20.9.2009 | 23:08
Síðasta grill sumarsins
Laugardagur 19. september 2009
Við fjölskyldan ákáðum bara að taka það rólega í kvöld, þó að við höfum bardúsað ýmislegt skemmtilegt í dag. Við höfum verið á miklum faraldsfæti síðustu helgar og svo verður einnig þær næstu. Það var því ágætt á eiga eitt rólegt laugardagskvöld saman þar sem við grilluðum lambafilé, borðuðum ís og nammi, og horfðum á skemmtilega fjölskyldumynd. Þetta var jafnframt síðasta grillið í sumar því næstu daga munum við smella grillinu og garðhúsgögnunumí inn fyrir veturinn.
Mynd dagsins er tekin úti á palli nú undir kvöld þar sem húsbóndinn er við störf í líklegast síðasta grilli sumarsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2009 | 22:57
Sögur af lyfjafræðingum
Föstudagur 18. september 2009
Í hádeginu í dag fór ég og hitti nokkra félaga mína úr lyfjafræðinni, en allt frá því ég var í Háskólanum að læra lyfjafræðina höfum við um 10 félagar haldið hópinn og hist reglulega. Í dag varð veitingastaðurinn VOX, á hótel Nordica fyrir valinu þar sem við gæddum okkur á ljúffengu háegishlaðborði meðan góðar sögur voru látnar fjúka.
Mynd dagsins er tekin á veitingastaðnum VOX í hádeginu í dag. Á myndinni eru Bjarni, Toggi, ég, Skúli og Bjössi. Mjög skemmtilegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2009 | 22:33
Flottur foreldrafundur
Fimmtudagur 17. september 2009
Kl 18 í kvöld fórum við Inga á foreldrafund í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum. Þá var öllum foreldrum barna í 1. bekk boðið að kynna sér skólastarfið en yngri sonur okkar, Magnús Árni, tilheyrir einmitt þessum hópi. Dagskráin hófst með nokkrum stuttum kynningarfyrirlestrum en kl. 19 var boðið upp á flottan kvöldverð við uppdekkuð borð. Mjög flott umhverfi og góður matur en þetta er eitthvað sem maður hefur nú ekki kynnst áður á foreldrafundum. Eftir matinn var okkur foreldrunum skipt í litla hópa sem færðust skipulega milli kennara í hinum ýmsu greinum og þar fengum við upplýsingar um skólastarfið. Þetta er alveg frábært framtak hjá kennurum og starfsfólki Lágafellsskóla sem fá alveg 5 stjörnur fyrir metnað og áhuga við að gera foreldrafundinn og skólastarfið eins öflugt og kostur er.
Mynd dagsins er af Magnús Árna í skólanum. Því miður vorum við ekki með myndavél á foreldrafundinum svo myndin af Magnúsi Árna í skólastofunni sinni nú í morgun verður bara að duga í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)