Látrabjarg eftir miðnætti

Mánudagurinn 29. júní 2009

Dagurinn í dag hófst upp á Látrabjargi en við fjölskyldan (án Magnúsar Árna) erum í gönguferð um Rauðsand og Látrarbjarg með 40 félögum í göngu- og gleðihópnum Hvatberum. Gærdagurinn endar þar sem þessi dagur hefst, á 10 km gönguferð eftir Látrabjargi. Á miðnætti áttum við eftir u.þ.b. 90 min göngu að Látrabjargsvitanum. Veðrið var hreint stórglæsilegt. Þó ekki væri alveg heiðskýrt var gott skyggni til allra átta og hlýtt. Alveg ógleymanlegt kvöld. Við vorum komin í tjaldbúðirnar okkur upp úr kl. 2 og flestir fóru þá að sofa þó einhverjir hafi kveikt á grilli til að svala hungrinu og ekki farið í svefnpokan alveg strax. Upp úr hádegi fóru svo Hvatberar að tínast heim eftir hreint frábæra ferð. Við fjölskyldan vorum komin í Mosó upp úr kl. 19, sólbrún og þreytt eftir frábæra ferð.

IMG_1447[1]
 

Mynd dagsins er tekinn upp á Látrabjargi um miðnættið og sýnir hluta hópsins. Rauðisandur sést í fjarska Cool


Costa del Rauðasandur

Sunnudagur 28. júní 2009

Hvatberar fengu að sofa út í dag í Rauðsands/Látrabjargsferðinni. Það var glampandi sól og blíða og um kl. 11 þegar fór að flæða að yfir sandinn skelltu flestir úr hópnum sér út í sjóinn enda er Rauðasandur ein glæsilegasta baðströnd landsins. Hægt er að vaða gríðarlega langt út án dýpkunar og þegar sólin hefur hitað upp sandinn áður en byrjar að flæða að verður sjórinn nánast ylvoglur. Þetta nýttu Hvatberar sér í dag til baðferða áður en haldið var í ferð dagsins sem lá yfir í Sauðlauksdal og síðan var flug- og minjasafnið að Hnjóti skoðað. Að loknu grilli að Hvarlátrum var haldið í 10 km miðnæturgöngu eftir Látrabjargi sem líður okkur seint úr minni.

IMG_1321[1]

Mynd dagsins er á sundgörpum á Rauðasandi í morgun. Alveg hreint frábært að vera þarna í blíðunni. Við fjölskyldan erum fyrir miðri mynd.


Surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli

Laugardagur 27. júní 2009

Í gærkvöldi, eftir afmælisveislu ömmu, brunuðum við fjölskyldan á Rauðasand á sunnanverðum Vestfjörðum (skildum reyndar Magnús Árna eftir heima). Þar hittum við fyrir göngu- og gleðihópinn Hvatbera sem við erum félagar í, en um 40 manns voru mættir í tjaldbúðir hópsins á Rauðasandi. Hvatberarnir fara einu sinni á ári í gönguferð og að þessu sinni voru Rauðisandur, Látrabjarg og nágrenni á dagskránni. Við misstum reyndar af tveimur fyrstu dögum ferðarinnar, m.a. siglingu fyrir Látrabjarg með tilheyrandi eggjaáti. Í dag gekk hópurinn yfir á hið sögufræga eyðibíli Sjöundaá, skoðuðum vitann í Skor og gengum hinar hættulegu Geirlaugarskriður yfir að Surtarbrandsnámunum í Stálfjalli. Það er nú allt of langt mál á lýsa þessum frábæra degi hér en hluti hópsins var ferjaður til og frá milli Skorar og námanna af öryggisástæðum. Veðrið var hreint frábært og þegar komið var í tjaldbúðir um 22:30 um kvöldið var slegið um dúndur grillveislu og sungið, drukkið og spjallað til tæplega 3 um nóttina. Meiriháttar dagur!!!

IMG_1252[1]

Það er úr mjög mörgum skemmtilegum myndum að velja í dag en ég held að það óvenjulegasta hafi verið að ganga um surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli. Þetta eru námur sem gerðar voru á árunum 1913-15. Námurnar eru um 5 metra breið göng (2 metrar á hæð) neðst í fjallinu, þar sem brúnkol (surtarbrandur) voru unnin en þau voru notuð til kolagerðar. Göngin eru nokkrir rangalar en hrunið er fyrir einn gangamunnan og bara lítið gat ennþá á öðrum munna til að komast inn um. Mjög merkilegt að koma þarna en mæli ekki með að þarna sé farið nema með kunnugum. Mynd dagsins er af mér inn í námunni, en þar er auðvitað alveg kolniðamyrkur!


100 ára afmæli ömmu

Föstudagur 26. júní 2009

Í dag á amma, Guðný Maren Oddsdóttir (mamma hans pabba) hvorki meira né minna en 100 ára afmæli. Af þessu tilefni var blásið til afmælisveislu seinni partinn í dag þar sem nánustu ættingjar komu saman og samfögnuðu með afmælisbarninu á Dalbrautinni þar sem hún býr. Þetta var fínasta veisla. Við vorum búin að smala saman myndum tengdu lífshlaupi ömmu og sýndum þær í skjávarpa. Þessar myndir vöktu mikla lukku enda sumar myndanna sem fáir höfðu séð. Amma var hin ánægðasta með daginn.

þjodbuningur 2

Mynd dagsins er af henni ömmu, Guðnýju Maren Oddsdóttur. Myndin er reyndar ekki tekin í dag, Smile heldur fyrir um 80 árum þegar amma var um tvítugt. Mér finnst myndin svo flott að hún á sannarlega heima hér á þessari síðu. 


Bloggfærslur 29. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband