Kátt í Kotinu!

Laugardagur 21. nóvember 2009

Þrátt fyrir að hafa verið í skemmtilegri veislu í gærkvöld var ég kominn á fætur kl. 7 í morgun og mættur í Knattspyrnuhöllina í Reykjanesbæ kl. 8:15. Þar var Ágúst Logi sonur minn að keppa á fótboltamóti. Við vorum komnir heim upp úr hádegi. Seinni partinn fórum við fjölskyldan til Kristínar mágkonu minnar og hennar fjölskyldu í Unnarholtskoti við Flúðir. Það var kátt í kotinu - krakkar léku saman og við fullorðna fólkið spjölluðum. Svo þurfti líka að borða góðan mat saman en við vorum samt bara komin snemma heim aftur. Bara stutt en skemmtileg heimsókn í þetta skiptið!

IMG_6301[1]

Mynd dagsins er tekin hjá Kristínu mágkonu og fjölskyldu, í Unnarholtskoti í kvöld. Það var kátt í Kotinu en þarna erum við að borða saman. Á myndinni eru frá vinstri: Magnús Árni, Kristín Erla, Inga, Ágúst Logi, Kristinn Þór, Anna tengdó, Anna Dagbjört, Styrmir og Þorsteinn litli.  


Heimsókn í Ölgerðina

Föstudagur 20. nóvember 2009

Nú í kvöld var með boðið að skoða Ölgerðina ásamt góðum hópi fólks. Ölgerðin er eitt af elstu fyrirtækjum landsins, en hún náði 95 ára aldri árið 2008. Nú er Ölgerðin í að framleiða, flytja inn, dreifa og selja matvæli og sérvöru af ýmsum toga. Í september opnaði Ölgerðin nýtt og glæsilegt húsnæði. Byrjað var á að bjóða okkur inn á "bar" fyrirtækisins þar sem við fengum hressingu og farið var yfir sögu fyrirtækisins á skemmtilegan hátt. Svo fórum við í skoðunarferð þar sem okkur var m.a. sýnd bjórbruggun fyrirtækisins á öllum stigum og ýmislegt fleira. Eftir skoðunaferðina fór ég svo í mjög skemmtilega veislu þannig að kvöldið var hið ánægjulegasta í alla staði!

egils

Mynd dagsins er líklega af frægustu vöru Ölgerðarinnar - appelsíninu. Það var mjög gaman og forvitnilegt að skoða Ölgerðina nú í kvöld.


Guðdómlegar kótilettur!!!

Fimmtudagur 19. nóvember 2009

Í kvöld var ég staddur á haustfundi Sjómannadagsráðs, en ráðið er meðal annars eigandi vinnustaðar míns, Hrafnistuheimilanna. Fundur sjálfur er svo sem aukaatriði hér en hins vegar er ein dásamlega skemmtilegt hefð tengd haustfundinum. Í lok fundar er fundarmönnum ætíð boðið til kvöldverðar og það er alltaf það sama í matinn: kótilettur í raspi með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli. Þetta er alveg guðdómlega gott og eitt það besta sem ég fæ (enda mjög óhollt) enda er þessi fæða ekki víða á boðstólnum lengur. Þrátt fyrir að ég væri að fara í fótbolta síðar í kvöld borðaði ég mig alveg pakksaddan enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona gamaldags kótilettur!

kótilettur

Mynd dagsins er af mér með kótiletturnar á haustfundi Sjómannadagsráðs í kvöld - alveg guðdómlega gott SmileSmileCool


Bragðgott bókmenntahlaðborð

Miðvikudagur 18. nóvember 2009

Í kvöld fórum við Inga á árlegt Bókmenntakvöld Bóksafns Mosfellsæjar, sem kallast "Bókmenntahlaðborð". Síðustu ár hefur bókasafnið boðið bæjarbúum á bókmenntakvöld þar sem nokkrir íslenskir höfundar hafa komið og lesið úr verkum sínum fyrir gesti, sem sitja vítt og breitt um safnið við kertaljós og fá rauðvínsglas og piparkökur. Í kvöld var fullt út úr dyrum þegar við Inga mættum enda fimm spennandi höfundar að lesa. Þetta voru Huldar Breiðfjörð (Færeyskur dansur), Kristín Marja Baldursdóttir (Karlsvagninn), Stefán Máni (Hyldýpi), Steinunn Sigurðardóttir (Góði elskhuginn) og síðast, en ekki síst heimamaðurinn Jón Kalman Stefánsson (Harmur englanna). Á eftir voru svo pallborðsumræður höfundanna undir stjórn Katrín Jakobsdóttur bókmenntafræðings og menntamálaráðherra. Það verður nú bara að segjast eins og er að þetta kvöld var hið fínasta skemmtun - og höfundarnir voru bara hver öðrum betri og heppnaðst bara mjög vel að láta höfundana lesa sjálfa. Umræðurnar voru líka skemmtilegar þannig að kvöldið var hið ánægjulegasta.

IMG_6288[1]

Mynd dagsins er frá bókmenntahlaðborðinu á Bókasafni Mosfellsbæjar í kvöld. Rithöfundarnir eru við langborðið og eru frá vinstri: Huldar Breiðfjörð, Stefán Máni, Steinunn Siguðardóttir (standandi), í hvarfi við hana er svo Kristín Marja Baldursdóttir, Jón Kalman Stefánsson og á endanum er stjórnandi kvöldsins, Katrín Jakobsdóttir - mjög skemmtilegt og bragðgott bókmenntahlaðborð Smile


Bloggfærslur 23. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband