3.8.2009 | 23:44
Ljúfengt lambafilé
Mánudagur 3. ágúst 2009
Í dag komum við fjölskyldan heim úr Verslunarmannahelgartúrnum sem að þessu sinni var fjölskylduhátíðin "Unnarholtskot 2009". Þar býr Kristín Erla mágkona ásamt fjölskyldu og voru Inga og allar systurnar mættar í heimsókn ásamt fjölskyldum (sjá bloggfærslur síðustu daga). Við skelltum okkur beint í sund við heimkomuna og seinni parturinn fór í að undirbúa matarboð sem við héldum nú í kvöld fyrir móðursystur mína, Siggu og hennar mann, Steen. Þau búa í Danmörku en eru nú í heimsókn á Íslandi. Þau hafa gegnum tíðina tekið konunglega á móti manni þegar maður hefur verið staddur í Danmörku, þannig að það er bara gaman að fá þau í heimsókn hingað í Mosó og reyna að gera eitthvað fyrir þau. Venjulegast reynum vð að grilla fisk saman þegar þau koma í mat en þar sem hann er ekki auðfundinn á frídegi verslunarmanna, var ráðist í ljúfengan og þjóðlegan kost; lambafilé. Maturinn heppnaðist frábærlega hjá Ingu og kvöldið skemmtilegt!
Mynd dagins er af kvöldverðarborðinu nú í kvöld þar sem við snæddum ljúfengt lambafílé. Frá vinstri: Steen, Sigga, Magnús Árni, mamma, pabbi, Inga og Ágúst Logi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2009 | 23:31
Gobbiddígobb...
Sunnudagur 2. ágúst 2009
Eins og í gær, erum við fjölskyldan stödd í Unnarholtskoti við Flúðir í dag. Sumir voru lengur á fætur en aðrir. Sólin skein skært og við Magnús Árni tókum okkur góðan tíma í að klappa fimm litlum hvolpum sem nýlega komu í heiminn í kotinu. Um hádegisbil lögðu flestir í göngutúr á Miðfell sem er fjall við Flúðir. Það er stutt og skemmtileg ganga. Nú er búið að merkja hringveg eftir fjallinu en á því miðju er stöðuvatn, þokkalega stórt. Þar vörðum við dágóðum tíma í að vaða og bursla áður en undirritaður og húsfreyjan í Unnarholtskoti, Kristín Erla, tókum af skarið og fengum okkur góðan sundsprett í vatninu. Um kaffileitið bætust Ingimar og Anna, tengdaforeldrar mínir í fjöskyluhópinn í Unnarholtskoti. Þá var haldið í golfskálann við Flúðir, Kaffi-Sel, þar sem við sporðrenndum pizzum í gríð og erg. Undir kvöld fórum við karlanir í fjölskyldunni í frábæran reiðtúr um nágrennið en yngri kynslóðin hafði gert það fyrr um daginn.
Mynd dagins er af okkur Styrmi svila mínum (og húsbónda í Unnarholtskoti) nú í kvöld á leiðinni í reiðtúr. Styrmir hefur verið sveittur síðustu vikur að klára nýtt hesthús sem verið er að taka í notkun þessa dagana. Veðrið var frábært í allan dag en reiðtúrinn í kvöld var nú samt hápunktur dagins fyrir mig, ótrúlega gaman
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2009 | 23:10
Tekið á því í traktoratorfæru
Laugardagur 1. ágúst 2009
Hátíðin mikla, "Unnarholtskot 2009", hélt áfram í dag en við fjölskyldan erum stödd þar um helgina ásamt systrum Ingu og fjölskyldum þeirra. Eftir morgunverð fóru sumir í jóga en aðrir í útileiki. Eftir pylsugrill var haldið á Flúðir þar sem við fylgdumst með heimsmeistaramóti í traktoratorfæru ásamt tæplega 3000 öðrum. Þar fóru hver keppandinn á fætur öðrum á glæsilegum traktorum gegnum nær ófæra torfærubraut. Ótrúlegt hvað traktorar komast en auðvitað var skemmtilegast þegar traktorarnir fóru nánast á bólakaf í brautinni. Þegar til baka var komið sló fjölskyldan upp risagrillveislu. Eftir kvöldmatinn fóru svo margir í hópnum á alveg magnaða tónleika hljómsveitarinnar "Ljótu hálvitarnir". Þó ég hafi varla heyrt eitt lag með þessari hljómsveit fyrir tónleikanna voru þeir stórkosleg skemmtun fyrir alla viðstadda og mátti ekki á milli sjá hvort Magnús Árni (6 ára) eða Kristinn Þór (8 ára) skemmtu sér betur en þeir fullorðnu, þó þeir hafi verið í miklum meirihluta í félagsheimilinu á Flúðum nú í kvöld. Alveg ótrúlega gaman og sannarlega hægt að mæla með þessum ljótu en skemmtilegu hálfvitum sem frábærri skemmtun.
Þar sem engin myndavél var tekin með á tónleika Ljótu hálvitanna, valdi ég mynd frá torfærukeppninni í dag sem mynd dagsins. Þar sést einn keppandinn taka á því í brautinni og vonandi skilar myndin stemningunni sem ríkti í blíðunni í dag. Alveg frábær dagur í góðum hópi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2009 | 22:41
Fjölskylduhátíð á Flúðum!
Föstudagur 31. júlí 2009
Nú undir kvöld skelltum við fjölskyldan okkur á Flúðir. Nánar tiltekið í Unnarholtskot, rétt utan við Flúðir, en þar býr Kristín Erla systir Ingu ásamt fjölskyldu. Ætlunin er halda þar meiri háttar fjölskylduhátíð um helgina en allar systur Ingu (þær eru alls fjórar systurnar) ætla að hittast þar með börnum og buru. Það verður án efa líf í tuskunum alla helgina.
Mynd dagsins er að systurunum fjórum ásamt fjölskyldumeðlimum við kvöldverðarborðið. Gaman var að allir voru mættir í helgarfjörið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)