13.12.2009 | 10:54
Stekkjastaur og mínímóarnir
Laugardagur 12. desember 2009
Í nótt kom fyrsti jólasveinn, Stekkjastaur, til byggða ef það hefur farið framhjá einhverjum. Magnús Árni (6 ára) var vaknaður "mjög snemma" og kominn upp í rúm til okkar foreldrana til að sýna okkur framlag Stekkjastaurs um nóttina. Það er glæsileg Spider-man bók sem þegar hefur verið skírð leynibók Magnúsar Árna. Það var nokkur undrun hjá sumum þegar kom í ljós að ég hafði sjálfur gleymt að setja skóinn út í glugga og þar af leiðandi ekki fengið neitt. "Pabbi, hvernig er hægt að gleyma að setja skóinn út í glugga?!?" Ég hef nefnilega á síðustu árum stundum sett skóinn minn út í glugga, þó hann sé nr. 45. Yfirleitt hef fengið eitthvað í hann enda er ég ótruglega oft duglegur og stilltur og trúi auðvitað á jólasveinana. Úr þessu verður að bæta strax í kvöld. Deginum eyddum við fjöskyldan í ýmislegt jólastúss og vorum bara mjög ánægð að eiga einu sinni laugardagskvöld saman í rólegheitum. Við Magnús fórum þó í bíó í dag ásamt Elísabetu vinkonu hans þar sem við sáum myndina Arthúr og mínímóarnir númer 2. Þau skemmtu sér vel þó persónulega hafi mér mynd númer eitt verið töluvert betri.
Mynd dagsins er af Magnúsi Árna og Elísabetu vinkonu hans, tekin í bíó í dag þar sem við sáum myndina Arthúr og mínímóarnir númer 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 10:38
Jólahlaðborð á Grandhótel
Föstudagurinn 11. desember 2009
Í kvöld skelltum við Inga okkur á jólahlaðborð á Grandhótel í góðra vina hópi, alls 20 saman. Hlaðborðið var alveg glæsilegt og mjög ljúffengt - hver rétturinn á fætur öðrum og maður náði ekki nærri því að smakka á öllu sem var í boði. Mikill metnaður er greinlega settur í framsetningu og útliti réttanna þannig að kræsingarnar náði vel að tæla augu okkar hlaðborðsgesta. Maður gerði samt sitt besta til að ofbjóða ekki maganum þannig þrátt fyrir mikla "mettun" passaði ég mig á að vera ekki alveg að springa Á miðju kvöldi gengu fallegar blómarósir á milli borða og sungu jólalög. Yfir desertunum kom enginn annar en stórsöngvarinn Helgi Björnsson og tók nokkur jólalög og klassískar dægurperlur sem "klöppuðu kviðnum mjúklega" eins og söngvarinn sjálfur orðaði það. Að loknu borðhaldi var svo stuðdansleikur með hljómsveitinni Hafrót. Það er nú reyndar ekki uppáhaldshljómsveitt okkar hjónanna en við fengum okkur þó góðan snúning á dansgóflinu ásamt hópnum okkar áður en haldið var heim um miðnæturbil. Alveg ljómandi kvöld og ljómandi undirbúnngur fyrir jólin!
Eitthvað er mér farið að förlast varðandi myndir dagins og eins og oft áður upp á síðkastið gleymdist myndavélin. Tók þó þessa mynd af Helga Björns á símann minn sem verður að duga sem mynd dagsins þegar ég fór á frábært jólahlaðborð á Grand hótel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 10:13
Dagrenningur - aldarsaga Aftureldingar
Fimmtudagur 10. desember 2009
Nú í kvöld kom ég við í Lágafellsskóla hér í Mosfellsbænum. Þar var mér boðið í útgáfuhóf í tilefni af útkomu nýrrar bókar sem heitir Dagrenning - aldarsagar Aftureldingar. Afturelding er íþróttafélagið hér í Mosfellsbænum en félagið hefur verið að fagna 100 ára afmæli á þessu ári með ýmsum hætti. Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður var ég í þrjú ár formaður Knattspyrnudeildar Aftureldingar þannig að maður tengist þessari merkissögu þó það hafi ekki varað lengi (ennþá amk). Bókin er mikið og glæsilegt rit en höfundar eru Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. Ég er mjög ánægður með uppsetninguna á bókinni en textinn er mikið brotinn upp með myndum og stuttum köflum.
Mynd dagsins af kápu nýju bókarinnar, Dagrenningur ásamt boði á útgáfukvöldvöku bókarinnar. Bókin er flott og skemmtilegt framtak!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 10:04
Áhugaverð ráðstefna um öryggismörk
Miðvikudagurinn 9. nóvember 2009
Það var nóg um að vera hjá mér í dag. Þó verður hápunktur dagsins líklega að teljast mjög áhugaverð ráðstefna sem ég sótti í dag um öryggismörk í heilbrigðisþjónustu. Ég er fulltrúi Hrafnistuheimilanna (vinnustaðar míns) i stjórn Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og er þar reyndar varaformaður. Eitt af markmiðum samtakanna er að halda uppi umærði í þjóðfélaginu um hagsmunamál aðildarfélaga samtakanna. Í haust tók ég að mér, ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum samtakanna, að sjá um að halda ráðstefnu um öryggismörk í heilbrigðisþjónustu og sem sagt, sú ráðstefna fór fram eftir hádegi í dag. Það er þó nokkur undirbúningur fyrir svona ráðstefnu. Við vorum nokkuð vongóð um góða mætingu enda málefnið mjög ofarlega á baugi þessi misserin vegna efnahagsástandsins og einnig auglýstum við þetta vel. Enda kom á daginn að húsið var troðfullt - sæti voru fyrir 120 manns og eitthvað var bætt við af stólum í viðbót. Á mælendaskrá voru meðal annars tveir ráðherrar og ráðstefnustjóri var Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona (Útsvar/Kastljós). Ráðstefnan gekk bara mjög vel og almenn ánægja meðal þátttakenda. Ég ætla nú ekki að fara rekja efni erindanna hér eða umræður - en amk fór ég mjög sáttur heim eftir daginn. Um kvöldið var svo ágætisfrétt um ráðstefnuna í Sjónvarpinu og niðurstöður hennar.
Mynd dagsins er tekin í dag á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um Öryggismörk í heilbrigðisþjónustu. Á myndinni má sjá fyrirlesara í pallborði og eru frá vinstri: Pétur Blöndal alþingismaður, Eva Þengilsdóttir varaformaður samtakanna Almannaheill, Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Páll Pálsson formaður Samtaka Fyrirtækja í heilbrigðistjónustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 09:52
"Plokkarinn" klikkar aldrei!
Þriðjudagurinn 8. desember 2009
Í hádeginu í dag fór ég á veitingastaðinn Þrjá frakka á Baldursgötunni. Síðustu ár hef ég ásamt þremur félögum mínum haldið í þá hefð að hittast þar í hádeginu, 2-3svar á ári. Við erum allir gamlir félagar úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þó ég heyri í og hitti Sævar vin minn reglulega eru það hinir tveir, Kristinn golfari með meiru og Borgnesingurinn Jón Guðmundur, sem ég er ekki í eins miklu sambandi við. Hádegið er þvi mjög fljótt að klárast þegar við hittumst því margt þarf að spjalla og fara yfir "stöðuna" á hverjum og einum síðan síðast. Í dag vorum við sem sagt að hittast og var glatt á hjalla. Ekki spillti svo fyrir að plokkfisturinn á Þremur frökkum klikkar aldrei svo að þátttaka i þessum hópi ásamt plokkfiskunum, er uppskrift sem klikkar aldrei. Mynd dagsins er af plokkfiskáti okkar félaganna á Þremur frökkum, reyndar ekki mjög mikil gæði á myndinni: Frá vinstri: Sævar, Jón G., Kiddi og ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)