Ævintýraveröld Avatar

Mánudagur 21. desember 2009

Þremur klukkutímum af þessum styðsta degi ársins ákvað ég að verja í bíó. Ágúst Logi sonur minn og frænkan Anna Dagbjört (sjá færslu gærdagsins) ákáðu að fara saman í bíó og sjá stórmyndina AVATAR. Anna Dagbjört og bróðir hennar Kristinn Þór, eru annars í tveggja daga heimsókn hjá okkur hér í Mosfellsbænum. Þegar ég frétti af bíóferð Ágústar og Önnu ákvað ég að "kúpla" mig út úr jólaundirbúningi og raunveruleikanum og skella mér með þeim í bíó. Kvikmyndin Avatar hefur fengið mikla umfjöllun undanfarið en hún er mikið sjónarspil og "augnkonfekt". Kvikmyndin gerist í framtíðinni á litlu tungli sem heitir Pandóra. Þar býr ættbálkur sem nefnast Na´vi en það eru 3 metra háir frumbyggjar bláir að lit sem hafa skýr einkenni mannfólks. Við mennirnir eigum í strýði við ættbálkinn og inn í þetta fléttast svo falleg ástarsaga. Myndin er sýnd í þrívídd og er gríðarlegt sjónarspil lita og hljóða fyrir augu og eyru - einstakt í kvikmyndasögunni segja margir og ég held bara að ég sé sammála því. Söguþráðurinn er í sjálfu sér ekki merkilegur en að horfa svona á myndina í þægilegu sæti í þrívídd og góðu hljóðkerfi er alveg hreint mögunuð upplifun. Mæli með því að þeir sem ætla á annað borð að sjá myndina sjá hana í þrívídd og góðu hljóðkerfi.

avatar

Mynd dagsins er fengin af láni og sýnir tvær aðalpersónur kvikmyndarinnar AVATAR sem ég fór að sjá í dag með Ágústi Loga og Önnu Dagbjörtu - mjög skemmtileg bíó-upplifun!


Laufabrauðsbakstur

Sunnudagur 20. desember 2009

Um hádegið brunaði stórfjölskyldan á Flúðir eða nánar tiltekið í Unnarholtskot, rétt utan við Flúðir þar sem Kristín mágkona býr ásamt fjölskyldu. Þar var heimasætan í kotinu, Anna Dagbjört, að halda upp á 12 ára afmælið sitt með fullt að kökum og flottheitum. Eftir skemmtilega afmælisveislu var haldið í Reykholt í Biskupstungunum þar sem Anna og Ingimar, tengdaforeldrar mínir eiga íbúð sem þau nota mikið. Í Reykholti var fjölmenni úr fjölskyldunni og tíminn seinni part dagsins og fram á kvöld notaður í laufabrauðsbakstur. Þetta er siður sem við Inga höfum um árabil stundað með tengdaforeldrunum fyrir jólin en misjafnt hverjir aðrir hafa bæst í hópinn. Venjulega hefur þessi athöfn farið fram á föstudagskvöldi á Hvanneyri þar sem tengdó bjuggu lengi en sökum þess að þau eru nú flutt í Borgarnes var ákveðið að prófa að hafa bakstur í Reykholti þetta árið. Útskurður og bakstur gengu gríðarlega vel. Mitt hlutverk hefur venjulega verið í "steikingum" og gekk það bara ágætlega þetta árið þó ég segi sjálfur frá Smile Aðalatriðið þar er að hafa rétt hitastig á feitinni sem steikt er upp úr þannig að hárréttur litur verði á laufabrauðinu. Á því sviði hafa Inga og tengdamamma mjög ólíkar skoðanir og þá verður auðvitað að passa sig að koma á móts við óskir allra. Við vorum svo komin heim upp úr kl. 10 þannig að hægt væri að fara snemma í bólið fyrir síðustu vinnudagana fyrir jól.

IMG_6523[1]

Mynd dagins er tekin í laufabrauðsbakstri stórfjölskyldunnar í Reykholti í dag. Það var afmælisbarnið Anna Dagbjört sem átti án efa "flottasta" skurð dagsins á laufabrauðinu þegar hún skar út þetta skemmtilega andlit úr einni kökunni. Myndin er tekin ofan í steikingapottinn og sýnir laufabrauðið í steikingu. Mjög skemmtilegur dagur! 


Kíkt á Keflavíkurflugvöll

Laugardagur 19. desember 2009

Dagurinn í dag fór auðvitað í alls konar útréttingar vegna jólanna, enda í mörg horn að líta. Um miðjan dag brugðum við feðgar þó undir okkur betri fætinum og smelltum okkur í stuttan túr á Keflavíkurflugvöll. Þar vorum við að sækja Guðrún mágkonu sem býr í Þýskalandi. Guðrún er að koma til landsins nú um jólin og ætlar að dvelja hjá okkur meira og minna þann tíma. Guðrún komst heilu og höldnu til landsins þrátt fyrir nokkrar tafir á flugi og samgöngum í Evrópunni vegna snjóföls og kulda. Það voru fangaðarfundir þegar Guðrún kom út enda alltaf fjör að fá hana í heimsókn.

gudrun Leifsstod
 

Mynd dagins er tekin í Leifsstöð í dag þar sem við feðgarnir sóttum Guðrúnu mágkonu sem var að koma til landsins frá Stuttgart í langþráð jólafrí.


Litlu jólin...

Föstudagur 18. desember 2009

Í dag er ábyggilega hápunktur jólahlaðborða og litlu jóla á vinnustöðum. Ég held að mér hafi ekki verið boðið í nema fjögur slík í dag þó ég hafi ekki geta sótt þau öll. Byrjaði þó daginn á að fara í "villibráðarhlaðborð" hjá Gísla Páli félaga mínum en stundin var einnig notuð til fundarhalda í leiðinni. Í dag bauð svo Hrafnista, vinnustaður minn, öllu starfsfólki upp á jólamáltíð í hádeginu og það nýttu sér margir. Fyrirfram hafði starfsfólk verið hvatt til að mæta í einhverjum rauðum klæðnaði og margir urðu við því. Sjálfur setti ég upp fagurrautt jólasveinahálsbindi í tilefni dagsins. Í Laugarásnum þar sem ég var mest í dag, var hópurinn glæsilegur yfir að líta í rauða þemanu og gaman að taka þátt. Jafnframt höfðu öll Hrafnistuheimilin og starfsfólk allra deilda verið hvatt til að halda "litlu jól" og það gerðu því margir - með mjög mismunandi hætti sem er auðvitað bara hið besta mál. Seinni partinn héldum við sem vinnum á skrifstofum Hrafnistu, okkar litlu jól - fengum okkur ljúffengt rauðvín og osta og áttum skemmtilega stund áður en haldið var heim eftir langan dag.

 

litlujól skrifstofu

Mynd dagsins er tekin á Hrafnistu, vinnustað mínum, seinni partinn í dag, þar sem við sem vinnum á skrifstofum Hrafnistu héldum upp á litlum jólin saman og áttum góða stund.


Bloggfærslur 27. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband