15.5.2009 | 22:29
Sól og sumar í Haukadalsskógi
Föstudagur 15. maí 2009
Í dag fórum við fjölskyldan í vorferð "gigtarteymisins" á Reykjalundi. Inga er að vinna á Reykjalundi og er meðlimur þessa þverfaglega teymis á stofnuninni. Rúmlega 20 manns voru í ferðinni sem heitið var í Haukadalsskóg við Geysi. Það er ekki hægt að segja annað en veðrið hafi aldeilis leikið við okkur - sól og brakandi blíða í skjólinu sem oftast er í skóginum. Eftir gönguferð um skóginn og viðeigandi nestispásur var haldið í næsta dal er Helludalur heitir. Einn í hópnum að byggja þar sumarbústað sem við heimsóttum. Þar fengum við kakó og aðra hressingu og fórum í leiki áður en haldið var aftur heim í Mosfellsbæinn.
Mynd dagsins er af hópnum í gönguferð í Haukadalsskógi. Mjög fínn og skemmilegur hópur. Sérstaklega ánægjuleg ferð á besta degi sumarsins (hingað til)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2009 | 22:07
Sigurður Fáfnisbani tæklaður
Fimmtudagur 14. maí 2009
Í kvöld var Inga í saumaklúbbi þannig að við strákarnir voru einir heima. Þó Ísland væri ekki að keppa í Júróvisión í kvöld var nú kveikt á sjónvarpinu og horft á með öðru auganu þegar lögin í hinum undanúrslitariðlinum rúlluðu í gegn. Mestur tími kvöldsins fór þó í að hlýða Ágústi Loga yfir bókmenntafræðina en það er próf hjá honum í fyrramálið. Nú er próftímabilið að byrja í Lágafellsskóla sem stendur yfir næstu 2 vikur. Í bókmenntafræðinni voru nokkrar merkar sögur til prófs en þungamiðjan var sagan af Sigurði Fáfnisbana og Brynhildi sem við feðgarnir tækluðum saman og krufðum til mergjar. Bara mjög gaman að rifja upp þessa sögu og Ágúst bara nokkuð vel með málin á hreinu fyrir próf morgundagsins.
Mynd dagsins er af Ágúst Loga að glíma við bókmenntafræðina sem er fyrsta prófið í próftímabili 7. bekkjar í Lágafellsskóla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)