24.5.2009 | 19:23
Óvissuferð: sjóstöng og Sálarball!
Laugardagurinn 23. maí 2009
Aldeilis annasamur dagur í dag. Eftir að hafa verið dómari í fótboltamóti hjá Ágúst Loga frá kl 9-14:30 fór ég beint í óvissuferð með hópi æskufélaga af Skaganum, en hópurinn kallar sig Club'71. Við spilum saman fótbolta einu sinni í viku yfir vetrartímann og hittumst auk þess 2-3 á ári og gerum eitthvað skemmtilegt. Í dag var semsagt óvissuferð á dagskrá sem skemmtinefnd klúbbsins hafði skipulagt. Við byrjuðum á að fara upp á Akranes og skelltum okkur í sjóstangaveiði. Þegar í land var komið var farið með mannskapinn í sund og borðuðum svo fínustu nautasteik þegar leið á kvöldið ásamt glæsilegum desert. Um miðnætti fóru flestir upp í rútu og hópurinn skellti sér í Mosfellsbæinn þar sem rúmlega 700 manns voru á dansleik í íþróttahúsinu með hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns. Þetta var hrikalega skemmtilegur dagur sem heppnaðist glæsilega!
Mynd dagsins er af hópnum að gæða sér á nautasteik. Að þessu sinni voru í hópnum (frá vinstri): Maggi, ég, Þorvaldur, Valli, Höddi Svavars, Jón Sigurðs (gestur), Siggi Sig, Auðunn, Jón Bjarni, Sævar, Jón Eiríkur, Svenni, Elvar og Doddi. Á myndina vantar Hannes og Rúnar og Ástþór og Gurra sem kíktu líka aðeins á okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2009 | 16:32
Fótboltavertíðin er hafin
Föstudagur 22. maí 2009
Ég var fríi í vinnunni og átti náðugan dag heimafyrir. Hápunktur dagsins verður nú að teljast þegar við feðgarnir fórum á Varmárvöll og sáum fyrsta heimaleik karlaliðs Aftureldingar á þessari fótboltavertíð. Andstæðingarnir voru lið Hauka að þessu sinni og endaði leikurinn 1-1. Afturelding voru einum færri í seinni hálfleik þannig að það var nú bara alveg ágætt að ná jafnteflinu. Það er yfirleitt mjög gaman að fara á leiki, sjá fótbolta og hitta skemmtilegt fólk. Þar sem ég er fyrrverandi formaður Knattspyrnudeildar Aftureldngar reyni ég nú að sjá flesta heimaleiki hjá meistaraflokkum Aftureldingar og aðstoða stundum við leikina. Í þessum leik var mér falið það hlutverk að taka á móti heiðursgestum leiksins, þeim Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra Mosfellsbæjar og Karli Tómasyni forseta bæjarstjórnar, og fylgja þeim inn á völlinn í upphafi leiks til að heilsa upp á leikmenn.
Mynd dagsins er frá leiknum á Varmárvelli í kvöld og var tekin af blaðamanni frá fotbolti.net. Þarna er ég með Haraldi bæjarstjóra og Karli forseta bæjarstjórnar sem eru að heilsa upp á Berta fyrirliða Aftureldingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)