26.9.2009 | 00:56
Líkkista frá árinu 1211
Föstudagur 25. september 2009
Í nótt gisti ég á hinum sögufræga stað Skálholti, sem var valinn sem fundarstaður fyrir fund sem ég þurfti að sækja í tengslum við vinnu mína (sjá færslu gærdagsins). Það er nú varla hægt að koma í Skálholt án þess að velta sér amk aðeins upp úr allri sögunni sem staðnum tengist. Við fórum að sjálfsögðu í skoðunarferð um staðinn enda miklar og merkilegar minjar og munir þarna að sjá og ýmsar fróðlegar og skemmtilegar sögur sem okkur voru sagðar. Af öllu því sem við skoðuðum vakti nú mesta athygli mína steinkista sem Páll Jónsson biskup var jarðaður í en hann lést nokkru áður en play-station tölvurnar komu á markað eða árið 1211! Það er nú ekki á hvejum degi sem maður sér svo gamlan grip, hvað þá eitthvað úr Íslandssögunni. Kistan fannst við uppgröft í Skálholtskirkjugarði í ágúst 1954. Að sjálfsögðu er svo til saga af því að þegar átti að opna kistuna nokkrum dögum síðar, að viðstöddu fjölmenni. Þá gerði skyndilega svo brjálað veður að mannskapurinn varð flýja inn og nokkrir ofurhugar opnuðu svo kistuna einherjum vikum síðar. Fundinum mínum í Skálholti lauk svo um hádegisbilið og þá var brunað beint í vinnuna þar sem maður var fram eftir degi.
Mynd dagsins er af hinni stórmerkilegu líkkistu Páls biskups í Skálholti, sem lést árið 1211. Alveg magnað fyrirbæri!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2009 | 00:51
Að syngja tíðir
Fimmtudagurinn 24. september 2009
Eftir hádegi í dag lá leið mín Skálholt þar sem ég þurfti að sækja fund tengdan vinnunni. Þó ég hafi nú ekki oft komið í Skálholt, er alltaf sérstök en skemmtileg upplifun að koma á þennan sögufræga stað. Kl. 18 var gert fundarhlé og fundargestir drifnir út í kirkjuna til að aðstoða við að syngja tíðir. Að syngja tíðir er örstutt kirkjuleg athöfn sem tveir aðilar (eða tveir hópar) syngjast á, ásamt bæn og fleira tengdu guðs orði. Það sem er nú merkilegt við þetta er að tíðir, sem eru katólskur siður, hafa verið sungnar í Skálholti frá 13. öld og því er nú nokkuð forvitnilegt fyrir túrista eins og mig með mikinn áhuga á landinu og sögu þess, að upplifa svona viðburð. Tíðirnar eru sungnar tvisvar á hverjum degi, allt arið um kring, kl 9 og kl 18. Efnisskráin er nokkuð misjöfn eftir því hverjir eru viðstaddir (þ.e. vanir tíðasöngvarar) og fjölda gesta. Þar sem það var bara einn formlegur forsöngvari við tíðasönginn í dag var dagskráin frekar einföld. En þá hefur maður prófað þetta - að vera viðstaddur þegar sungnar eru tíðir í Skálholtskirkju.
Mynd dagsins er tekin við Maríu-hluta Skálholtskirkju nú í kvöld og sýnir Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla að viðhalda hinum forna sið að syngja tíðir. Altarið er frá tímum Brynjólfs biskups sem var í Skálholti á 17. öld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)