12.7.2009 | 22:41
Skarðsvík - líklegasta flottasta baðströnd landsins
Laugardagur 11. júlí 2009
Skarðsvík, yst á Snæfellsnesi, er einn af uppáhaldsstöðum fjölskyldunnar. Þarna er að finna gullna og hreina sandströnd án steina og sjávargróðurs, inn á milli dökkra og glæsilegra kletta. Í blíðunni í dag ákváðum við fjölskyldan að skella okkur þangað. Skarðsvík er eitt af best geymdu leyndarmálum Snæfellsness. Tiltölulega fáir vita af þessari glæsilegu baðströnd sem á góðum degi myndi sóma sér mjög vel á Spáni eða í Portúgal. Helst er að heimamenn sæki Skarðsvík og það var einnig svo í dag. Töluvert var af fólki á ströndinni en nóg pláss og engar hrúgur af fólki eins og gerist studum á sólarströndum. Við undum okkur vel við leik í sandinum og busl og sundtök, og meira að segja húsfreyjan sjálf stóðst ekki mátið og skellti sér í sjóinn til kælingar. Eftir sólbaðið fórum við á Djúpalónssand sem skartaði sínu fegursta og gengum yfir í Dritvík. Í dag er Djúpalónssandur sennilega að verða frægastur fyrir aflraunasteinana fjóra sem þar er að finna í fjörunni en þeir voru notaðir á árum áður til að meta hvort menn væru skipstækir til róðra eður ei. Til að fá skipspláss þurfti að geta lyft Hálfdættingi upp á sérstaka sillu. Steinarnir heita Amlóði (ca 25 kg), Hálfdrættingur (ca 50 kg), Hálfsterkur (um 100 kg) og Fullsterkur (155 kg). Fjölskyldan var nokkuð stolt þegar fjölskyldufaðirinn hóf Hálfsterkan á loft en aðalvandmálið við steinatökin er að ná góðu taki. Við fundum okkur svo góðan náttstað í nágrenninu þar sem var grillað og spilað fram á nótt.
Mynd dagsins er tekin í Skarðsvík, yst á Snæfellsnesi. Þarna áttum við fjöskyldan frábæran dag en í góðu veðri er þetta flottasta baðströnd landsins. Hár klettur skagar út í víkina. Það er mjög vinsælt að hlaupa fyrir klettinn og reyna að sleppa við að öldurnar nái manni. Inga tók þessa mynd af okkur feðgum að leika þann leik
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)