8.12.2009 | 23:41
Ágúst Logi Hendrix?
Mánudagur 7. desember 2009
Ég var nú bara eitthvað hálfslappur í vinnunni í dag. Ekki beint með hita en eitthvað lympulegur og hóstaði mikið. Þegar ég kom heim skreið ég bara beint undir sæng og tók það bara rólega. Sængin sem fyrir valinu varð, var hins vegar ekki mín sæng heldur fór ég inn í herbergi unglingsins á heimilinu og stalst upp í rúmið hans. Kom mér svo þægilega þar fyrir undir sænginni og spilaði Playstation meðan líkaminn fékk að vinna á kvillunum sem voru að hrjá mig. Eigandi herbergisins var nokkuð hissa á þessari innrás enda þó ég sé oft gestur í herberginu er það nú mjög sjaldgæft að ég leggist upp í rúmið. Meðan ég lá þarna og lét mér batna dró sonurinn fram rafmagnsgítar og magnara en síðan í fyrra hefur hann verið að læra á gripinn. Ég hlustaði því nokkuð stoltur á gítaræfinguna þó að samkomulagi hafi orðið eftir nokkra stund að drengurinn tengdi heyrnatól við magnarann til að minnka hávaðan.
Mynd dagins er tekin frá sjónarhorninu úr rúminu hans Ágústar Loga nú í kvöld þar sem ég lá dágóða stund nú í kvöld - spilaði playstation og hafði það huggulegt. Þarna er kappinn að æfa sig á rafmagnsgítarinn og aldrei að vita nema hann verði kallaður "Hendrix" í framtíðinni í höfuðið á gítarhetjunni frægu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 23:29
Þegar piparkökur bakast...
Sunnudagur 6. desember 2009
Einn af föstum jólasiðum fjölskyldunnar er að baka saman piparkökur fyrir jólin - og auðvitað skreyta þær. Í dag var piparkökudagurinn mikli. Eftir að hafa farið með piparkökusöngin um hádegisbilið, flatt út degið og búið til alls konar karla, kerlingar og hjörtu úr deginum var seinni partinum varið í að skreyta piparkökurnar (og auðvitað aðeins að smakka). Þetta er alltaf hluti af jólastemningunni; við hlustum á jólalög og höfum það huggulegt. Mjög fínt að halda svona upp á annan sunnudag í aðventu!
Mynd dagsins er sýnishorn af afrakstri dagsins í piparkökubakstri og skreytingum fjölskyldunnar. Spurning hvað Mikki refur myndi segja við þessu?!?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 23:17
Grettukeppni í jólaös
Laugardagur 5. desember 2009
Það var nóg um að vera í dag hjá mér. Eftir að hafa vaknað snemma og skellt mér í ræktina var í mörg horn að líta við jólaundirbúninginn. Eftir hádegið skaust ég í vinnuna þar sem ég þurfti að ljúka nokkrum mikilvægum verkefnum og svo var verið að"jólast" þegar heim var komið. Um kvöldið fórum við Inga svo og hittum góða félaga þar sem við áttum frábært kvöld við (of)át í góðra vina hópi fram á nótt.
Þó nóg hafi verið að snúast í dag gáfum við Magnús Árni okkur tíma til að fara í smá grettukeppni. Mynd dagsins er staðfesting á því að Magnús er mjög efnilegur í þessari íþrótt. Enda á hann ekki langt að sækja hæfileikanna. Okkur fjölskyldunni er ennþá í fersku minni þegar Guðrún mágkona var plötuð í grettu-keppni um verslunarmannahelgina á Flúðum fyrir nokkrum árum - og sigraði með yfirburðum og náði meðal annars að rata í aðalfréttatíma Sjónvarpsins fyrir framtakið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 23:03
Bingó - bingó
Föstudagur 4. desember 2009
Í kvöld fór ég á árlegt jólabingó Starfsmannafélags Hrafnistu í Reykjavík. Það er löng hefð fyrir þessu kvöldi - sem að mér skilst - er alltaf með svipuðu sniði. Tæplega 200 manns voru saman komin í Breiðfirðingabúð við Skeifuna, þar sem borin var fram dýrindis kvöldverður; sjávarréttasúpa og purusteik með tilheyrandi meðlæti. Margir tóku sig nú til og skoluðu þessu niður með rauðvíni eða öðrum afsprengjum Bakkusar. Að lokinni máltíð var tekið til við að spila bingó og margir glæsilegir vinningar í boði. Þrátt fyrir ágætis ásetning reið ég nú ekki feitum hesti frá þessu bingói - en átti hins vegar mjög skemmtilega stund með góðu fólki. Eftir bingóið gat fólk svo tjúttað og þegar ég fór heim upp úr kl. 23 var dansgólfið ennþá iðandi að brosmildum bingóspilurum.
Því miður gleymdist myndavélin í kvöld þannig að ég á enga mynd frá bingó-kvöldinu. Hins vegar rakst ég að þessa fínu bingómynd á netinu sem verður bara að duga sem mynd dagsins í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 22:38
Þvörusleikir hin þykki
Fimmtudagur 3. desember 2009
Ein af mörgum skemmtilegum hefðum við jólin er jólabaksturinn. Ég verð þó að viðurkenna að gegnum tíðina hef ég ekkert verið sérlega duglegur á því sviði - en þó tekið þátt, yfirleitt eitthvað tilneyddur. Þó verður að geta þess að alla tíð hefur sérsvið mitt í þessum jólabakstri verið að bregða mér í hlutverk jólasveinsins "Þvörusleikis" og sleikja sleifar og skálar. Alveg hrikalega gott Það sem hefur hins vegar breyst, er að hin síðari ár hef ég passað verr og verr í hlutverk hins þvengmjóa Þvörusleikis (eins og honum er líst í kvæði Jóhannesar úr Kötlum) og stundum fegið uppnefnið "Þvörusleikir hinn þykki" hér á heimilinu. Mynd dagsins var tekin nú seinni partinn þegar ég kom heim úr vinnunni og greip aðeins í að "sleikja" þegar húsfreyjan stóð í bakstri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 22:38
Amma flytur á Hrafnistu
Miðvikudagur 2. desember 2009
Stundum er heimurinn lítill. Á dögunum gerðist það að hún amma, sem fagnaði 100 ára afmæli í sumar (sjá færslu 26. júní 2009), flutti tímabundið inn á Hrafnistu í Reykjavík - en það er eins og áður hefur komið fram, vinnustaður minn. Amma hefur frá stríðsárum búið í Laugarnesinu og nú síðustu 10 ár á Dalbraut í íbúðum fyrir aldraðra. Hún hefur ekki lengur heilsu til að búa þar og því dvelur hún nú í 6 vikur í hvíldarrými á Hrafnistu - auðvitað kom ekkert annað til greina en Hrafnistan í Laugarásnum. Ég reyni því að kíkja til hennar, öðru hverju, þegar stund gefst í lok vinnudags og í dag var amma alveg mjög hress - við spjölluðum um Vestfirði og ég las fyrir hana nokkur ljóð.
Mynd dagsins er tekin þegar pabbi varð 70 ára árið 2005. Myndin sýnir ömmu í góðum hópi; með langömmudrengjunum Magnúsi Árna og Ágústi Loga, mér og pabba (syni sínum).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)