Komist í mark á Menningarnótt!

Laugardagur 22. ágúst 2009.

Ég vaknaði eldsnemma í morgun enda stór dagur framundan. Markmið dagsins var að uppfylla gamlan draum og hlauga 21 km hálfmaraþonhlaup í Reykjavíkurmaraþoni en það hef ég aldrei gert. Ég var reyndar ekki búinn að æfa neitt mjög markvisst fyrir þetta. Hef reyndar alltaf reynt að halda mér í ágætis formi og núna í sumar var farið einstaka sinnum út að hlaupa, mjög ómarkvisst þó. Kl. 8:40 hófst hlaupið og ég var bara í góðum gír. Fyrri hluta hlaupsins var ég að hlaupa mun hraðar en ég er vanur og fékk aðeins að finna fyrir því síðustu 6-7 km þegar ég þurfti að hægja nokkuð á mér. Hlaupið gekk þó gríðarlega vel og ég allra náði bjartsýnasta markmiði mínu, var undir 1 klst og 45 min sem þýðir að ég var að hlaupa hvern km á rétt tæplega 5 min. Inga og strákarnir hlupu svo saman 3 km skemmtiskokk þannig að öll fjölskyldan kom heim með verðlaunapening. Ég var ekki mikið til stórræðanna eftir hádegi en skellti mér í heitan pott og horfði á litla fótboltaliðið í Mosó, Hvíta riddarann, keppa og vinna spennadi leik í 3. deildinni en sigurinn tryggði liðinu sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Mamma og pabbi komu í kvöldmat og svo héldum við fjölskyldan niður í miðbæ til að taka þátt í Menningarnóttinni. Eftir flugeldasýninguna var haldið heim á leið eftir skemmtilegan dag og kvöld!

IMG_5514[1]

Mynd dagsins tók Inga af mér að koma í mark í hálfmaraþoninu. Alltaf gaman að ná markmiðum og sérstaklega þegar það verður í samræmi við björtustu vonir SmileSmileSmile


Ánægjulegt afmæli!

Föstudagur 21. ágúst 2009

Seinni partinn í dag fórum við Inga í fertugsafmæli góðvinar míns, Gísla Tryggvasonar. Gísli bauð gestum sínum í teiti í hvalaskoðunarbátnum Hafsúlunni sem verður, við fyrstu sýn, að teljast nokkuð óvenjulegur staður fyrir afmælisboð. Við Gísli kynntust í MBA-námi í Háskóla Reykjavíkur fyrir nokkrum árum (sjá færslu 5. júní). Sameiginleg vinkona okkar Gísla úr náminu, hún Rannveig, á og rekur hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu. Snekkjan Hafsúlan er eitt af skipum Eldingar. Þar er fínn salur fyrir 50-100 manna boð, hljóðnemar, bar, og allt til alls til veisluhalda. Gísli bauð til afmælisins kl. 17 en kl. 18 var tilkynnt að skipið færi af stað í klukkutíma siglingu um nágrennið enda fínasta veður. Hluti gesta yfirgaf þá veisluna en við hin áttum frábæra stund á siglingu kringum eyjarnar utan við Reykjavík. Merkilegast var þó að rétt utan við höfnina rákumst við á stóran beinhákarl (5-8 m af stærð) sem er mjög sjaldgjæft. Báturinn gat siglt í kringum hann og það var hreint magnað að sjá hákarlinn. Það vakti nokkra athygli okkar gestanna að í aðeins 2-3 km fjarlægð var verið að setja Íslandsmet í sjósundi þar sem tæplega 200 sjósundmenn syntu frá Skarfakletti yfir í Viðey. Þau vissu örugglega ekki af gestinum góðaCool 
gisli
 
Því miður náði ekki almennilegri mynd af hákarlinum en það er hægt að sjá myndir á elding.is. Hins vegar náði ég þeim mun skemmtilegri mynd af okkur úr MBA-hópnum sem voru í þessu mjög svo skemmtilega afmæli. Á myndinni eru frá vinstri: Sesselja, (kona Ívars), Rannveig (eigandi Eldingar), Ívar, Vignir (maður Rannveigar og hvalaskoðunarskipstjóri), Ómar (maður Báru), Bára Einars og Inga. Gísli afmælisbarn er reyndar ekki á myndinni en hægt er að sjá mynd af honum hér til hliðar undir "bloggvinir"

Bloggfærslur 23. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband