3.6.2009 | 22:36
Borgari á Búllunni
Miðvikudagurinn 3. júní 2009
Í dag fórum við feðgarnir á Dalbrautina og heimsóttum langömmu (= ömmu mína) sem verður hvorki meira né minna en 100 ára síðar í þessum mánuði. Meira um hana síðar þegar stórafmælið verður. Eftir heimsóknina - og þar sem Inga var að vinna fram á kvöld - fórum við feðgar á einn skemmtilegasta veitingastað landsins, Hamborgarabúlluna niður við höfn. Þeir bræður voru að koma þarna í fyrsta skipti en ég hef komið þarna 3-4 sinnum áður gegnum tíðina. Við feðgarnir borðuðum allir "Tilboð aldarinnar" sem er hamborgari að hætti hússins með frönskum og kók - hrikalega gott stundum Það er ótrúlega sérstakt að koma inn á þennan stað, sennilega minnsta veitingastað landsins (í fermetrum). Mjög sérstök stemming þarna inni og hún bara jókst þegar Magnús þurfti á klósettið, þá var okkur hleypt inn fyrir afgreiðsluborðið fram hjá eldsteikjandi kokkunum og inn í smáholu innst í húsinu. Innréttingarnar eru alveg snilld, andrúmsloftið kúl og maturinn fínn. Mæli með að fólk geri sér hreinlega menningarferð inn á þennan stað
Mynd dagsins er af Magnúsi og Ágústi á Hamborgarabúllunni að snæða "Tilboð aldarinnar". Mjög gaman að koma á þennan veitingastað sem óhætt er að kalla einn óvenjulegasta veitingastað landsins!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2009 | 19:35
Lífspeki Dalai Lama
Þriðjudagur 2. júní 2009
Í dag fórum við Inga í Laugardalshöll að hlýða á fyrirlestur Dalai Lama, trúarleiðtogans frá Tíbet, sem staddur var hér á landi. Uppselt var á viðburðinn og líklegast um 3000-5000 manns. Held að það sé svo sem ekki ástæða til að rekja hér sorglega sögu um yfirgang Kínverja í Tíbet, útlegð Dalai Lama og friðsamlega baráttu hans fyrir þjóð sína. Fyrirlestur eða spjall Dalai Lama var mjög áhugavert og var í stuttu máli um að tileinka sér góðar venjur og atferli í leiðinni að lífshamingjunni. Sannarlega áhugaverður maður og ekki annað hægt en að heillast af lífsspeki þeirri sem maðurinn lifir eftir. Mjög áhugavert.
Þar sem ekki var leyft að taka myndir inni í Laugardalshöll á fyrirlestri Dalai Lama, ákvað ég að velja mynd af röðinni fyrir utan Laugardalshöll sem mynd dagsins. Allt þetta fólk var að bíða eftir að komast inn. Röðin gekk nú bara ótrúlega vel en hún náði nánast út af hringtorginu við Ásmundarsafn þegar lengst var. Ein stærsta röð sem ég hef séð hér á landi en fyrir flesta, líklegast þess virði að bíða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2009 | 19:22
Gleðilega garðyrkju
Mánudagur 1. júní 2009
Stóran hluta dagsins í dag vorum við Inga að vinna í garðinum. Það þurfti að slá, arfinn byrjaður að spretta víða um héruð og ýmsilegt smálegt sem þarf að sinna. Ágúst fór að keppa seinni partinn og fórum við Magnús Árni að horfa. Þegar heim var komið voru grillaðir kjúklingaleggir sem runnu ofan í mannskapinn.
Mynd dagsins er tekinn í garðinum þar sem sláttustörf standa yfir. Fínn dagur og allt stefnir í að nóg verði um gleðilegar garðyrkjustundir í sumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2009 | 00:16
Afmælisveisla á Hvanneyri
Sunnudagur 31. maí 2009
Í dag fórum við fjölskyldan upp á Hvanneyri, nánar tiltekið í Fífusund. Þar búa tengdaforeldrarnir Anna og Ingimar en Anna á einmitt afmæli í dag. Okkur var boðið í þetta glæsilega afmælishlaðborð áður en fjölskyldan hélt í ævintýragönguferð kringum Vatnshamravatn sem er við Fífusund. Við vatnið er mikið fuglalíf og sáum við nokkrar tegundir af fuglum, fundum hreiður, sáum litla unga og einhverjir göngugarpanna festust í drullunni (sumir oftar en aðrir). Veðrið var glæsilegt og eftir góða útiveru héldu tengdó á hótel Hamar og fóru út að borða í tilefni dagsins, en við héldum heim á leið með viðkomu á Skaganum. Horfðum reyndar á fína íslenska bíómynd seint um kvöldið, Sveitabrúðkaup. Eiginlega einum of vitlaus en samt þrælfyndin mynd.
Mynd dagsins er frá afmælisveilsunni á Hvanneyri. Frá vinstri: Ingimar, Anna afmælisbarn, Ágúst Logi, Inga og Magnús Árni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)