Þrettándagleði í Mosfellsbænum

Miðvikudagur 6. janúar 2010

Í dag er síðasti dagur jóla og jólin verður að kveðja með stæl. Síðan við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 1999 höfum við haft þann sið að fara hér á þrettándabrennu enda er hún jafnan ein sú glæsilegasta á landinu. Í för með okkur Ingu í kvöld voru synirnir, Ágúst Logi og Magnús Árni, ásamt mömmu og pabba og Guðrúnu mágkonu. Venju samkvæmt lögðum við upp frá Bryndísi frænku sem býr í Arnartanganum eða bara rétt við brennuna. Veður fyrir Þrettándabrennur var með allra besta móti. Fallegur jólasnjór yfir öllu, ekkert mjög kalt en algert logn. Gott veður hefur greinilega sitt að segja því um 5.000 manns mættu á brennuna þar sem var sungið og spjallað áður en Björgunarsveitin Kyndill hér í Mosó bauð upp á mjög glæsilega flugeldasýningu - þar var nú engin "kreppusýning" á ferðinni heldur þvert á móti - alveg ótrúlega flott flugeldasýning! Að lokinni brennu og flugeldasýningu fórum við fjölskyldan í árlegt Þrettándaboð Bryndísar frænku þar sem maður hitti fullt af skemmilegu fólki og gat gætt sér á heitu súkkulaði, ís, kökum og fleira gúmmolaði.  Upp úr kl. 11 þorðum við nú ekki öðru en að fara heim þar sem Magnús Árni (6 ára) var orðinn nokkuð þreyttur og allir þurftu að vakna snemma daginn eftir. Þetta var sannarlega glæsilegur endir á frábærum jólum!!!

IMG_6795[1]

Mynd dagins er tekin á glæsilegri Þrettándabrennunni í Mosfellsbænum nú í kvöld. Á myndinni eru frá vinstri: Ágúst Logi, mamma, pabbi, Bryndís frænka og Guðrún mágkona.


Að föndra "gogga"...

Þriðjudagurinn 5. janúar 2010

Dagurinn í dag verður án efa talinn mjög sögulegur en forsetinn var algerlega maður dagsins í dag. En þetta er semsagt dagurinn þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir "æseif". Þar sem í síðustu færslum hefur verið fjallað nokkuð um forseta og Bessastaði ætla ég að gefa því frí. Seinni partinn í dag átti ég nefnilega ágæta stund með syni mínum Magnúsi Árna og Elísabetu vinkonu hans þar sem við vorum að föndra "gogga" sem er vinsælt sport hjá þessum aldri. Í gogginn eru svo skrifaðar tölur sem maður velur sér og undir tölunum er svo "spádómur" um persónuleika manns Tounge Eftir að hafa valið þrisvar sinnum tölur úr "goggi" eigandans kemur úrskurðurinn og í dag var ég ýmist "tveggja ára" eða "önd". Líklega nokkuð mikið til í þessu í báðum tilvikum Cool

IMG_6796[2]

Mynd dagins er tekin hér heima seinni partinn þar sem ég föndraði "gogga" með Magnús Árna og Elísabetu vinkonu hans!


Forsetinn Vigdís

Mánudagur 4. janúar 2010

Nú í kvöld lauk ég við að lesa nýju bókina um Vigdísi sem kom út fyrir jólin: Vigdís - kona verður forseti. Bókin er eftir Pál Valsson og lýsir lífshlaupi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta. Lífshlaup Vigdísar er auðvitað mjög áhugavert og fróðlegt að lesa ýmislegt um þessa merku konu. Sérstaklega finnst mér nú mjög skemmtilegur en rosalega "íslenskur" aðdragandinn að ákvörðuninni um að fara í framboð. Þó bókin sé heldur löng fyrir minn smekk hafði ég nú bara mjög gaman af henni. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér að ég hitti Vigdísi í aðdraganda forsetakostninganna 1980 en þá var ég 9 ára gamall. Ég man vel eftir þegar ég hitti hana en hún var á sólríkum degi í kosningaferðalagi um Akranes. Mamma tók að sér að keyra hana hluta dagsins og ég fékk að sitja í bílnum milli tveggja eða þriggja staða. Ég man að ég var alveg sannfærður um að þessi kona yrði forseti þó hún hafi nú ekki verið neitt sérlega forsetaleg - heldur bara meira venjuleg kona í venjulegum fötum Smile

Vigdis-175x249
 

Mynd dagsins er fengin af láni af vefsíðu Forlagsins og sýnir bókarkápu Vigdísar-bókarinnar sem ég lauk við að lesa nú í kvöld! Merkileg bók um lífshlaup Vigdísar forseta.


Spila- og átveisla á Akranesi

Sunnudagur 3. janúar 2010

Við fjölskyldan áttum mjög skemmtilegan dag í dag. Upp úr hádegi fórum við upp á Akranes og heimsóttum þar vinafólk okkar Sævar og Hafdísi ásamt börnum þeirra Arnari, Katrínu og Helenu. Einnig voru með okkur góðir vinir, Ástþór og Sigrún ásamt Ástrósu dóttur sinni. Við vorum nokkurn veginn að borða allan daginn og meðan krakkarnir léku sér við að mála, spila og fara í heita pottinn voru við fullorðnu að spila (ásamt átinu) hið skemmtilega spil ALIANS sem var mjög vinsælt í jólapökkunum nú um jólin. Spilið Alians gengur út á að lýsa tilteknum orðum fyrir spilafélögunum sem þeir eiga að reyna að finna út án þess að notað sé í lýsingunni það orð sem finna á; nokkurs konar andstæða við það að leika látbragðsleik (ferkar flókin útskýring Smile). Þetta er mjög skemmtilegt spil sem ég mæli með!

IMG_6779[1]

Mynd dagsins er tekin í spila- og átveislunni á Skaganum í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ástþór tvær "hnallþórur" sem við gæddum okkur á en áður en við fengum það kveikti kappin á blysum í tilefni af nýja árinu. Mjög ánægjulegur dagur hjá okkur fjölskyldunni á Skaganum í dag!


Bloggfærslur 10. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband