3.11.2009 | 22:03
Þegar allir leggja sitt af mörkum...
Þriðjudagur 3. nóvember 2009
Í dag lenti ég í þeirri lífsreynslu að vera fyrstur á vettfang í alvarlegu bílslysi. Ég var að keyra ásamt nokkrum félögum mínum eftir vinstri akrein á Reykjanesbrautinni, á móts við Smáralind, þegar keyrt var á gangandi mann á vinstri akreininni í gagnstæða átt við okkur. Ekki veit ég forsöguna en mér er skyndilega litið til vinstri yfir að Smáralindinni og sé þá dökka þúst snúast í loftköstum og lenda á götunni. Það tók mig einhver sekúndubrot að átta mig á að þessi dökka þúst var maður. Ósjálfráð viðbrögð mín voru að drífa bílinn upp á umferðareyju og rjúka út að manninum. Á leiðinni hringdi ég í 112 og fékk aðstoð vegna fyrstu viðbragða. Ég sá fljótt að maðurinn andaði en var ekki með meðvitund. Eftir smá stund hreyfðust augun og svo komst smá saman til meðvitundar. Lögreglan var komin eftir 5-10 min og sjúkrabíll nokkru síðar. Það sem er nú merkilegast við þetta er hve margir voru hjálpsamir á þessari stundu. Oft heyrir maður talað um að Íslendingar séu lítið að skipta sér að öðrum og hjálpi ekki náunganum en það var nú ekki í þessu tilviki. Fljótlega á eftir mér kom fleira fólk til aðstoðar, einhver kom með teppi en aðrir byrjuðu að stjórna umferð enda lá maðurinn inn á fjölfarinni hraðbraut. Ég tók líka eftir að nokkrir fóru að hlúa að ökumanninum og farþegum hans enda var bíllinn þeirra stórskemmdur. Það var alveg ljóst þegar ég kom að manninum að hann var töluvert slasaður (ætla ekki að lýsa því nánar) en þó leið mér mjög vel að sjá þegar hann komst til meðvitundar. Ánægjulegt var að sjá allt þetta fólk leggja sitt af mörkum og lögreglan og sjúkrabíllinn voru komnir ótrúlega fljótt á vettfang. Eftir aðeins 15 mín frá því að slysið gerðist gekk ég aftur í bílinn minn og var því bara örlítið seinn á fundinn sem ég var að fara á. Ég vona að maðurinn nái sér eftir þetta þó það taki örugglega dálítinn tíma en ekki síður vona ég að ökumaðurinn jafni sig fljótt - örugglega ansi mikið sjokk fyrir hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.11.2009 | 21:24
Twister!
Mánudagur 2. nóvember 2009
Nú undir kvöld fórum við Magnús Árni í skemmtilegt spil eða leik sem heitir "Twister". Þessi leikur er mjög skemmtilegur og reyndir aldeilis á liðleika, styrk og úthald. Keppendur gera til skiptist og þurfa að færa hönd eða fót milli litaðra bletta á "leikvellinum". Sá sem dettur fyrr tapar. Mjög skemmtilegt!
Mynd dagsins er af okkur Magnúsi Árna að leika hin skemmtilega leik "Twister".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)