9.8.2009 | 11:16
11 ára brúðkaupsafmæli!
Laugardagurinn 8. ágúst 2009
Já! Í dag eigum við Inga 11 ára brúðkaupsafmæli!!! Svona líður tíminn hratt. Við fjölskyldan tókum nú daginn frekar rólega eftir ferðalög síðustu daga, en undir kvöld fórum við öll út að borða í tilefni dagsins. Fyrir valinu varð veitingastaðurinn Ítalía á Laugaveginum sem, þrátt fyrir háan aldur, er alltaf jafnvinsæll - góður!!
Mynd dagins tók einn af þjónunum á veitingastaðnum Ítalíu, af okkur fjölskyldunni, nú í kvöld. Við áttum þarna fína kvöldstund á brúðkaupsafmælinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 11:09
Stóragjá og stórmeistarajafntefli
Föstudagur 7. ágúst 2009
Í morgun var pakkað saman eftir ferðalag vikunnar og haldið heim á leið í Mosó. Dagurinn fór að mestu leiti í akstur. Strákarnir voru nokkuð þreyttir og eftir að frændanum hafði verið skilað á Akureyri sváfu þeir að mestu leyti alla leiðina. Undir kvöld skellti ég mér á mjög spennandi knattspyrnuleik hjá Aftureldingu og ÍA sem endaði með stórmeistarajafntefli 1-1. Á eftir hittumst við nokkrir félagar, gilluðum saman, fórum í pottinn og áttum saman góða stund.
Mynd dagins er tekin ofaní Stórugjá í Mývatnssveitinni og sýnir Ágúst Loga og Ingu. Það er mjög skemmtilegt fyrir fjölskylduna að kíkja aðeins í þessa gjá sem er alveg rétt við Þjóðveg 1. Gjáin getur þó verið varasöm en þar er líka að finna leyndan (?) baðstað með heitu vatni sem við þurfum að prófa við tækifæri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 10:54
Við Mývatn
Fimmtudagur 6. ágúst 2009
Ferð okkar á Norðurlandi hélt áfram í dag. Í gær komum víð á Mývatn en þar er nú aldeilis hægt að dveljast í marga daga við að skoða náttúruna og njóta. Rétt fyrir hádegið voru allir tilbúnir og þá fórum við upp að Kröfluvirkjun og kíktum á Víti. Jafnframt gengum við stóran hring á Leirhnjúkssvæðinu en þar ægir saman litadýrð náttúrunnar í öllu sínu veldi. Þarna var gríðarlega mikið af ferðamönnum og þeir erlendu í algerum meirihluta þannig að tilfinningin er eins og maður sé staddur erlendis. Eftir Leirhnjúksgöngu fórum við yfir í Dimmuborgir þar sem við áttum góða stund við að kíkja ofan í gjótur og skoða hella. Dimmuborgir eru orðnar það fjölfarinn staður að breiðir göngustígar liggja um aðalleiðir og ekki má fara út af þeim. Undantekningin er þó "krákustígur" sem liggur um hluta svæðisins og hann ætti fólk að fara til að upplifa alvöru Dimmuborgastemmingu. Fyrir kvöldmatinn skelltum við okkur svo í Bláa Lón þeirra Norðanmanna, Jarðböðin við Mývatn, áður en lambasteikur voru grillaðar ofan í liðið.
Mynd dagsins er tekin í hrauninu við Leirhnjúk í dag. Það eru skemmtilegar gönguleiðir um hraunið sem enn rýkur úr enda var áralöng jarðskjálfta og eldvirkni á svæðinu sem lauk um 1984. Á myndinni er Inga að hjálpa Magnúsi Árna yfir djúpa sprungu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 10:36
Gantast við Goðafoss
Miðvikudagur 5. ágúst 2009
Í dag lá leið okkar frá Siglufirði yfir á Mývatn. Við fórum yfir Lágheiði og lituðumst um á Ólafsfirði. Á Akureyri bættist Rúnar Ingi frændi í hópinn (systursonur Ingu), en annars stoppuðum við ekkert þar að þessu sinni. Við vorum kominn á Mývatn undir kvöld þar sem við grilluðum og höfðum það huggulegt hjá ferðaþjónustuinni Bjargi við Reynihlíð.
Mynd dagsins er af Magnúsi Árna, Ágústi Loga og Rúnari Inga við Goðafoss. Eins og sjá má á myndinni var mikið fjör hjá frændunum í ferðinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 10:33
Siglufjörður City
Þriðjudagur 4. ágúst 2009
Í dag héldum við fjölskyldan í ferðalag norður í land en þar ætlum við að vera næstu daga. Staðarval í ferðalaginni réðist aðallega af veðurspá en hér sunnan- og vestanlands á að vera rigning. Eftir hádegið keyrðum við í rólegheitum alveg á Siglufjörð en þar höfum vð lítið verið. Inga hefur t.d. aldrei komið þarna áður nema sem barn. Ég hef reynda komið þarna nokkrum sinnum. Siglufjörður er fallegur bær og sem þó var greinilega á hátindi sínum rétt um miðja síðustu öld þegar síldinarævintýrið var í algleymi. Á Siglufirði er eitt flottasta safn landsins, Síldarminjasafnið, sem er algert "must" fyrir alla Íslendinga að skoða amk einu sinni. Sérstaklega er magnað að að sjá myndir frá hátindi síldarævintýrisins þegar hundruðir skipa lágu við bryggju og bærinn mynnti helst á stórborg í Útlöndum.
Mynd dagsins er af Siglufirði. Við keyrðum gömlu leiðina um Siglufjarðarskarð og Inga tók þessa mynd þar uppi. Það var flott að sjá hvernig þykk ský söfnuðust kringum fjallatoppana í firðinum en í miðjunni þar sem bærinn er skein sólin skært.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)