8.6.2009 | 21:17
Minningaöldur Sjómannadagsins
Sunnudagur 7. júní 2009
Í dag var Sjómannadagurinn og þá er í mörg horn að líta í tengslum við vinnu mína. Ég byrjaði daginn í minningarathöfn um drukknaða sjómenn sem haldin er við "Minningaröldurnar" við Fossvogskirkjugarð. Svo var ég mættur í Sjómannamessu í Dómkirkjunni áður en haldið var í ferð með Ingu minni milli hátíðarhalda á Hrafnistuheimilunum en þar er jafnan mikið um dýrðir á þessum degi.
Mynd dagsins tók ég við Minningaröldurnar við Fossvogskirkjugarð en á þetta minnismerki eru letruð nöfn allra sjómanna sem drukknað hafa síðustu áratugi. Á sjómannadaginn er árlega haldin stutt minningarathöfn og lagður blómsveigur hinum látnum sjógörpum til heiðurs. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar standa heiðursvörð við athöfnina ásamt dómsmálaráðherra en þau voru að þessu sinni aðstoðuð af sjóliðum af norsku herskipi. Þetta var mjög tignarleg og falleg athöfn. Myndin sýnir Einar Jónsson trompetleikara leika við athöfnina við minningaröldurnar og í baksýn er heiðursvöðurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 21:16
Síkátir sjóarar
Laugardagur 6. júni 2009
Vegna starfa minna fyrir Sjómannadagsráð (eiganda Hrafnistuheimilanna) fórum við Inga nú í kvöld á árlegt Sjómannadashóf. Hófið var að þessu sinni haldið á hótel Nordica Hilton. Þar var boðið upp á glæsilega þriggja rétta sjómannamáltíð. Veislustjórn var í höndum hins eina sanna Gísla Einarssonar fréttamanns, og Örn Árnason leikari og Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir sáu um skemmtiatriðin. Á eftir var dansleikur fram á nótt. Við Inga skemmtum okkur vel í góðum hóp en vorum þó komin snemma heim þar sem framundan er strembinn dagur.
Mynd dagsins er frá Sjómannadagshófinu á hótel Nordica Hilton. Þarna voru sjómenn, makar og ýmsir snillingar. Þrátt fyrir að vita engin deili á þessum köppum valdi ég þessa mynd til að minna mig á að lífið á að vera skemmtilegt. Þessir síkátu sjóarar eru greinilega alveg með það á hreinu en þeir stilltu sér upp í myndatöku með höfðingjanum Bigga Björgvins og eiginkonu hans
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)