Foreldrafundur og spennandi sumar framundan

Mánudagur 11. maí 2009

Það er alveg óhætt að fullyrða að birgðir heimilisins af sólarvörn voru ekki mikið hreyfðar í dag. Bullandi rigning allan daginn þannig að varla var hægt að fara út þó ekki væri kalt. Í kvöld fór ég á foreldrafund hjá 4. flokki í knattspyrnudeild Aftureldingar þar sem Ágúst Logi er að æfa. Það var ágætis mæting foreldra en umræðuefnið var heimsókn frá sænsku liði til okkar í Mosfellsbæinn nú í seinni hluta maí-mánaðar (þar sem við foreldrar þurfum að vera dugleg að hjálpa til) og leikir og mót sumarsins. Lögð var fram leikjaskrá sumarsins sem er mjög þægileg - reyndar þarf að fara til Vestmannaeyja að keppa en það verður bara gaman. Auk hefðbundinna leikja í Íslandsmótinu verður í lok júlí farið á Rey-Cup, 5 daga mót sem haldið er af Þrótti í Laugardalnum og á öðrum knattspyrnuvöllum þar í kring.

IMG_0385[1]

Mynd dagsins er af foreldrafundinum í kvöld. Í forgrunni eru Bjarki þjálfari og Hanna Símonar "ofur-mamma" í boltanum að fara yfir málin fyrir okkur foreldrana - sannarlega spennandi knattspyrnusumar framundan hjá Ágústi Loga og strákunum!


Góðir sigrar og vöffluát

Sunnudagur 10. maí 2009

Við fjölskyldan áttum mjög rólegan dag, í dag. Helsta verkefnið var að við fjölskyldan fórum niður á Varmárvöll upp úr hádeginu og fylgdumst með Ágúst Loga keppa með 4. flokki Aftureldingar við Selfoss. Ágúst keppti bæði með A og B-liðum þannig að dágóð stund fór í þetta. Afturelding náði mjög góðum úrslitum í báðum leikjum. Ágúst kom varla við boltann í hvorugum leiknum en hann er markmaður Aftureldingar. Þegar heim var komið smellti húsMóðirin í vöfflur sem fjölskyldumeðlimir sporðrenndu með bestu lyst. Af því að það er nú mæðradagurinn í dag er rétt að taka fram að húsmóðirin var alveg hreint svakalega dugleg í garðyrkjustörfum í dag! 

IMG_0384[1]

Mynd dagsins er að Ágústi Loga að keppa í dag. Myndin er nokkuð lýsandi fyrir þátttöku hans í leikjum dagsins. Það var mikil einstefna að marki andstæðinganna í báðum leikjunum og Ágúst var áhorfandi mest allan tímann - það er nú samt bara ágætt stundum að vinna stóra sigra Smile


Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband