Þar sem lýsið lekur af lyfjafræðingum...

Miðvikudagur 9. september 2009.

Undanfarin 10 ár eða svo hef ég mætt flest miðvikudagskvöld í íþróttahúsið hér að Varmá og spilað fótbolta. Í yfir 20 ár hafa karlkyns lyfjafræðingar (sem eru í minnihluta í stéttinni) hist einu sinni í viku yfir veturinn og spriklað í fótbolta. Við erum á öllum aldri og höfum bara mjög gaman af þessum sið. Venjulega mætum við 8-12 í hvern tíma og spilum í eina klukkustund (sem er alveg nóg). Svo fylgja auðvitað með helstu sögur sem ganga í bransanum og farið yfir þjóðfélagsmálin.

IMG_5726[1]

Mynd dagsins er tekin í lyfjafræðingafótboltanum í kvöld en mér fannst alveg tilvalið að hafa eina fótboltamynd hérna í viðbót þar sem þær hafa verið áberandi síðustu daga. Myndir sýnir þá sem mættu í kvöld og eins og sjá má var vel tekið á því og lýsið rann af mönnum. Á myndinni eru frá vinstri: Efri röð Haukur, Rikki og Ari. Neðri röð Maggi, Eggert, Finnbogi, ég og Sverrir.


Kylfurnar kítlaðar í Kiðabergi

Þriðjudagur 8. september 2009

Seinni partinn í dag plötuðu nokkrir vinnufélagar mig með sér í að spila golf. Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður er ég ekki mikill golfari. Hef reyndar ekkert spilað golf síðan ég var krakki. Ég fékk lánað kylfusett en mætti í gallabuxum og strigaskóm sem er víst alls ekki vel séð í golfheiminum. Við fórum á völlinn Kiðaberg í Grímsnesinu sem kunningir segja með flottari golfvöllum landsins. Þrátt fyrir að í byrjun hafi komið kröftugur rigningarskúr var veðrið að öðrum leiti alveg frábært. Frammistaða mín var nú bara þokkaleg miðað við fyrstu kynni við golfkylfur í áratugi og það fór eins og ég óttaðist: þetta var hrikalega gaman. Mig hefur nefnilega lengi grunað að ég fengi algera golfdellu ef ég færi að prófa golfið og því hef ég forðast það. Þetta hlýtur nú samt að vera í lagi svona í lok sumars! Eftir golfhringinn bauð einn félaginn okkur í bústað sinn í nágrenninu þar sem við grilluðum og áttum við þar góða stund.

 

golf

Mynd dagsins er tekin í kvöld, í blíðunni á Kiðabergsvelli. Í baksýn er Hvítá en á myndinni eru þeir Biggi og Samúel.


Núlla!

Mánudagur 7. september 2009

Þó það hafi verið brjálað að gera hjá mér í allan dag tókst mér að finna smá smugu nú undir kvöld til að grípa í spil með Magnúsi Árna. Við spiluðum hið merka spil "núlla" sem þeir bræður eru nýbúnir að kenna mér en þessu spili kynntist ég nú ekki í minni æsku. Skemmtilegt og fjörugt spil og mikið gaman. 

IMG_5730[1]

Mynd dagsins er af Magnúsi Árna við spilamennskuna. "Núllan" alveg stórskemmtilegt Smile


Bloggfærslur 10. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband