23.7.2009 | 22:57
Hvað er WASGIJ?
Fimmtudagur 23. júlí 2009
Síðustu ár hefur verið ein af föstu hefðunum við jólin hjá okkur í fjölskyldunni að púsla saman eitt risastórt fjölskyldupúsl. Hugmyndin er að hafa það á stofuborðinu og fjölskyldumeðlimir og gestir geti gripið í þegar púsllöngunin grípur. Síðustu ár hefur Magnús Árni verið mjög duglegur í þessu fjölskylduverkefni og núna, þegar allir eru saman heima í fríi (eins og á jólunum) fannst honum viðeigandi að ráðist yrði í sameiginlegt fjölskyldupúsl. Fyrir valinu varð eitt af hinum skemmtilegu WASGIJ? púslum. Þetta er hollenskt (skýrir nafnið ) og eru þau sem til eru á heimilinu 1000 bita. Það sem gerir þessi púsl sérstök - og um leið skemmtileg - er að púslararnir vita ekki hvaða mynd þeir eru að púsla. Myndin framan á kassanum sýnir jafnan hóp af mjög undrandi fólki í ýmsum aðstæðum. Púslið gengur svo út á að finna út á hvað þetta ágæta, undrandi fólk er að horfa og þar með hvað gerir fólkið svona hissa eða undrandi. Á mánudaginn byrjaði Magnús að púsla og í morgun kláraðist verkið, reyndar með dyggri hjálp foreldranna.
Mynd dagsins er að Magnúsi Árna með WASGIJ? púslið. Fremst á myndinni er kassinn með vísbendingarmynd um hvað púslarinn á að fara á púsla og svo kemur meistaraverkið sjálft. Við byrjuðum fljótlega á að hafa púslin á pappaspjaldi þannig að mjög fljótlegt er fjarlægja púslið af stofuborðinu, án skemmda, ef nota þarf borðið í öðrum tilgangi meðan púsl-vertíð stendur yfir. Þetta er þrælskemmtilegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009 | 12:42
Sjónvarpsgláp undir sæng
Miðvikudagur 22. júlí 2009
Eftir hádegi í gær fór ég að finna fyrir miklum slappleika og seinni partinn lagðist ég í rúmið. Það var komið stöðugt rennsli úr nefinu á mér og hiti sem fylgdi ágætis hausverkur. Ekki var ástandið betra þegar ég vaknaði í morgun og því var sú ákvörðun tekin að ég yrði í bælinu í dag þrátt fyrir frábært veður úti fyrir. Það er hreint óþolandi að vera veikur á svona degi en maður verður stundum að láta skyndsemina ráða. Það varð því úr að meðan Inga púlaði í garðinum lá ég uppi í rúmi og lagði mig milli þess sem ég horfði á DVD-myndir.
Þar sem þessi dagbók á að fjalla um amk einn ánægjulegan hlut á hverjum degi get ég nú sagt að ég horfði á tvær fínar bíómyndir í dag. Inga leigði fyrir mig myndina TAKEN sem er hörkuspennandi hasarmynd og svo fylgdi með gömul mynd, DaVince Code, sem er orðin fínasta klassík. Maður er nú ekki mjög glæsilegur þegar maður er veikur þannig að mynd dagsins er bara tekin af netinu sem auglýsing fyrir hina ágætu kvikmynd, TAKEN. Sem sagt, þrátt fyrir veru undir sæng í blíðunni gerðist þó eitthvað ánægjulegt í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2009 | 12:31
Leirvogurinn ljúfi
Þriðjudagur 21. júlí 2009
Æðislegt verður í dag. Fyrir hádegi tók ég mig til og fór út að skokka. Fyrir valinu varð stígurinn meðfram Leirvoginum hér í Mosó en hann liggur m.a. meðfram golfvelli bæjarins og mjög fjölskrúðugu fuglalífi. Stundum geta kríurnar verið mjög æstar en núna var allt við Leirvoginn með ljúfasta móti enda fallegur dagur. Í morgun var nánast háfjara þegar ég var á ferðinni og þá er nánst hægt að ganga yfir voginn - enda heitir hann ekki Leirvogur af hreinni tilviljun
Mynd dagsins sýnir Leirvoginn við Mosfellsbæ á fjöru. Í baksýn er Esja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)