Sólin sleikt í Lágafellslaug

Mánudagur 20. júlí 2009

Sumarfrí fjölskyldunnar er byrjað en við Inga erum nú bæði komin í frí. Það er búið að vera alveg ótrúlega heitt í dag. Fyrri hluta dagsins var alveg hreint glampandi sól og við fjölskyldan skelltum okkur í sund þar sem við sleiktum sólina framundir kaffi. Við fórum í Lágafellslaug hér í Mosfellsbænum en þetta er alveg frábær fjölskyldusundlaug sem við sækjum oft, alveg í göngufæri við húsið okkar.

IMG_5112[1]

Mynd dagsins er af Ágústi, Magnúsi og Ingu að sleikja sólina í Lágafellslaug í dag CoolCoolCool


Ættarganga Tungufellsættarinnar

Sunnudagur 19. júlí 2009

Dagurinn í dag fór að mestu leiti í að koma sér heim úr Þórsmörk eftir Laugavegsgöngu síðustu daga. Hópurinn okkar tók rútu til Reykjavíkur eftir hádegið en áður höfðu flestir gengið á Valahnjúk þar sem gott útsýni er yfir Þórsmerkursvæðið. Þegar við komum til Reykjavíkur brunuðum við Ágúst Logi strax austur að Gullfossi og Geysi en á Hótel Gullfossi var sameignlegur kvöldverður eftir Ættargöngu Tungufellsættarinnar sem við tilheyrum. Síðustu 9 ár hefur sú skapast sú skemmtilega hefð að afkomendur Jóns Árnasonar og Sigríðar Árnadóttur (langafi og langamma mín í móðurætt) hafa hist einn dag á sumri og gengið saman skemmtilega dagleið um slóðir forfeðranna. Á eftir hefur svo verið sameignleg kvöldverðarveisla. Jón og Sigríður hófu búskap í Tungufelli í Hrunamannahreppi í byrjun síðustu aldar og áttu 11 börn, 10 þeirra komust til fullorðinsára. Ennþá eru ábúendur í Tungufelli í ættinni. Í dag var sem sagt ættargangan þetta árið. Inga og Magnús Árni fóru í gönguna en við Ágúst náðum í kvöldverðinn á eftir.

IMG_5108[1]

Mynd dagsins er úr kvöldverðarveislunni á Hótel Gullfossi eftir ættargöngu Tungufellsættarinnar í dag. Tæplega 50 manns voru í kvöldverðinum en ekki allir voru með í göngunni. Myndin sýnir okkar fjölskyldu og réttsælis við borðið sitja Ágúst Logi, Mamma, Inga, Magnús Árni, Sigga (móðursystir), Steen (eiginmaður Siggu) og pabbi.


Laugavegur 4: Emstrur - Þórsmörk

Laugardagur 18. júlí 2009

Að vanda lögðu Laugavegsfarar af stað kl. 10 en í dag var síðasti áfangi leiðarinnar á dagskrá, um 15 km ganga inn í Langadal í Þórsmörk. Um hádegibilið gerði á okkur smá skúri en að öðru leiti var veðrið fínt í dag. Það sem gerði þó göngu dagsins óvenjulega var að í dag fór fram Laugavegshlaupið en um 350 hlauparar hlupu þá Laugaveginn í einni bunu. Tæplega kl. 13 geystist fyrsti hlauparinn framhjá okkur en rúmlega 30 mín síðar kom sá næsti og síðan komu þeir hver á fætur öðrum. Hlaupið setti skemmtilegan svip á daginn og við reyndum að hvetja hlauparana sem mest. Rétt áður en komið er að Þórsmörk þarf að fara yfir bratta hæð sem heitir Kápa en margir hlauparana kalla hana "geðveikina". Þá eru aðeins 5 km eftir að hinum 55 km langa Laugavegi. Margir eru þá orðnir mjög þreyttir og að fara upp og niður þessa bröttu hæð tekur vel í. Það sem vakti nú mesta undrun okkar var, að þegar við komum upp á "Kápuna" var búið að lenda þar flugvél. Við nutum svo góðs af hlaupinu við að vaða yfir Þröngá þar sem búið var að strengja band yfir ánna til að hjálpa hlaupurunum en yfir þessa kraftmiklu jökulá þarf að fara yfir með mikill varúð. Þegar við komum inn í Þórsmörk var komin rjómablíða. Flestir smelltu sér í sturtu og hrein föt áður en skellt var upp heljarinnar grillveislu til að fagna farsælum leiðarlokum ferðar okkar. Auðvitað var extra-löng kvöldvaka með leikjum og miklum söng en Ingimar var að sjálfsögðu með nikkuna uppivið öll kvöldin svo göngugarpar gætu sungið í sig kraft.

IMG_5102[1]

Mynd dagsins er að Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk þar sem ferð okkar endaði. Alltaf jafn ótrúlega fallegt í Þórsmörk, sérstaklega í góðu veðri Smile 


Laugavegur 3: Álftavatn - Emstrur

Föstudagur 17. júlí 2009

Í dag hófu göngugarpar leikinn um kl. 10 er farið var úr Álftavatni yfir í Emstur en skálinn þar heitir reyndar Botnar. Í dag er gönguleiðin um 16 km en mestur hluti leiðarinnar liggur um flata en gróðurlitla sanda. Fyrri hluta leiðarinnar þarf að vaða tvær ár, Bratthálskvísl og Bláfjallakvísl en þær eru þó hvorugar mjög stórar. Bláfjallkvísl er þó mun stærri og er fræg fyrir að vera alltaf alveg ísköld. Hún stóð alveg undir þeim væntingum í dag. Eftir að hafa tekið góða kaffipásu í Hvanngili, sem er skáli eftir 4-5 km frá Álftavatni, tók að þykkna í lofti og síðustu tvær klukkustundir dagsins fengu regnföt göngugarpa að spreyta sig í fyrsta skipti í ferðinni þegar við fengum á okkur netta skúri. Við vorum komin kl. rúmlega fjögur í skálann í Emstrum og um kvöldið fóru allir flestir í mislanga göngutúra að Markarfljótsgljúfrum sem eru rétt við Emstruskálan - í fínu veðri. Kvöldvakan í kvöld var höfð í styttra lagi enda erfiður lokadagur framundan.

IMG_5099[1]

Mynd dagins er af Ágústi Loga að vaða yfir ánna Bratthálskvísl. Ágúst var í sérstökum vaðsokkum úr svipuðu efni og blautbúningar, þannig að það var ekki mikið mál fyrir hann að skoppa yfir árnar í dag Cool 


Laugarvegur 2: Hrafntinnusker - Álftavatn

Fimmtudagur 16. júlí 2009

Í dag hélt Laugavegsgangan áfram. Við lögðum í hann frá Höskuldsskála í Hraftinnuskeri áleiðis að Álftavatni um kl. 10. Þessi dagleið er um 12 km en þrátt fyrir að fyrri hluti dags sé nokkuð mikið upp og niður er heildarlækkun á gönguleið dagsins 450-500 m. Á miðri leið brá hluti hópsins sér upp á topp á fjallinu Háskerðingi sem er eitt hæsta fjallið á svæðinu milli skálanna tveggja. Þetta er um 2 klst krókur á leiðinni. Uppi á Háskerðingi er geggjað útsýni til allra átta enda var léttskýjað í dag. Við vorum svo komin í skálann við Álftavatn upp úr kl. 16. Um kvöldið fóru flestir í kvöldgöngu. Annað hvort í styttri ferðina yfir í helli við Álftaskarð eða í lengri ferð upp og niður eftir Bratthálsi sem er við Álftavatnið. Um kvöldið var svo slegið upp dúndur kvöldvöku sem stóð þó ekki of lengi fram á nótt Smile

 

IMG_5097[1]

Mynd dagins er tekin fyrri hluta dags þegar gengið er af stað frá skálanum í Hrafntinnuskeri áleiðis upp á Jökultungur. Á myndinni má sjá fjallið Háskerðing (hæsta fjallið á myndinni) en utan um það liggur Kaldaklofsjökull. Minni fjöllin á myndinni eru kölluð Kaldaklofsfjöll.


Laugavegur 1: Landmannalaugar - Hrafntinnusker

Miðvikudagur 15. júlí 2009

Í dag var ég mættur um kl 8 í Mörkina, við höfuðstöðvar Ferðarfélags Íslands. Þar er að fara vaskur hópur á vegum Ferðafélagsins í Laugavegsgöngu, sem tekin verður á fjórum dögum. Ég er fararstjóri í ferðinni ásamt Ingimar tengdapabba. Hópurinn fór með rútu frá Mörkinni og vorum komin í Landmannalaugar um kl. 12. Þá var gefinn frjáls tími sem sumir nýttu m.a. til að baða sig og fleira. Kl. 13:30 hófst svo gangan í Hrafntinnusker í ágætis veðri. Þessi dagleið er 10-12 km og er upphækkun alls tæpir 500 m. Á leiðinni brugðum við okkur upp á fjallið Brennisteinsöldu þar sem mjög gott útsýni var yfir svæðið. Við vorum komin um kl. 18 í Hrafntinnusker og um kvöldið gat fólk valið um stuttan göngutúr upp á fjallið Söðul eða lengri ferð að jaðri íshella hinum megin í Hrafntinnuskerinu. Mjög fínn dagur.

IMG_5090[1]

Mynd dagsins er af gönguhóp Ferðarfélagsins við Landmannalaugar áður en lagt var af stað. Í hópnum eru 20 manns auk fararstjóranna mín og Ingimars og aðstoðarfararstjórans, Ágústar Loga.


Bloggfærslur 20. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband