Kaffi- og piparkökusölumenn

Laugardagur 28. nóvember 2009

Það var ýmislegt brasað í fjölskyldunni í dag og kvöld þannig að dagurin leið hratt. Milli fjögur og sex í dag vorum við Magnús Árni að aðstoða Ágúst Loga við mikla manndómsraun. Knattspyrnudeild Aftureldingar, þar sem Ágúst stundar æfingar, er í fjáröflunarskyni að selja piparkökur og kaffi nú fyrir jólin. Um helgina var ákveðið að vörurnar yrðu boðnar til sölu í sölubás sem staðsettur var framan við verlsun Bónus hér í Mosfellbænum. Og semsagt - við feðgar tókum að okkur eina vakt á sölubásnum. Manndómsraun Ágústar Loga fólst í því að ganga milli fólks, sem var á ferðinni framan við verslunina og bjóða því piparkökur og kaffi til kaups. Það má alveg segja í hreinskilni að yfir 90% aðspurðra afþökkuðu þessar frábæruvörur þannig óharnaður unglingurinn þurfti smá hvatningu öðru hvoru. Hins vegar gekk þetta bara nokkuð vel hjá Ágústi og mikilvæg atvinnureynsla safnaðist í sarpinn hjá piltinum. Við Inga ákváðum að verðlauna hann fyrir þessi góðu störf með því að leyfa honum að velja kvöldmatinn - sem var pítsa frá Eldhúsinu hér í Mosfellsbænum.

IMG_6337[1]

Mynd dagsins er tekin við kaffi- og piparkökusölubásinn framan við Bónus, hér í Mosfellsbænum. Þarna er sölumaðurinn Ágúst Logi á ferð og þrátt fyrir mörg "nei" náði hann að selja þónokkuð af pökkum og safna mikilli reynslu í sölumennsku.


Skákmót á Skaganum

Föstudagur 27. nóvember 2009

Inga þurfti að vinna langt fram á kvöld þannig að við feðgarnir brugðum undir okkur betri fætinum, nú seinni partinn, og skelltum okkur í heimsókn til mömmu og pabba á Skaganum. Þar var að sjálfsögðu dekrað við okkur. Ljúffengur kvöldmatur borin fram og ís á eftir - sem sló heldur betur í gegn. Svo áttum við mjög góða stund. Meðal annars var gripið í tafl og fleira. Fer ekki mörgum orðum að úrslitum þeirra skáka enda ríkti ungmennafélagsandinn yfir vötnum - aðalmálið er ekki að vinna heldur að vera með.

IMG_6331[1]

Mynd dagsins er tekin í heimsókn hjá mömmu og pabba á Akranesi nú í kvöld. Þarna sitjum við feðgarnir ásamt pabba en hörkuspennandi skákmót fór meðal annars fram.


Og þá eru það jólaseríurnar...

Fimmtudagurinn 26. nóvember 2009

Á sunnudaginn hefst aðventan með tilheyrandi hátíðarhöldum. Vegna þessa hef ég fengið mjög skýr skilaboð frá frúnni að útijólaseríur heimilisins séu ekki komnar upp. Í kvöld tók ég mig til og byrjaði að undirbúa þetta gríðar umfangsmikla verkefni - að græja jólaseríur heimilsins.

IMG_6393

Mynd dagsins er tekin í bílskúrnum í kvöld þar sem ég er að reyna að komast til botns í jólaseríumálum heimilisins CoolCool


Beðið eftir Klæng sniðuga

Miðvikudagur 25. nóvember 2009

Í dag fórum við Magnús Árni í Krónuna. Erindið var að kaupa jóladagatal Sjónvarpsins sem hefst næsta þriðjudag, fyrsta desember. Jóladagatal Sjónvarpsins verður að þessu sinni ævintýrið um Klæng sniðuga og vini hans. Þetta jóladagatal er eftir spaugarana Stein Ármann og Davíð Þór Jónsson. Dagatalið var fyrst frumsýnt fyrir jólin 1997 og hefur notið miklla vinsælda í fjölskyldunni. Fyrir þá sem hafa stúderað jóladagatölin síðustu ár þykir þetta dagatal vera með því besta sem framleitt hefur verið af RÚV ásamt sögunni af englunum Pú og Pa, en það dagatal hefur verið sýnt 3-4 sinnum hin síðari ár. En allveganna, bíður Magnús Árni mjög spenntur eftir að kynnast sögunni um Klæng sniðuga, Harald íkorna, Grálúðuna geðvondu og Lovísu með lærin þykku sem við hin í fjölskyldunni höfum oft vísað til síðustu árin.

IMG_6340

Mynd dagsins er af Magnús Árna sem er hér sigri hrósandi komið með Jóladagatal sjónvarpsins 2009 í hendurnar - söguna af Klæng sniðuga. Nú er bara að telja niður dagana fram að fyrsta demsember þegar sagan hefst.


Pípur í planinu

Þriðjudagur 24. nóvember 2009

Nú er mikið að gerast í heimilishaldinu hér í Hrafnshöfðanum. Hér fyrir utan hefur öll innkeyrslan verið grafin upp en vösk sveit manna er hér að helluleggja innkeyrsluna með hitalögnum og tilheyrandi. Sonunum stóð ekki á sama þegar þeir komu heim úr skólanum í dag, þegar grafa sem var nokkrar mannhæðir að stærð var búin að moka upp úr lóðinni okkar. Fljótlega kom þó nýr jarðvegur og sandur og seinni partinn var kominn pípulagningamaður að leggja snjóbræðslukerfi. Ef veðrið verður þokkalegt mun framkvæmdin taka 2-3 vikur - amk er búið að ræða mjög vel að þetta brölt verði búið vel fyrir jól og verður aldeilis gaman þegar þetta verk verður tilbúið Smile

IMG_6335[1]

Mynd dagsins er af planinu okkar hér í Hrafnshöfðanum þar sem bláarpípur ráða nú ríkjum. Fjölskyldan bíður spennt eftir að verkið klárist.


Heilsubælið í Gervahverfi

Mánudagur 23. nóvember 2009

Það vinsælasta á heimilinu þessa dagana er DVD-diskur sem barst hingað á dögunum - Heilsubælið í Gervahverfi. Heilsubælið eða Heilsubælið í Gervahverfi er íslensk þáttasería sem framleidd var fyrir Stöð 2 árið 1987. Þættirnir fjalla um líf starfsfólks Heilsubælisins og baráttu þeirra við sjúklingana. Gert er grín að sjúkrahúslífinu eins og mögulegt er og fara Laddi, Pálmi Gests og Edda Björgvins á kostum. Synirnir báðir og vinir hlægja mikið en ekki síður höfum við Inga mjög gaman að rifja upp þessa þætti og hlægja að gömlum, góðum og klassískum bröndurum.

heilsubælið

Mynd dagsins er kynningarmynd fyrir Heilsubælið í Gervahverfi - þessa gömlu góðu þáttaseríu sem nú er komin á DVD og hefur algerlega slegið í gegn hjá yngri kynslóðinni á heimilinu.


Bloggfærslur 1. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband