5.7.2009 | 23:53
Vöfflukaffi í helgarlokin
Sunnudagur 5. júlí 2009
Við fjölskyldan dvöldum hjá mömmu og pabba á Skaganum í nótt (sjá nánar í bloggfærslu gærdagsins) en um helgina fór þar fram hátíðin "Írskir dagar". Þegar allir fjölskyldumeðlimir voru vaknaðir, var skundað í Skógræktina þar sem lokadagskrárliðir hátíðarinnar fóru fram; hoppukastalar fyrir börnin, Brúðubíllinn o.fl. Við fórum svo á Bjarkargrundina í vöfflukaffi áður en haldið var til baka í Mosó. Við karlanir á heimilinu skelltum okkur þá í sund til að þvo af okkur ryk þessarar skemmtilegu helgar áður en haldið er inn í nýja viku.
Mynd dagsins er tekin í dag í vöfflukaffi á Bjarkargrundinni hjá mömmu og pabba. Sorrý, dálítið dökk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2009 | 13:28
Brekkusöngur og Lopapeysuball á írskum dögum
Laugardagur 4. júlí 2009
Í dag fórum við fjölskyldan upp á Akranes og tókum þátt í bæjarhátíðinni "Írskir dagar" sem stendur yfir þessa helgina. Eftir að hafa skoðað risastórt markaðssvæði og drengirnir höfðu farið hamförum í litlu ferðatívolíi, var grillað á Bjakargrundinni hjá mömmu og pabba í ljómandi fínu veðri þó ekki væri mikil sól. Um kvöldið fórum við svo á Brekkusöng á íþróttavellinum þar sem Eyjólfur Kristjánsson stjórnaði fjöldasöng. Þessi dagskrárliður var samvinnuverkefni milli Lopapeysuballsins og nokkurra sprelligosa úr vinahóp mínum, Club'71 (sjá færslu 23. maí) og haldið í fyrsta skipti í ár. Við renndum því alveg blint í sjóinn hvað kæmu margir og hvernig til tækist. Þetta fór þó allt á besta veg; ég hafði verið plataður til að vera kynnir og þegar ég kynnti Eyjólf til leiks voru mörg hundruð manns mættir. Áður en yfir lauk, rétt fyrir miðnættið, voru komnir vel yfir þúsund manns. Eyfi náði upp miklu stuði og þetta framtak heppnaðist gríðarleg vel. Á eftir fórum við Inga svo á hið fræga Lopapeysuball þar sem yfir 3000 manns voru og við hittum fjöldan allan af gömlum vinum og kunningjum. Við tjúttuðum svo fram á nótt við undirleik Bubba og EGO, og svo Sálarinnar hans Jóns míns sem hætti ekki að spila fyrr en rétt fyrir fjögur. Þá var nú líka kominn tími fyrir okkur skötuhjúin að halda heim eftir skemmtilegan dag og frábært kvöld (og nótt)
Mynd dagsins er frá brekkusöngnum í kvöld. Eyjólfur er í rauðri úlpu lengst til hægri og eins og sjá má var dágóður fjöldi á svæðinu, um 1200 manns - og mikið gaman að sjálfsögðu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2009 | 13:08
Barist um bikarinn
Föstudagur 3. júlí 2009
Dagurinn í dag var einn hlýasti dagur ársins. Alveg brakandi blíða þó það væri ekki stöðug sól. Eftir hádegið tók ég (tengt vinnu minni) þátt í árlegri púttkeppni milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og heimilisfólks Hrafnistu í Hafnarfirði. Við Hrafnistu í Hafnarfirði er staðsettur 18-holu púttvöllur sem er eitt vinsælasta tómstundagaman heimilsfólks yfir sumartímann. Í keppninni er keppt um farandbikar og svo eru líka verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokkum. Í fyrra var bæjarstjórnin tekin alveg í bakaríið í mótinu og Hrafnista hirti öll verðlaunin, þannig að undanfarna daga hefur ríkt mikil spenna um hvað bæjarstjórinn og hans fólk gæti gert til að rétt sinn hlut. Mótið tókst mjög vel og var hið skemmtilegasta í blíðunni. Hafnfirskir bæjarstjórnarmenn náðu nú aðeins að blanda sér í baráttuna um verðlaunsætin þetta árið en á endanum náði Hrafnistufólkið að verja bikarinn
Mynd dagsins er af mér og Lúðvíki bæjarstjóra í Hafnarfirði að togast á um pútt-bikarinn. Skömmu síðar var tilkynnt að hann hefði lent í höndum Hrafnistu í Hafnarfriði. Mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)