en þessi mynd af jólatrénu okkar, alveg "allsberu", hef ég valið sem mynd dagins í dag til heiðurs þess að við vorum að taka niður jólin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)